Svör við spurningalista

Fyrir fáeinum dögum bað kjósandi okkur sem erum í kjöri til stjórnlagaþings að svara nokkrum spurningum. Aðeins var beðið um að svarað yrði með einu orði en hér á blogginu hef ég auðvitað aðstöðu til aðgera örlítið nánar grein fyrir afstöðu minni.

Viltu að landið verði eitt kjördæmi?

Svar: Ég vildi helst blandaða leið

Það er nauðsynlegt að jafna vægi atkvæða. Það gerist auðvitað sjálfkrafa ef landið er sameinað í eitt kjördæmi, en eins mætti einfaldlega fækka þingmönnum í fámennari kjördæmum og í raun er hægt að reikna fulltrúafjölda hvers kjördæmis út frá mannfjölda fyrir hverjar kosningar.

Það er nauðsynlegt að fólk úr öllum landshlutum eigi sér rödd meðal þingmanna. Meiri hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og því gæti það gerst ef landið væri eitt kjördæmi, að fólk á landsbyggðinni ætti sér fáa eða enga málsvara á þingi.

Mín hugmynd að lausn væri að fara blandaða leið, hluti þingmanna yrði kosinn sameiginlega af öllum landsmönnum en aðrir yrðu kjörnir sem fulltrúar kjördæma. Ég hef séð setta fram svipaða hugmynd þar sem talað er um tvær deildir. Ég sé hins vegar enga ástæðu til annars en að allir þingmenn störfuðu saman í einni deild eins og verið hefur.

Viltu að ríkið veiti einu trúfélagi forréttindi umfram önnur?

Svar: Nei            

Ég vil þó taka fram að ég tel að við endurreisn samfélagsins þurfi markvisst að vinna með siðræna færni og samfélagsvitund. Ábyrg þátttaka trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga skiptir þar miklu máli og tryggja þarf starfsskilyrði þeirra þótt fallið verði frá núverandi tengslum ríkis og þjóðkirkju. - Mér finnst spurningin raunar nokkuð leiðandi. Þegar mikill meiri hluti þjóðarinnar tilheyrir einu trúfélagi verður staða þess óhjákvæmilega önnur. Ég vil virða þjóðarvilja í þessu máli.

Viltu að almenningur eigi allar náttúruauðlindir

og njóti arðs af þeim?           

Svar: Í stórum dráttum já           

Ég tel land raunar til náttúruauðlinda en tel t.d. eðlilegt að bændur geti átt jarðir sínar. Mér þætti þó vert að skoða hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að land eða landbúnaðarkvóti geti safnast á fárra hendur. Eignaupptaka (eins og í þjóðlendumálinu) ætti hins vegar ekki að eiga sér stað bótalaust.

 

Viltu að vernd umhverfis og náttúru verði höfð að leiðarljósi

við allar framkvæmdir?

Svar:

Ég vil forðast öfga arðráns og friðunar. Skilgreina þarf hvað eigi að friða en nýta annað á sjálfbæran hátt.

 Viltu að öll orkufyrirtæki séu í eigu almennings?

Svar: Nei            

Ég tel rétt að helstu auðlindirnar séu í eigu almennings og stjórnvöld stýri nýtingu þeirra í almannaþágu. Ég vil ekki útiloka að fyrirtæki geti verið í einkaeigu en stjórnvöld verða að sjálfsögðu að setja slíkri starfsemi lagaramma. 

Viltu að Ísland verði áfram aðili að Atlandshafsbandalaginu?

Svar: Nei            

Ég vildi sjá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna eflda til að halda uppi alþjóðalögum og friði, með það að markmiði að varnar- eða hernaðarbandalög verði lögð niður. Þótt það sé ekki á færi íslenskra stjórnvalda að koma því í kring ;) þætti mér eðlilegt að þau ynnu út frá þessu sjónarmiði.

Viltu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu

náist hagstæðir samningar?

Svar: Óviss         

Þarna er svo margt sem mælir bæði með og á móti að ég er hreinlega ekki búin að gera þetta upp við mig. Mér finnst mikilvægt að umsóknarferlið sé klárað, enda betra að hafa sem gleggstar upplýsingar til að taka afstöðu út frá.


Þarf fólk í öllum landshlutum að eiga fulltrúa á þingi?

Í umræðunni um að landið eigi að vera eitt kjördæmi hef ég séð því haldið fram að það sé til marks um óþarfa togstreitu landsbyggðar og þéttbýlis að skipta landinu í fleiri en eitt kjördæmi. Nær væri að tryggja rétt landsbyggðarinnar í stjórnarskrá en svo getum við öll verið í sama kjördæminu og þá myndu allir þingmenn taka tillit til dreifbýlis. - Hvaða rétt landsbyggðarinnar ætli sé verið að tala um ef þau réttindi að eiga fulltrúa á þingi eru álitin óþörf?

Í samkeppnispólitík (sem ég óttast að verði stunduð enn um sinn) er vænlegra til árangurs að höfða til meirihluta en minnihluta. Þess vegna er ekki aðeins hugsanlegt að stundum fengi landsbyggðarfólk fáa eða jafnvel enga fulltrúa, heldur ekki síður að þeir sem sætu við stjórnvölinn sinntu mun betur þörfum meirihlutans.

Vissulega er það meðal minna heitustu óska að stjórnmálaumræða færist  frá baráttu og karpi yfir í samráð. En jafnvel við slíkar kjöraðstæður er mikilvægt að samræðan fari fram frá ólíkum sjónarhornum. Það gerir hana frjórri og til verða lausnir sem enginn einn í hópnum sá fyrir.

Það er ekki af mannvonsku sem fólk sér fyrst og fremst sína eigin hlið. Það er einfaldlega mannlegt. Auðvitað þekkjum við og skiljum best það sem við sjálf lifum og hrærumst í. Vitneskja er heldur ekki nóg til skilnings. Við vitum um fátækt, hungur og óréttlæti í heiminum en gerum sáralítið í því. Leggjum ekki einu sinni á okkur að leita leiða til úrbóta. En ef slíkt stendur okkur nærri, þegar eitthvað snertir okkur, þá bregðumst við frekar við. Vegna þessa mannlega eðlis er mikilvægt að sem flestir eigi fulltrúa þar sem rætt er um þjóðmálin og ákvarðanir teknar.



Á landið að vera eitt kjördæmi?

Það er nauðsynlegt að jafna vægi atkvæða. Það gerist auðvitað sjálfkrafa ef landið er sameinað í eitt kjördæmi, en eins mætti einfaldlega fækka þingmönnum í fámennari kjördæmum og í raun er hægt að reikna fulltrúafjölda hvers kjördæmis út frá mannfjölda fyrir hverjar kosningar.

 

Það er nauðsynlegt að fólk úr öllum landshlutum eigi sér rödd meðal þingmanna. Meiri hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og því gæti það gerst ef landið væri eitt kjördæmi, að fólk á landsbyggðinni ætti sér fáa eða enga málsvara á þingi.

 

Mín hugmynd að lausn væri að fara blandaða leið, hluti þingmanna yrði kosinn sameiginlega af öllum landsmönnum en aðrir yrðu kjörnir sem fulltrúar kjördæma. Ég hef séð svipaða hugmynd þar sem gert er ráð fyrir tveimur deildum. Ég sé hins vegar enga ástæðu til annars en að allir þingmenn starfi saman í einni deild eins og verið hefur.

Ég veit að það eru fleiri fletir á þessu máli en þetta þykja mér vera aðalatriðin.

 

 

 


Nei þetta er nú allt of mikið

Þegar ég var að alast upp á Tannastöðum hékk þar á vegg mynd af síðhærðum sérkennilegum manni. Hann var okkur óskyldur en hann fylgdi staðnum. Afkomendur hans höfðu óskað þess og aldrei hvarflaði að neinu okkar annað en að það væri heiður að hafa uppi myndirnar af honum og konu hans.

Myndinni fylgdi saga. Hann hafði verið heiðraður af kóngi en hann brást við af mikilli hógværð og íslenskri kurteisi og honum varð að orði: „Nei, þetta er nú allt of mikið!“ Þessi lítilláti maður sem hafði alist upp á Tann(a)stöðum ríflega hálfri annarri öld á undan mér hafði unnið það afrek að kortleggja Ísland auk þess að skrifa stjörnufræðirit og skáldrit en lengst mun hann hafa unnið við kennslu, m.a. við Bessastaðaskóla.

Á tímum þegar við eigum sífellt að vera að „selja“ okkur, alltaf að halda því til haga hvað við séum snjöll og brilljant og klár ...  æ, þá finnst mér nú notalegt að hugsa til Björns Gunnlaugssonar.


Fortíð eða framtíð

Af ýmsum ástæðum virðist umræða um þjóðkirkjuna, og tengsl hennar við ríkið, ætla að verða fyrirferðarmikil  í aðdraganda stjórnlagaþings.  Margir þeirra sem tala fyrir áframhaldandi sambandi halda mjög á lofti fortíð okkar, menningu og sögu.

Ég er nú á því að hlutverk stjórnlagaþingsins sé miklu frekar að horfa fram en aftur.  Hvort stjórnarskráin verði vel lukkuð byggir ekki síst á því hvort þingið skipi fólk sem er ekki um of bundið við fortíðina en getur skapað nýja sýn á nýja tíma.

Nýir tímar þurfa að byggjast á einingu en ekki einsleitni. Einingu í margbreytileika - þar sem fólk gefur hvert öðru svigrúm og virðir stöðu minnihlutahópa. Í því samhengi ætti ekki að skipta öllu máli hvort trú á Guð eða trú á guðleysi væri í meiri- eða minnihluta. Virðing fyrir skoðunum annarra þarf í öllum tilvikum að vera fyrir hendi.

Mig langar auðvitað að sjá að fólk geti trúað á mannlegar framfarir. Okkur á nú að vera orðið ljóst að samfélagsumbætur felast ekki í reiknuðum hagvexti. Við þurfum að vinna með viðhorf og þroska til að efnahags- og samfélagsumbætur fari hönd í hönd. Ábyrg þátttaka trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga skiptir þar máli.

Loks er rétt að hafa í huga að hefðu Íslendingar verið álíka fastheldnir á fortíðina fyrir þúsund árum og sumir þeirra sem nú tjá sig um málefni þjóðkirkjunnar, er spurning hvort eða hvenær orðið hefði af kristnitöku hér á landi.


Svar við fyrirspurn Biskupsstofu

Biskupsstofa hefur beðið þá sem eru í kjöri til stjórnlagaþings að gera grein fyrir afstöðu sinni til sambands ríkisins og þjóðkirkjunnar. Ég hef sent frá mér þetta svar:

Miðað við nýlegar skoðanakannanir og niðurstöðu þjóðfundar virðist meirihluti almennings vilja rjúfa núverandi tengsl ríkis og þjóðkirkju og eðlilegt er að til þess verði horft við gerð stjórnarskrárinnar. Ástæður þess að fólk vill rjúfa tengslin eru í stórum dráttum af tvennum toga og afar ólíkar.

  • Sumir vilja einfaldlega sem allra minnst trúarleg áhrif í samfélaginu, telja trú og trúarbrögð arf fortíðar sem ekki eigi erindi við upplýsta nútímamenn.  
  • Aðrir tala um að tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið skapi henni svo mikil forréttindi umfram önnur trúfélög að í raun sé fólki mismunað eftir trúfélögum. Það sé því í þágu jafnréttis að rjúfa þessi tengsl.

Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins beita raunar síðari rökunum líka óspart.

Sé litið til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og notar þjónustu hennar á stærstu stundunum á lífsleiðinni, og jafnframt að meðlimir annarra trúfélaga skipta þúsundum, má ætla að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll trúfélaga frekar en að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að það hversu lítið hefur verið gert úr siðferði og gildum á undanförnum árum og áratugum í samanburði við frama og efnishyggju, hafi skaðað samfélagið verulega. Við þurfum að rækta, ekki aðeins siðvit heldur siðræna færni sem undirstöðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Allt sem gert er í lífinu byggist á einhvern hátt á skoðunum og viðhorfum. Trú og lífsviðhorf eru því ekki einkamál eins og margir halda fram.

Þótt líkur bendi til að fallið verði frá þjóðkirkju fyrirkomulaginu við gerð nýrrar stjórnarskrár vona ég að hægt verði að búa svo um hnúta að fótunum verði ekki kippt undan starfsemi kirkjunnar í einni svipan en hún fái aðlögunartíma til að fóta sig við nýjar aðstæður. Aðskilnaðurinn kann líka að vera flóknari en sumir ætla, m.a. vegna eigna sem deila má um hvort séu eign trúfélags eða þjóðareign.

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi. Í svari mínu er ég að tjá mig sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi ráðsins.

 


Pínu meira um auðlindir

Í síðasta pistli lýsti ég þeim útgangspunkti þegar rætt er um eignarhald á auðlindum að jörðin sé sameign mannkyns. Svo kom ég inn á helstu auðlindir en gleymdi reyndar að nefna sjálft loftið, sem er eins og aðrar auðlindir sameign jarðarbúa en ekki í einkaeigu Íslendinga.

Satt að segja ættum við aldrei að tala um eign í þessu sambandi, því í rauninni eigum við ekki jörðina þótt við fáum að nýta hana um okkar daga. Það væri miklu heilbrigðara að tala um nýtingarrétt en eign.

En varðandi þær auðlindir sem við Íslendingar erum að nýta, þá hefur fókusinn undanfarna mánuði verið á orkulindunum. Það er í sjálfu sér fínt enda mjög brýnt að móta heildstæða stefnu gagnvart þeim. En það má ekki verða til þess að við gleymum að endurheimta úr höndum einkaaðila þá eign sem samkvæmt núverandi lögum er sameign íslensku þjóðarinnar en hefur þrátt fyrir skýr lög gengið kaupum og sölum. Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða er svona:

   Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Ég hélt í einfeldni minni að þetta væri nógu skýrt. En fyrir nú utan að áralöng aðferð við fiskveiðistjórn hefur unnið gegn markmiðum laganna þá stendur þessi misserin yfir blóðug barátta um hvort ríkið geti í smáum skömmtum endurheimt það forræði sem nú er í höndum einkaaðila.

Hægt er að fallast á að stofnar hafi ekki verið ofveiddir að sama marki og ef engri stýringu hefði verið beitt, enda talar enginn fyrir óheftum veiðum. En markmiðinu um verndun hefði þurft að fylgja eftir með miklu meiri þekkingaröflun. Það vantar sárlega meiri þekkingu og skilning á lífríkinu og samhengi innan þess, sem og áhrifum veiða og veiðarfæra.

Markmiðin um trausta atvinnu og byggð í landinu voru einfaldlega lögð til hliðar í nafni hagkvæmrar nýtingar. En það sem er ódýrt fyrir einn þarf ekki að vera hagkvæmt fyrir heildina. Af öllum þeim fjölmörgu aðilum sem byggðu lífsafkomu sína beint og óbeint af veiðum og vinnslu eru það aðeins „eigendur“ kvótans sem hafa hagnast, ekki samfélögin.

Vonandi lærum við af mistökunum, vindum ofan af því sem búið er að gera og tryggjum að auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með almannahagsmuni að leiðarljósi.


Aðeins um eignarhald auðlinda

Ef við byrjum á grunninum, þá er ekki hægt annað en fallast á að jörðin sé sameign mannkyns (sem við deilum raunar með öðrum lífverum) og þannig er í raun vandséð hvernig hægt sé að fallast á einkaeign á einstökum hlutum hennar.

Engu að síður þurfum við að hafa leikreglur um nýtingu jarðargæða og í gegn um aldirnar þróuðust mál þannig að yfirráð urðu viðurkennd sem eign. Það kann að vera praktísk leið, m.a. til að viðhalda stöðugleika og hefur vissulega ýmsa kosti en fyrirkomulagið og hlutföllin þarf þó að endurskoða með tilliti til réttlætis, bestu nýtingar og náttúruverndar.

Þegar talað er um sameign náttúruauðlinda er oft óljóst hvað átt er við, oftast er það fiskurinn í sjónum, gjarna orkuauðlindir, hugsanlegar auðlindir undir yfirborði jarðar og jafnvel hér á landi er farið að tala um vatn. Land sem slíkt er síður til umræðu og land hefur á undanförnum áratugum verið afar lágt metið. Engu að síður er land grunnforsenda tilveru okkar, undirstaða matvælaframleiðslu og byggðar, auk flestra tegunda iðnaðar og tómstunda.

Ég er úr sveit og veit vel hversu mikla ást er hægt að hafa á landinu sínu þar sem maður þekkir hvern stein og hverja þúfu, og af hve miklum kærleika flestir bændur annast jarðir sínar. Ég kannast við hugtakið að vera landlaus sem í hugum margra er mesta lánleysi sem hugsast getur. Ég er sannfærð um að slík væntumþykja um stað og störf bætir árangur. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að sem flestir eigi þess kost að tengjast landi í gegnum eigna- eða nýtingarrétt. En um leið gerir það kröfu um að einstakir aðilar sitji ekki á stærra landi en þeir geta með góðu móti sinnt.

Í rauninni finnst mér stórkostlegt að við landnám hafi verið hugsað fyrir hófsemi við landtöku. Mér finnst eðlilegt að við nútímamenn séum ekki eftirbátar forfeðra okkar en setjum skorður við óhóflegri söfnun jarðnæðis á fárra hendur. Hvar mörkin eigi að liggja er ég ekki með svar við, enda krefst það yfirvegunar og samráðs. Ég sæi jafnvel fyrir mér ólíka flokka eftir því hvort landið væri nýtt eingöngu til einkanota og tómstunda s.s. fyrir sumarbústaði og hins vegar fyrir búskap þar sem landið væri í raun nýtt í almannaþágu.


Rétt eða röng spurning?

Fjölmargir, þar á meðar framámenn og fræðingar, spyrja allt að því í örvæntingu hvernig endurheimta megi almenna tiltrú á Alþingi og flokkakerfið.

Það er vissulega þörf á þjóðarsátt um stjórnkerfi og aðferðir sem geti á árangursríkan hátt stýrt þjóðfélaginu. En ég held að spurningin að framan sé röng. Við eigum ekki í övæntingu okkar að skjóta nýjum stoðum undir kerfi sem er hrunið – kerfi sem hefur afsannað sig.

Ísland er ekki eina landið sem á í kreppu og við Íslendingar erum ekki einir um að þurfa að endurmeta gildi og aðferðir. Í öllum heimshlutum fara traust og samvinna milli einstaklinga og stjórnstofnana dvínandi. Víða hefur kosningaferlið á sér óorð vegna landlægrar spillingar. Ágallar kosningaferlisins eru m.a. aðgangur hagsmunaafla að digrum sjóðum, takmarkað valfrelsi sem er óaðskiljanlegt flokkakerfinu og brenglun á almennu viðhorfi gagnvart frambjóðendum vegna hlutdrægni í fjölmiðlum. Þetta veldur sinnuleysi, firringu og vonbrigðum og um leið vaxandi vonleysi um að hæfasta fólkið fáist til að takast á við meingallað þjóðskipulag. Hvert sem litið er blasir þó við augljós löngun eftir stofnunum sem muni framfylgja réttlæti, vinna gegn kúgun og hlynna að varanlegri einingu hinna  ólíku þátta samfélagsins.

Þess vegna held ég – öfugt við þá sem tala um að stjórnlagaþing sé sóun fjármuna og nær væri að einhenda sér í að endurreisa núvderandi kerfi – að það sé kominn tími til að vinna að nýjum lausnum, ekki síst í því hvernig við stýrum samfélaginu.

Öll framþróun er lærdómsferli. Ég á ekki von á að væntanleg stjórnarskrá verði óskeikul uppskrift að draumsýn okkar um þúsundáraríki. En ég tel ómarksins vert að stíga einhver framfaraskref.


Hvernig nálgumst við mál og vinnum að niðurstöðu?

Ég sagði í síðasta pistli að það væri rökrétt afleiðing af vonbriðgðum með núverandi stjórnarfar að fólk vilji einfaldlega taka málin í sínar hendur, ekki sé nóg að velja milli pakkatilboða stjórnmálaflokkanna á fjögurra ára fresti, við verðum sjálf að fá að kjósa beint um öll stærstu mál.

Þótt það sé vissulega rétt að almenningur þurfi að hafa aukna aðkomu að málefnavinnu og samfélagsþróun, er líka auðvelt að sjá fyrir sér að hægt sé að ofnota bæði skoðanakannanir og atkvæðagreiðslu. Bent hefur verið á að stjórnmálamenn séu ekki lengur forystumenn ef þeir gera ekki annað en að bregðast við skoðanakönnunum. Og  hversu marktæk verður þjóðaratkvæðagreiðsla ef þátttaka er lítil, sem hún yrði eflaust fljótlega væri henni beitt um of.

Þrátt fyrir ríkan vilja sem birtist í mótmælum og baráttu, er umræða okkar ansi frumstæð. Bæði fjölmiðlar og þeir sem vinna skoðanakannanir eru of uppteknir af því að fá einhvers konar úrslit, og gefa lítinn gaum að forsendum eða rökræðu. Spurt er hvort fólk sé með eða á móti - hvernig hlutirnir eigi að vera, en síður er verið að bera saman hvað mæli með og hvað mæli gegn. Það er ekki nóg að hafa betur í valdabaráttu og koma sínum málum í höfn ef ákvörðunin er ekki byggð á skilningi og yfirvegun.

Almenn þáttaka í samfélagsumræðu er nauðsynleg til að færa sem flest sjónarmið fram í dagsljósið. Þannig skapast heildarsýn sem er forsenda fyrir ákvarðanatöku. Stjórnendur verða að mæta til þeirrar umræðu af heiðarleika án þess að ætla sér að ráðskast með viðhorf almennings. Slík samræða er forsenda fyrir því að almenningur og stjórnvöld geti litið viðfangsefnin sömu augum, sátt skapist um niðurstöður og traust geti ríkt í samfélaginu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband