Þarf fólk í öllum landshlutum að eiga fulltrúa á þingi?

Í umræðunni um að landið eigi að vera eitt kjördæmi hef ég séð því haldið fram að það sé til marks um óþarfa togstreitu landsbyggðar og þéttbýlis að skipta landinu í fleiri en eitt kjördæmi. Nær væri að tryggja rétt landsbyggðarinnar í stjórnarskrá en svo getum við öll verið í sama kjördæminu og þá myndu allir þingmenn taka tillit til dreifbýlis. - Hvaða rétt landsbyggðarinnar ætli sé verið að tala um ef þau réttindi að eiga fulltrúa á þingi eru álitin óþörf?

Í samkeppnispólitík (sem ég óttast að verði stunduð enn um sinn) er vænlegra til árangurs að höfða til meirihluta en minnihluta. Þess vegna er ekki aðeins hugsanlegt að stundum fengi landsbyggðarfólk fáa eða jafnvel enga fulltrúa, heldur ekki síður að þeir sem sætu við stjórnvölinn sinntu mun betur þörfum meirihlutans.

Vissulega er það meðal minna heitustu óska að stjórnmálaumræða færist  frá baráttu og karpi yfir í samráð. En jafnvel við slíkar kjöraðstæður er mikilvægt að samræðan fari fram frá ólíkum sjónarhornum. Það gerir hana frjórri og til verða lausnir sem enginn einn í hópnum sá fyrir.

Það er ekki af mannvonsku sem fólk sér fyrst og fremst sína eigin hlið. Það er einfaldlega mannlegt. Auðvitað þekkjum við og skiljum best það sem við sjálf lifum og hrærumst í. Vitneskja er heldur ekki nóg til skilnings. Við vitum um fátækt, hungur og óréttlæti í heiminum en gerum sáralítið í því. Leggjum ekki einu sinni á okkur að leita leiða til úrbóta. En ef slíkt stendur okkur nærri, þegar eitthvað snertir okkur, þá bregðumst við frekar við. Vegna þessa mannlega eðlis er mikilvægt að sem flestir eigi fulltrúa þar sem rætt er um þjóðmálin og ákvarðanir teknar.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband