Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Félagar mínir í Langtbortistan

Einstaka sinnum kemur fólk frá Langtbortistan inn í eldhús til manns. Í júní 1983 voru tíu konur hengdar í Íran öðrum til viðvörunar, fyrir þær sakir að kenna börnum sem rekin höfðu verið úr skóla af því að fjöslkyldur þeirra voru bahá‘íar. Mona, sú yngsta hefði orðið átján ára um haustið en elsta konan var 54 ára. Einni stúlku úr hópnum hafði verið sleppt, líkast til í þeirri von að hún leiddi njósnara yfirvalda á sporið til fleiri bahá‘ía. Hún komst hins vegar fótgangandi úr landi í skjóli nætur og fékk landvist í Kanada. Fáeinum árum síðar sat hún í eldhúsinu hjá mér, lék við börnin mín og sagði mér og vinafólki mínu sögu sína.

Seinna, þegar ég vann í Townshend skólanum í Tékklandi, hafði ég yfirmanneskju frá Íran. Ramona sem var einn af eigendum skólans hafði yfirumsjón með heimavistinni. Móðir hennar sem kom nokkrum sinnum í heimsókn hafði verið í fangelsi vegna trúarinnar um tíma en faðir hennar hafði hins vegar setið í þjóðarráði bahá‘ía í Íran. Allir meðlimir þess voru handteknir og eftir það spurðist ekkert til þeirra. Þrettán árum síðar fékkst staðfest að allir hefðu verið teknir af lífi.

Fyrir vikið er það ekki jafn fjarlægt þegar ég heyri af harðræði félaga minna í Íran sem virðast engan endi ætla að taka.

Eftir að tvö þjóðarráð höfðu verið líflátin varð að samkomulagi við írönsk stjórnvöld að sett yrði á fót sjö manna nefnd til að sjá um brýnsutu þarfir bahá‘í samfélagsins en stjórnkerfi þessa ríflega 300 þúsund manna samfélags yrði lagt niður. Fólkið sem var í þeirri nefnd, sjö manns á aldrinum 37 til 77 ára, var svo handtekið og sett í Evin fangelsið fyrri hluta árs 2008. Réttarhöld yfir því hófust þó ekki fyrr en í ár. Þegar ákærur voru loks birtar hljóðuðu þær m.a. upp á njósnir fyrir Ísrael, móðgun við trúarleg yfirvöld og að hafa útbreitt spillingu á jörðinni. Dauðadómur blasti við en vegna þrýstings alþjóðasamfélagsins var látið nægja að dæma fólkið til 20 ára fangavistar. Eftir áfrýjun var dómurinn mildaður í tíu ár.

Nokkuð þungur dómur samt fyrir uppdiktaðar sakir ...                                       

Fangarnir sjö


Konur þurfa ekkert að óttast

Konur þurfa ekkert að óttast þótt þær hafi aðeins hlotið þrjú sæti af tuttugu og fimm á stjórnlagaþinginu. Flestir þeirra sem voru kosnir hafa enda fullan skilning á þörfum kvenna og hafa lýst sig velviljaða konum.

Það er stundum grátlegt hvað fólk hefur lítið æft sig í að setja sig í annarra spor eða skipta út stökum orðum í orðræðu mismununar. Í áratugi höfum við lært að sjá í gegn um orðræðuna sem hefur einkennt ójafnvægi kynjanna en samt þekkir fólk ekki mynstrið þegar það endurtekur sig gagnvart öðrum hópum.

Ef við hugsum svo sem tvo þrjá áratugi aftur í tímann, þá var farið að tala um að þótt kvennamenning væri ólík karlamenningu væri ekki þar með sagt að hún væri síðri - og slíkur munur ætti ekki að hindra aðgang kvenna að öllum sviðum þjóðlífsins. Það var bent á keðjuverkunina af því hvernig karlar væru í forgrunni, störf karla væru meira metin en störf kvenna, bæði á vinnumarkaði og í félagslífi. Þar af leiðandi töluðu fjölmiðlar meira við karla og þannig var gildismatinu viðhaldið.

Einhverra hluta vegna er mörgum ofviða að sjá þetta sama mynstur milli þéttbýlis og dreifbýlis. Vel menntað fólk sem telur sig fordómalaust hefur engu að síður þá bjargföstu sannfæringu að staða landsbyggðarinnar eigi að vera „bak við eldavélina“. Landsbyggðin má að einhverju marki framleiða matvæli, hún ætti eiginlega að halda sig í slorinu. En landsbyggðin ætti t.d. hvorki að hafa fjölmiðla, sjúkrahús né háskóla. Það er hinn pólitíski rétttrúnaður dagsins í dag.

Í kastljósi í gær lýsti foringi stjórnlagaþingsins með líkingu nánu sambandi borgar og sveitar. Hann sagði þær vera systur. Hann tók það að vísu ekki fram að önnur systirin héti Öskubuska. En hún þarf líklega ekkert að óttast. Henni verður sjálfsagt tryggður réttur til að vera Öskubuska áfram.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband