Fortíð eða framtíð

Af ýmsum ástæðum virðist umræða um þjóðkirkjuna, og tengsl hennar við ríkið, ætla að verða fyrirferðarmikil  í aðdraganda stjórnlagaþings.  Margir þeirra sem tala fyrir áframhaldandi sambandi halda mjög á lofti fortíð okkar, menningu og sögu.

Ég er nú á því að hlutverk stjórnlagaþingsins sé miklu frekar að horfa fram en aftur.  Hvort stjórnarskráin verði vel lukkuð byggir ekki síst á því hvort þingið skipi fólk sem er ekki um of bundið við fortíðina en getur skapað nýja sýn á nýja tíma.

Nýir tímar þurfa að byggjast á einingu en ekki einsleitni. Einingu í margbreytileika - þar sem fólk gefur hvert öðru svigrúm og virðir stöðu minnihlutahópa. Í því samhengi ætti ekki að skipta öllu máli hvort trú á Guð eða trú á guðleysi væri í meiri- eða minnihluta. Virðing fyrir skoðunum annarra þarf í öllum tilvikum að vera fyrir hendi.

Mig langar auðvitað að sjá að fólk geti trúað á mannlegar framfarir. Okkur á nú að vera orðið ljóst að samfélagsumbætur felast ekki í reiknuðum hagvexti. Við þurfum að vinna með viðhorf og þroska til að efnahags- og samfélagsumbætur fari hönd í hönd. Ábyrg þátttaka trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga skiptir þar máli.

Loks er rétt að hafa í huga að hefðu Íslendingar verið álíka fastheldnir á fortíðina fyrir þúsund árum og sumir þeirra sem nú tjá sig um málefni þjóðkirkjunnar, er spurning hvort eða hvenær orðið hefði af kristnitöku hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband