Dúa á Bakka

Það eru bæði kostir og gallar við að vinna vaktavinnu. Gallinn þessa dagana er að vegna vinnunnar komst ég ekki til að fylgja gamalli nágrannakonu minni til grafar eins og mig langaði að gera.

 

Þegar maður elst upp í sveit eru manns nánustu þeir sem búa næst manni, ekki síður en ættingjar í öðrum landshlutum. Dúa á Bakka var þannig frænkuígildi ef ég ber bernsku mína saman við nútímann.

 

Ein af sárafáum bernskuminningum mínum, þar sem ég skynjaði að eitthvað hræðilegt væri að eiga sér stað, var þegar mamma hljóp neðan úr gamla bæ upp á Tanna þar sem pabbi var að vinna í nýbyggingu, og hrópaði alla leiðina: Daddi, það er kviknað í á Bakka! Daddi, það er að brenna á Bakka!“ Að heiman horfði ég á fólk hlaupa fram og til baka milli nýja hússins og gamla torfbæjarins. Ekki veit ég hversu miklu náðist að bjarga en enginn held ég að hafi slasast.

 

Það var enn farskóli í sveitinni þegar ég komst á skólaaldur. Átta ára fékk ég að fara tvær vikur fram að Reykjum í skóla. Í gamla bænum fannst pláss til að hýsa kennara og hóp nemenda, auk þess sem kennslan fór fram í tveim samliggjandi stofum og allur hópurinn var með fjölskyldunni í mat. Árið eftir var kennt á Bakka og þá fékk ég að fara í fjórar vikur, enda þurfti ég ekki að gista en gat skoppað þetta á milli. Þarna sá ég í fyrsta skipti gítar og heyrði framandleg orð um einhverja dúra í tónlist.

 

Löngu seinna eða veturinn eftir landspróf varð Bakki mér aftur fræðasetur. Dúa vissi að ég myndi ætla í menntaskóla árið eftir og bauð mér niður eftir til að horfa á kennsluþætti í þýsku sem voru vikulega á dagskrá Sjónvarpsins. Pabbi hafði tekið í sig að ekki yrði keypt sjónvarp á sitt heimili fyrr en það kæmi í lit. Boð Dúu kom sér því vel. Vitaskuld var alltaf boðið upp á hressingu, bakkelsi og fínerí eftir kennslutímann og eftir samtal við Dúu hafði heimsóknin orðið mér lærdómsrík í fleiru en þýsku. Þetta varð mér vikuleg dekurstund, frí frá hversdagsverkum og svolítil ný gátt að heiminum.

 

Dúa var afar lagleg kona, smávaxin, kvik í hreyfingum og hláturmild. Óljósa hugmynd hafði ég um að hún hefði menntast en það var sannarlega ekki algengt meðal sveitakvenna um miðja síðustu öld. Fyrirmyndir stúlkna voru fáar að því leyti til og hver og ein því þeim mun mikilvægari. Það var hins vegar nóg af fyrirmyndum um dugnað kvenna og vinnusemi. Einhverntíma voru grannkonurnar að bera saman bækur sínar um hvað þær þyrftu mikið að sofa. Mamma og að mig minnir Ósk á Reykjum sögðust vera hálf ónógar sjálfum sér ef þær næðu ekki sex tíma svefni. Dúa sagðist vel komast af með fjóra. Þegar ég seinna las það í mannkynssögu að Napóleon hefði ekki þurft nema fjögurra tíma svefn, varð mér ljóst að hann og Dúa hefðu átt það sameiginlegt að vera smávaxin stórmenni.


Félagar mínir í Langtbortistan

Einstaka sinnum kemur fólk frá Langtbortistan inn í eldhús til manns. Í júní 1983 voru tíu konur hengdar í Íran öðrum til viðvörunar, fyrir þær sakir að kenna börnum sem rekin höfðu verið úr skóla af því að fjöslkyldur þeirra voru bahá‘íar. Mona, sú yngsta hefði orðið átján ára um haustið en elsta konan var 54 ára. Einni stúlku úr hópnum hafði verið sleppt, líkast til í þeirri von að hún leiddi njósnara yfirvalda á sporið til fleiri bahá‘ía. Hún komst hins vegar fótgangandi úr landi í skjóli nætur og fékk landvist í Kanada. Fáeinum árum síðar sat hún í eldhúsinu hjá mér, lék við börnin mín og sagði mér og vinafólki mínu sögu sína.

Seinna, þegar ég vann í Townshend skólanum í Tékklandi, hafði ég yfirmanneskju frá Íran. Ramona sem var einn af eigendum skólans hafði yfirumsjón með heimavistinni. Móðir hennar sem kom nokkrum sinnum í heimsókn hafði verið í fangelsi vegna trúarinnar um tíma en faðir hennar hafði hins vegar setið í þjóðarráði bahá‘ía í Íran. Allir meðlimir þess voru handteknir og eftir það spurðist ekkert til þeirra. Þrettán árum síðar fékkst staðfest að allir hefðu verið teknir af lífi.

Fyrir vikið er það ekki jafn fjarlægt þegar ég heyri af harðræði félaga minna í Íran sem virðast engan endi ætla að taka.

Eftir að tvö þjóðarráð höfðu verið líflátin varð að samkomulagi við írönsk stjórnvöld að sett yrði á fót sjö manna nefnd til að sjá um brýnsutu þarfir bahá‘í samfélagsins en stjórnkerfi þessa ríflega 300 þúsund manna samfélags yrði lagt niður. Fólkið sem var í þeirri nefnd, sjö manns á aldrinum 37 til 77 ára, var svo handtekið og sett í Evin fangelsið fyrri hluta árs 2008. Réttarhöld yfir því hófust þó ekki fyrr en í ár. Þegar ákærur voru loks birtar hljóðuðu þær m.a. upp á njósnir fyrir Ísrael, móðgun við trúarleg yfirvöld og að hafa útbreitt spillingu á jörðinni. Dauðadómur blasti við en vegna þrýstings alþjóðasamfélagsins var látið nægja að dæma fólkið til 20 ára fangavistar. Eftir áfrýjun var dómurinn mildaður í tíu ár.

Nokkuð þungur dómur samt fyrir uppdiktaðar sakir ...                                       

Fangarnir sjö


Konur þurfa ekkert að óttast

Konur þurfa ekkert að óttast þótt þær hafi aðeins hlotið þrjú sæti af tuttugu og fimm á stjórnlagaþinginu. Flestir þeirra sem voru kosnir hafa enda fullan skilning á þörfum kvenna og hafa lýst sig velviljaða konum.

Það er stundum grátlegt hvað fólk hefur lítið æft sig í að setja sig í annarra spor eða skipta út stökum orðum í orðræðu mismununar. Í áratugi höfum við lært að sjá í gegn um orðræðuna sem hefur einkennt ójafnvægi kynjanna en samt þekkir fólk ekki mynstrið þegar það endurtekur sig gagnvart öðrum hópum.

Ef við hugsum svo sem tvo þrjá áratugi aftur í tímann, þá var farið að tala um að þótt kvennamenning væri ólík karlamenningu væri ekki þar með sagt að hún væri síðri - og slíkur munur ætti ekki að hindra aðgang kvenna að öllum sviðum þjóðlífsins. Það var bent á keðjuverkunina af því hvernig karlar væru í forgrunni, störf karla væru meira metin en störf kvenna, bæði á vinnumarkaði og í félagslífi. Þar af leiðandi töluðu fjölmiðlar meira við karla og þannig var gildismatinu viðhaldið.

Einhverra hluta vegna er mörgum ofviða að sjá þetta sama mynstur milli þéttbýlis og dreifbýlis. Vel menntað fólk sem telur sig fordómalaust hefur engu að síður þá bjargföstu sannfæringu að staða landsbyggðarinnar eigi að vera „bak við eldavélina“. Landsbyggðin má að einhverju marki framleiða matvæli, hún ætti eiginlega að halda sig í slorinu. En landsbyggðin ætti t.d. hvorki að hafa fjölmiðla, sjúkrahús né háskóla. Það er hinn pólitíski rétttrúnaður dagsins í dag.

Í kastljósi í gær lýsti foringi stjórnlagaþingsins með líkingu nánu sambandi borgar og sveitar. Hann sagði þær vera systur. Hann tók það að vísu ekki fram að önnur systirin héti Öskubuska. En hún þarf líklega ekkert að óttast. Henni verður sjálfsagt tryggður réttur til að vera Öskubuska áfram.


Hvers eðlis eru þáttaskil?

Eftirvænting sem varð að engu var líklega sú tilfinnig sem sat í fólki fyrst eftir leiðtogafundinn í Höfða haustið 1986. Hver man ekki eftir spennuþrunginni sjónvarpsútsendingu þar sem myndefnið var hurðarhúnn Smile  Loks kom niðurstaðan: Ekkert samkomulag – enginn árangur.

Fáum árum seinna varð flestum þó ljóst að fundurinn hafði opnað glugga fyrir nýjan skilning og nýja sýn, sem breytti stefnu heimsmálanna.

Mér líður eins og kosningarnar í dag séu svipaður viðburður. Hugur margra er svo bundinn fortíð og nútíð að þeir sjá ekki aðra möguleika og telja núverandi kerfi og aðferðafræði við stjórnun þjóðmála nánast vera náttúrulögmál. Sannarlega vilja margir breytingar en fólk er reitt, vonsvikið og vondauft. Úrtöluraddirnar telja ólíklegt að stjórnlagaþingið nái neinni niðurstöðu – og þótt það kæmist að niðurstöðu myndu alþingismenn rífa hana í tætlur og endanleg útkoma yrði í besta falli útþynnt.

Jafnvel þótt allt færi á versta veg og við fengjum aðeins bragðdaufar breytingar á stjórnarskránni út úr þessari vinnu núna, þá held ég svo virkilega að aðferðafræðin við þjóðfundina og við persónukjörið opni okkur sýn á að það sé ýmislegt hægt. Þá verður ekki aftur snúið og þróunin mun að einhverju marki eignast eigið líf.

Svo skulum við ekki horfa fram hjá þeim möguleika að kjörið og vinna stjórnlagaþings lukkist nokkuð vel. Við getum alveg gert okkur grein fyrir því að það er að mörgu leyti hagstæðara að vinna þróunar- og tilraunavinnu í litlu samfélagi og lærdómur Íslendinga getur orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Örugglega verða gerð einhver mistök en það væru verri mistök að halda að sér höndum og hjakka í sama farinu.  Að gera, læra af því og laga, er sú þríliða sem endurtekur sig nánast eins og hringferli í þróunarvinnu og framförum. Aðeins þannig breytum við mistökum í lærdóm og framfarir.

Kannski finnst fólki ekki blasa við stór breyting á íslensku stjórnarfari að ári liðnu en ég er sannfærð um að ný þróun er að hefjast. Það eru þáttaskil og þótt ekki væri nema með atkvæði mínu þykir mér heiður að vera þátttakandi í að skapa nýja framtíð.

Til hamingju með daginn!


Flugstjórnarklefi nútímanns

Það eru komin ansi mörg ár síðan ég sá sjónvarpsþátt með nokkurn veginn þessari yfirskrift. Ég er ekki sérstök áhugamanneskja um flug en þátturinn heillaði mig gjörsamlega og gaf mér nýja pólitíska sýn.

Þátturinn fjallaði um að frumkvöðlar flugsins, hetjur fortíðarinnar, væru að líkindum stórhættulegir í flóknum flugstjórnarklefum nútímanns. Eiginleikar gömlu frumkvöðlanna, einlyndi og kjarkur, að geta tekið áhættu þrátt fyrir viðvaranir og úrtöluraddir, vera skjótir til ákvarðana og taka þær einir, – allt voru þetta eiginleikar sem urðu til þess að maðurinn hóf sig til flugs. Núna er hins vegar í svo mörg horn að líta í flugstjórnarklefanum að það þarf athygli fleiri en eins. Að taka áhættu með farþegaþotu er ekki inni í myndinni. Frumskylda flugstjórans er að hlusta á allar aðvaranir. – Flug er sem sé samvinnuverkefni.

Eigi þetta við um flugstjórnarklefann, hvað þá með nútímaþjóðfélag? Ég fæ þess vegna alltaf pínulítið fyrir hjartað þegar ég heyri fólk kalla eftir alvöru forystu og á þá við hörkutól sem láta mannskapinn sitja og standa að vild. Nútíma verkstjórn byggist á að laða fram getu og hugmyndir allra og spinna band úr mörgum þráðum. Í heimi íþróttanna er löngu viðurkennt að liðsheild er annað og meira en summa stakra leikmanna.

Í þessu ljósi er ég hrifnari af samráði en einleik – alveg sérstaklega í stjórnmálum.



Bjargað frá pólitískri örvílnun ;)

Gömul kona benti mér á það fyrir einhverjum áratugum að viðfangsefni stjórnmála ætti að vera að leita eftir jafnvægi einstaklingsfrelsis og samábyrgðar.  Þessi einfalda en skýra sýn hefur bjargað mér frá pólitískri örvílnun.

Smám saman hefur það runnið upp fyrir mér hvernig þetta lögmál gildir ekki aðeins um klassíska togstreitu hægri og vinstri heldur velflest samskipti einstaklinga og samfélaga, allt frá heimilinu upp í alþjóðasamfélagið. Þetta er grunnregla jafnt siðferðis og stjórnmála. Ég segi ekki að viðfangsefnin séu alltaf auðveld. Nú erum við t.d. að ströggla við jafnvægi milli friðhelgi einkalífsins og gagnsæis. Það er afar viðkvæmt en mikilvægt málefni sem heyrir beint undir þetta lögmál.

Vitundin um þetta hefur gert mér auðveldara um vik að tala við fólk og virða skoðanir þess. Þótt fólk haldi fram gildi annars þáttarins á kostnað hins er svo gott að lenda ekki í að þrátta um hvort atriðið sé mikilvægara, heldur geta sagt sem svo: Jú þetta er grundvallaratriði sem ekki má horfa framhjá en við þurfum líka að horfa á fleiri þætti í samhengi.

Hitt er svo annað að við þurfum alltaf að hafa árangurinn í huga. Það er faktískt hægt að þrengja að einkarýminu án þess að það komi samfélaginu til góða. Stundum finnst mér sem teknir séu ókostirnir úr báðum áttum en kostirnir hafi gleymst, við njótum lítils samhugar, ábyrgðar eða öryggis þótt frelsi fólks séu settar verulegar skorður.


Mér er sagt að ég búi í lýðræðisríki

Hef ég í kosningum einhvern tíma séð lista þar sem ég vildi kjósa alla? – Nei. Hef ég séð lista þar sem ég vildi ekki kjósa neinn? – Tæpast. Yfirleitt held ég að mér hafi þótt frambærilegt fólk á öllum listum en ég hef aldrei – þrátt fyrir að búa í lýðræðisríki – haft rétt til að kjósa þá sem mig langaði til.


Flokkapólitík eða fulltrúa að eigin vali?

Sjálfsagt finnst fólki ég hafa tekið stórt upp í mig að kalla nútímavinnubrögð í stjórnmálum stofnanavæddan klíkuskap. En það er í rauninni stórmerkilegt fyrirbæri sálarlífsins hvernig okkur tekst að viðurkenna meingallað fyrirkomulag sem sjáfsagt, aðeins ef það er almennt tíðkað. Og það er almennt tíðkað um allan hinn vestræna heim að strax eftir kosningar sé skipt í tvö lið: Liðið sem ræður og liðið sem ræður ekki. Það er meira að segja hlutverk forsetans að stýra klíkuskapnum, hver fái að byrja að velja í stóra liðið.

En það er auðvitað sanngjarnt að spurt sé: Er hægt að gera þetta öðruvísi? Sennilega ekki ef notast er við flokkapólitík en sé fólk kosið sem einstaklingar verður þessi skipting algjörlega marklaus.

Ég hef velt því fyrir mér hvort eða hvernig persónukjör og tilvist stjórnmálaflokka geti farið saman. Ég á kannski ekki von á að það falli allsstaðar í góðan jarðveg að leggja stjórnmálaflokkana niður á einu bretti Smile  Eðlileg millileið er líkast til að stjórnmálaflokkar geti áfram boðið fram en kjósandinn hafi rétt til að velja sér hvort heldur hann vill fólk af einum lista eða úr öllum flokkum, sem og óflokksbundna.

Yrði það flókið? Nei, ég held að nú þegar við höfum komist á bragðið með þá stórsnjöllu aðferð sem er notuð við að kjósa til stjórnlagaþings, ætti þetta ekkert að vefjast fyrir okkur.


Lögbundinn stofnanavæddur klíkuskapur

Vinnulag í stjórnmálum snýr bæði að fyrirkomulagi kosninga - og starfsháttum þings og ríkisstjórnar.

 

Ég á afar erfitt með að sætta mig við lögbundinn stofnanavæddan klíkuskap sem er óaðskiljanlegur flokkapólitík. Að það skuli álitið sjálfsagt að útiloka að miklu leyti upp undir helming löglega kjörinna fulltrúa frá þátttöku í vinnu þingsins, flokka þá sem óæðri þingmenn í minnihluta sem hafi nánast ekki annað hlutverk en að veita meirihlutanum aðhald - það hefur bæði praktísk og sálræn áhrif á störf þingsins og er náttúrlega ekkert annað en stofnanavæddur klíkuskapur. Auðvitað eiga allir kjörnir fulltrúar að sitja við sama borð.

 

Það er mikið talað um skýrari þrískiptingu valdsins. Ég sé það sem hluta af lausinni að draga úr beinum tengslum þingmanna við ríksisstjórn. En ég held að lausnin felist ekki síður í aðdraganda kosninga – kosningamenningunni –  og alveg sérstaklega persónukjöri sem myndi draga úr neikvæðum áhrifum flokkadrátta.


Kosningamenning og kostnaður við að vera í kjöri

Þar sem ég hef hlotið mitt félagslega uppeldi er óhlutbundin kosning reglan, án framboðs eða tilnefningar, og kosningaáróður er óheimill. Slíkt fyrirkomulag byggist á því að kjósandinn beri ábyrgð á að kynna sér störf og hugmyndir þeirra sem eru virkir í samfélaginu yfir lengri tíma. Kjósandinn velur fólk til þjónustu en hugmyndir um baráttu og frama eru í raun álitnar and-félagslegar. Sú gerjun sem nú á sér stað varðandi hvernig standa beri að kosningum er þróun í þessa átt og mikið fagnaðarefni

Hins vegar má öllum vera ljóst að hér er um nýja og byltingarkennda hugsun að ræða miðað við þær aðferðir sem hingað til hafa viðgengist í íslenskum stjórnmálum. Auk þess er frestur kjósenda til að kynna sér þá sem eru í kjöri afar stuttur, sérstaklega eru þeir sem ekki eru handgengnir netinu illa settir. Það er engin furða að fólk sé pínu áttavillt, frambjóðendum finnst þeir ekki hafa tækifæri til að kynna sig eins og vert væri og hefð er fyrir í samkeppnistjórnmálum. Kjósendur eru heldur ekki undir það búnir að bera sig sjálfir eftir upplýsingum eftir að hafa vanist við að vera mataðir.

Möguleikar frambjóðenda til að láta upplýsingar um sig og skoðanir sínar liggja frammi fyrir alþjóð á bloggsíðum hafa skapað nýjan vettvang fyrir stefnumót kjósenda og þeirra sem bjóða fram þjónustu sína, frambjóðendum að kostnaðarlausu. Það eitt og sér er forsenda til að gjörbreyta valmenningu við kosningar.

Ég er hvorki hissa né hneyksluð á að frambjóðendur reyni að kynna sig og stefnumál sín, m.a. með auglýsingum. Auðvitað stöndum við einhvern veginn klofvega milli gamalla og nýrra starfshátta. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að horfa á gildi þeirra breytinga sem eru að verða og að við vinnum með breytingunum frekar en á móti.

Sjálf var ég að svara Ríkisendurskoðun um hvað það kosti mig að vera í kjöri. Svarið var í raun hálf spaugilegt en eini kostnaður minn var að borga undir ábyrgðarbréf með framboðsgögnunum mínum suður - 595 krónur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband