Pínu meira um auðlindir

Í síðasta pistli lýsti ég þeim útgangspunkti þegar rætt er um eignarhald á auðlindum að jörðin sé sameign mannkyns. Svo kom ég inn á helstu auðlindir en gleymdi reyndar að nefna sjálft loftið, sem er eins og aðrar auðlindir sameign jarðarbúa en ekki í einkaeigu Íslendinga.

Satt að segja ættum við aldrei að tala um eign í þessu sambandi, því í rauninni eigum við ekki jörðina þótt við fáum að nýta hana um okkar daga. Það væri miklu heilbrigðara að tala um nýtingarrétt en eign.

En varðandi þær auðlindir sem við Íslendingar erum að nýta, þá hefur fókusinn undanfarna mánuði verið á orkulindunum. Það er í sjálfu sér fínt enda mjög brýnt að móta heildstæða stefnu gagnvart þeim. En það má ekki verða til þess að við gleymum að endurheimta úr höndum einkaaðila þá eign sem samkvæmt núverandi lögum er sameign íslensku þjóðarinnar en hefur þrátt fyrir skýr lög gengið kaupum og sölum. Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða er svona:

   Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Ég hélt í einfeldni minni að þetta væri nógu skýrt. En fyrir nú utan að áralöng aðferð við fiskveiðistjórn hefur unnið gegn markmiðum laganna þá stendur þessi misserin yfir blóðug barátta um hvort ríkið geti í smáum skömmtum endurheimt það forræði sem nú er í höndum einkaaðila.

Hægt er að fallast á að stofnar hafi ekki verið ofveiddir að sama marki og ef engri stýringu hefði verið beitt, enda talar enginn fyrir óheftum veiðum. En markmiðinu um verndun hefði þurft að fylgja eftir með miklu meiri þekkingaröflun. Það vantar sárlega meiri þekkingu og skilning á lífríkinu og samhengi innan þess, sem og áhrifum veiða og veiðarfæra.

Markmiðin um trausta atvinnu og byggð í landinu voru einfaldlega lögð til hliðar í nafni hagkvæmrar nýtingar. En það sem er ódýrt fyrir einn þarf ekki að vera hagkvæmt fyrir heildina. Af öllum þeim fjölmörgu aðilum sem byggðu lífsafkomu sína beint og óbeint af veiðum og vinnslu eru það aðeins „eigendur“ kvótans sem hafa hagnast, ekki samfélögin.

Vonandi lærum við af mistökunum, vindum ofan af því sem búið er að gera og tryggjum að auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með almannahagsmuni að leiðarljósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef líka verið í vandræðum með að skilja þetta. Hvers vegna mega einkaaðilar selja, leigja og veðsetja sameign þjóðarinnar? Hver er hagkvæmin í því fyrir almenning í landinu og byggðalögin sem sitja eftir án vinnu?

Dagný (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband