Var það séra Sigurði að þakka?

Það er ekki í samhengi við þetta fertugsafmæli sem ég virðist í naflaskoðun. Raunar er ég ekki í sérstakri tilvistarkreppu en mér finnst bara svo áhugavert að skoða orsök og afleiðingar í tilverunni – hvernig fólk þroskast og hvað hefur áhrif á okkur. Nærtækasta sýnidæmið er alltaf maður sjálfur. Það er helst í eigin lífi sem maður þekkir sæmilega til.

Helstu áhrifavaldar í lífi mínu eru auðvitað almenn atriði eins og hvar og hvenær ég óx úr grasi – í sveit á tímum útvarpsleikrita og farskólakennslu, en líka smáatriði á borð við það að Jón Baldvin þéraði mig ekki um árið.

Mér finnst t.d. sérkennilegt að ég skyldi hnjóta um bahá’í trúna árið eftir að ég kom vestur. Ég sem hafði neitað að fermast og næstum því komist upp með það, var ekki að leita að trú. Víst var hér kynning á þessum trúarbrögðum sem fjöldi jafnaldra minna og starfsfélaga í íshúsinu sóttu. Ég ákvað að kíkja. Ég var sammála öllu sem þar kom fram, - vel að merkja ef Guð væri til, sem ég hafði ekki gert upp við mig. Ég hafði hins vegar slæma reynslu að því að vera sammála. Yfirleitt var ég sammála síðasta ræðumanni jafnvel þótt menn töluðu alveg á víxl.

Auðvitað hafði ég ekkert vit á trúmálum og engar forsendur til að spyrja gagnrýninna spurninga. Þess vegna ákvað ég að leita til prestsins og spyrja hann einfaldlega hvers vegna ég ætti ekki að ganga úr þjóðkirkjunni og í bahá’í trúna. Þetta fór í stuttu máli illa. Ég stóð á tröppunum á prestbústaðnum og stundi því ofur feimnislega út úr mér að mig langaði að tala við hann um bahá’í trúna. Séra Sigurður þekkti mig eðlilega ekki sem sitt fermingarbarn og dró þá ályktun að ég væri úr liðinu að sunnan og ætlaði ekki að ráðast á garðinn þar sem hann væri lægstur í trúboði mínu. Hann bauð mér kurteislega inn á kontór en sagði strax að hann vissi ekkert um þessa trú og vildi ekkert vita um hana. Sér þætti hins vegar mikið ábyrgðarleysi að leyfa svo ungu fólki að ganga í þetta.

Þvert á það sem ég hafði ætlað mér var ég allt í einu komin í vörn fyrir málstað sem ég vissi sáralítið um. Spurði hvort það væri meira ábyrgðarleysi að leyfa 16-18 ára unglingum að velja trú, en að ferma 14 ára börn. Séra Sigurður sagði það vera allt annað mál þar sem feðranna trú stæði á traustum grunni. Eitthvað urðu samræðurnar lengri, mér tókst að leiðrétta misskilninginn, ég hefði bara komið til að leita ráða. Loks spurði ég hvort honum þætti ekki rétt að vita eitthvað um þessa nýju trú, þótt ekki væri nema til að leiðbeina fermingarbörnum sínum og öðrum í söfnuðinum. Nei, sagði hann, það verður alfarið að vera þeirra mál.

Eftir þetta samtal sýndist mér ég ekki hafa frá miklu að hverfa þótt ég yfirgæfi þjóðkirkjuna, fór aftur yfir í Sjálfstæðishúsið og skráði mig í bahá’í samfélagið. Ég átti að vísu enn eftir að gera upp við mig hvort ég ætlaði að trúa á Guð.

Þetta skondna atvik leiddi mig inn á braut sem hefur ekki verið auðfarin, enda ekki um troðna alfaraleið að ræða, en hún hefur verið lærdómsrík. Og séra Sigurði sem ég kynntist betur síðar, er ég afar þakklát.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband