Kynning eða áróður

Það hefur áður komið fram að ég er bahá’íi og kynntist þeirri trú fyrir tæpum 40 árum. Það er sífellt fróðlegra fyrir mig að átta mig á því hvernig viðhorf trúarinnar hafa síast inn á þessum tíma. Þar á meðal eru viðhorf mín til kosninga.

Í bahá’í trúnni er hvorki viðhaft framboð né kosningaáróður. Hluti af lýðræðishugmyndinni  er virðing fyrir sjálfstæðri hugsun og því ætti ekki, hvorki opinskátt eða með ísmeygilegum aðferðum að reyna að hafa áhrif á hvað fólk vilji kjósa.

Það að fólk sé algjörlega látið sjálft um að velja hverja það vill kjósa, gerir kjósandanum að vissu leyti erfitt fyrir. Þegar ekki er neitt framboð er kjörskráin sjálf í rauninni eini listinn yfir þá sem eru í kjöri. Kjósandinn þarf því einn og hjálparlaust að velja það fólk sem hann treystir til að vinna fyrir samfélagið. Hann neyðist til að hugsa sjálfur Wink

Hvernig er þetta hægt? Jú leiðsögnin er m.a. þessi:

Þess vegna ber ...að hugleiða án minnsta votts ástríðu og fordóma og án nokkurs tillits til efnislegra kringumstæðna nöfn þeirra einna, sem best fá sameinað nauðsynlega eiginleika óvéfengjanlegrar hollustu, óeigingjarns trúnaðar, vel þjálfaðs huga, viðurkenndra hæfileika og þroskaðrar reynslu.

 

Kjósandinn ætti að velja úr hópi þeirra sem hann telur hæfa til þjónustu, með viðeigandi hliðsjón af öðrum þáttum eins og aldursdreifingu, margbreytileika og kyni. Kjósandinn ætti að taka ákvörðun sína að lokinni vandlegri yfirvegun í langan tíma áður en kosningar hefjast.

Í tilviki kosninganna til stjórnlagaþings er ekki um langan tíma að ræða og við getum heldur ekki kosið það fólk sem við þekkjum og treystum best ef það er ekki formlega í kjöri. Því stöndum við frammi fyrir því að kjósa fólk sem við þekkjum ekki.

Ég geri mér þess vegna grein fyrir því að það er marklaust að vera í kjöri ef fólk hefur engan aðgang að upplýsingum um mig. Ég vil þess vegna reyna að vera dugleg að blogga svo að fólk geti fengið einhverja innsýn í hver ég er, hvers konar manneskja og hvernig ég hugsa.

Mér er ekki kappsmál að verða kjörin á stjórnlagaþingið, satt að segja stendur mér nokkur ógn af verkefninu. Hins vegar fellst ég á að til þess að skapa betra samfélag verðum við öll á einhvern hátt að stíga út úr þægindahring okkar. Óski fólk eftir þjónustu minni verð ég einfaldlega að gera mitt besta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem hafa unnið með Ingu vita að ´hennar besta´ hefur mikið vægi. 

Dagný (IP-tala skráð) 23.10.2010 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband