Landsbyggðin er kona

„Staður konunnar er á bak við eldavélina“ var einu sinni frægt mismæli.  Sem betur fer er búið að finna upp kynjagleraugu og nú kunna flestir einhver skil á því hvernig orðræða getur átt ríkan þátt í mismunun. Barátta kvenna við að komast upp að hlið karla varðandi virðingu og þátttöku á ólíkum sviðum samfélagsins var, er og verður háð í heimi hugmynda og tilfinninga. Allt sem við segjum og gerum byggist nefnilega á hugmyndum okkar, skilningi og lífsviðhorfum. – Við getum lært mikið af áratuga vinnu á þessu sviði.

Bent var á að það byggðist á huglægu mati hvernig störf og hlutverk kvenna væru metin lægra en störf karla og þetta átti við á vinnumarkaði, inni á heimilinum og í félagslífi. útskýrt hefur verið að kvennamenning hafi verið öðru vísi en menning karla en ekki endilega minna virði.

Því hefur verið haldið fram að gangverk fordómanna sé alltaf hið sama. Fljótt á litið sýnist mér í það minnsta að vel megi bera saman stöðu kvenna fyrir einhverjum áratugum og stöðu landsbyggðarinnar nú. Þéttbýli er normið – dreifbýli er frávik. Staður landsbyggðarinnar á að vera í frumatvinnugreinunum fiskvinnslu og landbúnaði. Hlutverk eða verkefni sem talin eru „þróaðri“ eiga þar ekki heima. Það þarf tvo háskóla sinn hvors vegar við flugbrautirnar í Vatnsmýrinni en slíkar stofnanir ætti helst ekki að starfrækja á landsbyggðinni. Það er tímaskekkja að hafa sjúkrahús á landsbyggðinni og börn ættu ekki að fæðast þar. Þeim ætti hvergi að vera óhætt að koma í heiminn nema í Reykjavík.

Mig langar að taka sanna dæmisögu: Þegar þjóðahátíð var haldin í Bolungarvík fyrir um áratug var boðið fjölda fólks frá höfuðborgarsvæðinu sem kom á einhvern hátt að þjónustu við aðkomufólk á Íslandi. Þingmenn kjördæmisins höfðu lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum og Páll Pétursson félagsmálaráðherra tilkynnti á hátíðinni um stofnun slíkrar stofnunar. (http://www.mcc.is/) Undir ræðu Páls fór kliður um sætaröð boðsgestanna að sunnan sem ekki leyndu gremju sinni.

Ég átti síðar samtal við mæta konu sem sagði að þótt okkur sem stæðum að þessu starfi hér á Vestfjörðum gengi eflaust gott eitt til, þá yrði árangurinn annar. Þetta væri vísasti vegurinn til að svæfa málaflokkinn. Stofnun sem sett væri niður úti á landi fengi aldrei samsvarandi fjármagn og ef hún væri í Reykjavík, hún yrði því til lítils gagns. Það yrði að segjast eins og væri, að ráðamenn myndu aldrei hlusta með sömu respekt á fulltrúa stofnunar á landsbyggðinni og ef hún væri í Reykjavík! – Þessi kona hafði atvinnu af jafnréttismálum.

Ég er nú svo gömul að ég man orðrétt þessa sömu umræðu í kynjapólitíkinni; það borgaði sig ekki að hafa konur í forsvari, félaga, fyrirtækja eða stofnana vegna þess að það yrði ekki hlustað á þær af sömu respekt og karla, hversu hæfar og frambærilegar sem þær væru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband