Færsluflokkur: Bloggar
Í þessum heimi hefur hatur ekki enn eytt hatri
15.11.2015 | 11:45
Okkur hér á Vesturlöndum hefur verið sagt og svo étum við það hvert upp eftir öðru að fræðsla sé besta forvörnin ... gegn öllum sköpuðum hlutum. En er það rétt? Hefur vitneskja í raun svo djúpstæð áhrif á okkur að það sem við höfum heyrt eða teljum okkur vita, stýri gerðum okkar? Ég er ekki viss um að þekking ein og sér nægi til að stýra hugsunum okkar, hvað þá gerðum.
Úr öðrum heimshluta höfum við þessa speki:
Í þessum heimi
hefur hatur ekki enn eytt hatri.
Ástin ein sigrar hatrið.
Þetta er Lögmálið,
fornt og óþrjótandi.
Við vitum það,
svo afhverju ættum við deila
Búdda
Ég get vel fallist á að ást sé enn sterkara afl en þekking en getum við elskað án þess að þekkja?
Þegar Sameinuðu þjóðirnar héldu heimsráðstefnu gegn kynþáttahyggju og öðru ámóta umburðarleysi í upphafi aldarinnar, gaf UNESCO út smárit þar sem klisjan um fræðslu eða menntun sem forvörn var slegin út af borðinu. Bent var á að fordómar hefðu grasserað í sinni dekkstu mynd í upplýstustu og best menntuðu ríkjum heims. Talið var að leita þyrfti dýpra í mannssálina til að skilja ástæður fordóma og lausnir gegn þeim. En hvert er þá svarið?
Svarið er semsagt ekki enn komið upp á yfirborðið, patentlausnin er ófundin. Í stað þess að metast um hver sé hættulegri en annar eða hver sé bestur í pólitískum rétttrúnaði þess stutta augnabliks sem núið er, þurfum við að íhuga. Í stað upphrópana þarf að koma ígrundun og leit.
Í þau fjórtán ár sem liðin eru frá því að ég var slegin utanundir með fullyrðingu UNESCO hef ég velt því fyrir mér hvað geti sameinað þekkingu og tilfinningar. Skapað einhvers konar visku sem er kynni að vera betri og traustari en kommentaspeki nútímans.
Mig langar að stinga upp á tveimur bitum í púslið.
Annar er sjálfstæð hugsun. Tökum okkur stutta stund í að meta það sem við heyrum sagt áður en við veljum hvort eða að hvaða leyti við viljum vera sammála eða ósammála. Gefum okkur líka tíma í ró og næði til að hugsa okkar eigin hugsanir, t.d. eftir lestur. Við erum meira en endurvinnslutunna fyrir hugsanir annarra.
Hinn er reynsla. Ég þekki betur það sem ég hef upplifað heldur en það sem mér hefur verið sagt. Mér þykir líka vænna um það fólk sem ég hef einhverja reynslu af en það sem ég þekki bara af afspurn eða alls ekki. Reynslan má ekki bara vera slæm víti til varnaðar. Þvert á móti þurfum við að búa til fullt af góðri reynslu þar sem við lærum að að kynnast, lærum að bera virðingu, lærum að tala saman, lærum að treysta, lærum að njóta. Nú þurfum við sérstaklega að skynja einingu í margbreytileika.
Bloggar | Breytt 17.11.2015 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heppin
12.10.2011 | 12:04
Það er nú meira hvað ég er heppin. Það er ekki sjálfgefið að manneskja á mínum aldri sem aldrei lærði neitt fag eða skapaði sér ævistarf, finni vinnu sem gleður - jafnvel eftir áratug í sama starfi. En þannig er vinnan mín hjá Vegagerðinni.
Oftast nær er ég ánægð og stolt af stofnuninni og góðri vinnu og metnaði vegagerðarfólks í ólíkum störfum um land allt. Auðvitað er niðurskurður og við vildum öll geta byggt fleiri vegi og þjónað þeim betur - mega hálkuverja meira eða moka lengra fram á kvöld á vegum sem ekki liggja alveg inni í þéttbýli suðvesturhornsins. En mér líður vel í vinnunni og finnst ánægjulegt að leiðbeina t.d. ungu fólki sem ekki hefur mikla reynslu af að keyra við ólíkar aðstæður, hvort sem það er á hálendisvegum á sumrin eða í vetrarveðrum í skammdeginu.
Toppurinn er samt að fá, þótt ekki sé nema eina vettvangsferð á ári, undanfarið við að hnitsetja, mæla og skrá ræsi á vegakerfinu. Þetta er góð nýting á mannskap þegar lítið er að gera í upplýsingasímanum 1777, þegar sumartraffíkin er búin en enn bið eftir vetrinum. Um leið bætir þetta þekkingu okkar á vegum og aðstæðum í ólíkum landshlutum.
Það kom mér pínulítið á óvart fyrstu árin að ég varð ekki leið á Íslandi. Það er svo fjölbreytt og fegurðin birtist við hvert fótmál í smáu sem stóru, jafnvel ræsamyndirnar eru velflestar sjarmerandi mótíf. - Enda stóðst ég ekki mátið og bætti inn nokkrum ræsum í myndaalbúmið Vinnuferðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég og fordómarnir
29.1.2011 | 12:48
Það hefur lengi verið markmið hjá mér að vera laus við fordóma. En það gengur illa. Til dæmis í vinnunni (ég gef upplýsingar um færð) þá er ég svo þröngsýn að mér finnst að hér á landi ætti að nota vetrardekk á veturna. En það finnst ekki öllum. Reyndar má segja að það myndi einfalda vinnu mína mikið ef allir keyrðu á sumardekkjum allan ársins hring. Hjá þeim sem það gera er nefnilega aðeins um að ræða tvennskonar ástand, annað hvort er fært eða ófært. Dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Kona: Er Hellisheiðin fær?
Ég: Jú jú, hún er vel fær, þar er hægviðri, gott frost og aðeins hálkublettir.
Konan: Guuuuð! Eru hálkublettir? Ég er ekki á jeppa! Heldurðu að rútan fari?
Ég: Ég geri fastlega ráð fyrir því, þetta eru prýðilegar aðstæður.
Konan: Jæja, ég skoða þetta kannski á morgun.
Ég er orðin býsna vön svona viðbrögðum og hef lært að bíta á jaxlinn þegar um er að ræða taugaveiklaðar konur. En nú kem ég að fordómunum - ég á helmingi erfiðara með að sætta mig við að karlmenn á besta aldri bregðist við á sama hátt. Annað dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Karlmaður: Er Hellisheiðin fær?
Ég: jú hún er bara fín, hæglætisveður og hálkublettir.
Maðurinn: Hvað segirðu, eru hálkublettir? . Já, er það virkilegt verður ekkert saltað? Ég er nú bara á smábíl ég ætti kannski að bíða
Samkvæmt þessu er eiginlega ófært ef nokkra hálku er að finna, jafnvel þótt hún sé mött og stöm í góðu frosti, búið að hálkuverja í beygjur og brekkur og 80 % leiðarinnar sé auður vegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Brennuvargar hóta hefndaraðgerðum
17.1.2011 | 10:39
Gerðar hafa verið yfir tíu árásir á verslanir frá 25. október 2010, og sendar hafa verið bréflegar hótanir til um tuttugu heimila og fyrirtækja í eigu bahá'ía til meðlima hins afvegaleidda baháí sértrúarsafnaðar. Í bréfunum sem eru nafnlaus, er þess krafist að bahá'íar undirriti skuldbindingu um að þeir láti vera að stofna til samskipta eða vináttu við Múslima og að nýta sér eða ráða lærlinga sem eru Múslimar. Bahá'íunum er einnig sagt að kenna ekki trúna, meðal annars á netinu. Ef bahá'íarnir verði við þessu megi þeir treysta því að ekki verði ráðist á þá eða eigur þeirra.
Diane Ala'i fulltrúi bahá'í alþjóðasamfélagins, segir að bahá'iarnir hafi haft samband við borgaryfirvöld og óskað eftir rannsókn á árásunum, en að ekkert hafi verið gert enn sem komið er.
Fréttina í fullri lengd (á ensku) má nálgast á vefslóð alþjóðlegu bahá'í fréttaþjónustunnar: Bahá'í World News Service:
http://news.bahai.org/story/805
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dúa á Bakka
16.1.2011 | 14:04
Það eru bæði kostir og gallar við að vinna vaktavinnu. Gallinn þessa dagana er að vegna vinnunnar komst ég ekki til að fylgja gamalli nágrannakonu minni til grafar eins og mig langaði að gera.
Þegar maður elst upp í sveit eru manns nánustu þeir sem búa næst manni, ekki síður en ættingjar í öðrum landshlutum. Dúa á Bakka var þannig frænkuígildi ef ég ber bernsku mína saman við nútímann.
Ein af sárafáum bernskuminningum mínum, þar sem ég skynjaði að eitthvað hræðilegt væri að eiga sér stað, var þegar mamma hljóp neðan úr gamla bæ upp á Tanna þar sem pabbi var að vinna í nýbyggingu, og hrópaði alla leiðina: Daddi, það er kviknað í á Bakka! Daddi, það er að brenna á Bakka! Að heiman horfði ég á fólk hlaupa fram og til baka milli nýja hússins og gamla torfbæjarins. Ekki veit ég hversu miklu náðist að bjarga en enginn held ég að hafi slasast.
Það var enn farskóli í sveitinni þegar ég komst á skólaaldur. Átta ára fékk ég að fara tvær vikur fram að Reykjum í skóla. Í gamla bænum fannst pláss til að hýsa kennara og hóp nemenda, auk þess sem kennslan fór fram í tveim samliggjandi stofum og allur hópurinn var með fjölskyldunni í mat. Árið eftir var kennt á Bakka og þá fékk ég að fara í fjórar vikur, enda þurfti ég ekki að gista en gat skoppað þetta á milli. Þarna sá ég í fyrsta skipti gítar og heyrði framandleg orð um einhverja dúra í tónlist.
Löngu seinna eða veturinn eftir landspróf varð Bakki mér aftur fræðasetur. Dúa vissi að ég myndi ætla í menntaskóla árið eftir og bauð mér niður eftir til að horfa á kennsluþætti í þýsku sem voru vikulega á dagskrá Sjónvarpsins. Pabbi hafði tekið í sig að ekki yrði keypt sjónvarp á sitt heimili fyrr en það kæmi í lit. Boð Dúu kom sér því vel. Vitaskuld var alltaf boðið upp á hressingu, bakkelsi og fínerí eftir kennslutímann og eftir samtal við Dúu hafði heimsóknin orðið mér lærdómsrík í fleiru en þýsku. Þetta varð mér vikuleg dekurstund, frí frá hversdagsverkum og svolítil ný gátt að heiminum.
Dúa var afar lagleg kona, smávaxin, kvik í hreyfingum og hláturmild. Óljósa hugmynd hafði ég um að hún hefði menntast en það var sannarlega ekki algengt meðal sveitakvenna um miðja síðustu öld. Fyrirmyndir stúlkna voru fáar að því leyti til og hver og ein því þeim mun mikilvægari. Það var hins vegar nóg af fyrirmyndum um dugnað kvenna og vinnusemi. Einhverntíma voru grannkonurnar að bera saman bækur sínar um hvað þær þyrftu mikið að sofa. Mamma og að mig minnir Ósk á Reykjum sögðust vera hálf ónógar sjálfum sér ef þær næðu ekki sex tíma svefni. Dúa sagðist vel komast af með fjóra. Þegar ég seinna las það í mannkynssögu að Napóleon hefði ekki þurft nema fjögurra tíma svefn, varð mér ljóst að hann og Dúa hefðu átt það sameiginlegt að vera smávaxin stórmenni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lögbundinn stofnanavæddur klíkuskapur
21.11.2010 | 11:40
Vinnulag í stjórnmálum snýr bæði að fyrirkomulagi kosninga - og starfsháttum þings og ríkisstjórnar.
Ég á afar erfitt með að sætta mig við lögbundinn stofnanavæddan klíkuskap sem er óaðskiljanlegur flokkapólitík. Að það skuli álitið sjálfsagt að útiloka að miklu leyti upp undir helming löglega kjörinna fulltrúa frá þátttöku í vinnu þingsins, flokka þá sem óæðri þingmenn í minnihluta sem hafi nánast ekki annað hlutverk en að veita meirihlutanum aðhald - það hefur bæði praktísk og sálræn áhrif á störf þingsins og er náttúrlega ekkert annað en stofnanavæddur klíkuskapur. Auðvitað eiga allir kjörnir fulltrúar að sitja við sama borð.
Það er mikið talað um skýrari þrískiptingu valdsins. Ég sé það sem hluta af lausinni að draga úr beinum tengslum þingmanna við ríksisstjórn. En ég held að lausnin felist ekki síður í aðdraganda kosninga kosningamenningunni og alveg sérstaklega persónukjöri sem myndi draga úr neikvæðum áhrifum flokkadrátta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nei þetta er nú allt of mikið
13.11.2010 | 23:24
Þegar ég var að alast upp á Tannastöðum hékk þar á vegg mynd af síðhærðum sérkennilegum manni. Hann var okkur óskyldur en hann fylgdi staðnum. Afkomendur hans höfðu óskað þess og aldrei hvarflaði að neinu okkar annað en að það væri heiður að hafa uppi myndirnar af honum og konu hans.
Myndinni fylgdi saga. Hann hafði verið heiðraður af kóngi en hann brást við af mikilli hógværð og íslenskri kurteisi og honum varð að orði: Nei, þetta er nú allt of mikið! Þessi lítilláti maður sem hafði alist upp á Tann(a)stöðum ríflega hálfri annarri öld á undan mér hafði unnið það afrek að kortleggja Ísland auk þess að skrifa stjörnufræðirit og skáldrit en lengst mun hann hafa unnið við kennslu, m.a. við Bessastaðaskóla.
Á tímum þegar við eigum sífellt að vera að selja okkur, alltaf að halda því til haga hvað við séum snjöll og brilljant og klár ... æ, þá finnst mér nú notalegt að hugsa til Björns Gunnlaugssonar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rétt eða röng spurning?
6.11.2010 | 14:19
Fjölmargir, þar á meðar framámenn og fræðingar, spyrja allt að því í örvæntingu hvernig endurheimta megi almenna tiltrú á Alþingi og flokkakerfið.
Það er vissulega þörf á þjóðarsátt um stjórnkerfi og aðferðir sem geti á árangursríkan hátt stýrt þjóðfélaginu. En ég held að spurningin að framan sé röng. Við eigum ekki í övæntingu okkar að skjóta nýjum stoðum undir kerfi sem er hrunið kerfi sem hefur afsannað sig.
Ísland er ekki eina landið sem á í kreppu og við Íslendingar erum ekki einir um að þurfa að endurmeta gildi og aðferðir. Í öllum heimshlutum fara traust og samvinna milli einstaklinga og stjórnstofnana dvínandi. Víða hefur kosningaferlið á sér óorð vegna landlægrar spillingar. Ágallar kosningaferlisins eru m.a. aðgangur hagsmunaafla að digrum sjóðum, takmarkað valfrelsi sem er óaðskiljanlegt flokkakerfinu og brenglun á almennu viðhorfi gagnvart frambjóðendum vegna hlutdrægni í fjölmiðlum. Þetta veldur sinnuleysi, firringu og vonbrigðum og um leið vaxandi vonleysi um að hæfasta fólkið fáist til að takast á við meingallað þjóðskipulag. Hvert sem litið er blasir þó við augljós löngun eftir stofnunum sem muni framfylgja réttlæti, vinna gegn kúgun og hlynna að varanlegri einingu hinna ólíku þátta samfélagsins.
Þess vegna held ég öfugt við þá sem tala um að stjórnlagaþing sé sóun fjármuna og nær væri að einhenda sér í að endurreisa núvderandi kerfi að það sé kominn tími til að vinna að nýjum lausnum, ekki síst í því hvernig við stýrum samfélaginu.
Öll framþróun er lærdómsferli. Ég á ekki von á að væntanleg stjórnarskrá verði óskeikul uppskrift að draumsýn okkar um þúsundáraríki. En ég tel ómarksins vert að stíga einhver framfaraskref.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þróun lýðræðishugmynda
31.10.2010 | 11:39
Ég ímynda mér að fyrsti vísir að síðari tíma lýðræði hafi sprottið af óánægju með slæma kónga fólk hafi viljað góðan kóng. Alla vega hefur það verið sterkt í lýðræðishugsuninni að þetta snúist um réttinn til að velja ráðamenn. Lengst af hefur fólk ekki ætlað sér að stjórna sjálft, heldur viljað velja sér góða forystumenn sem síðan sæju um það verkefni að stjórna landinu (eða sveitarfélaginu).
Vegna sífelldra vonbrigða með útkomuna hefur komið upp sú skoðun að það sé sami rass undir öllum stjórnmálamönnum og undirliggjandi markmið þeirra sé að verma valdastólana. Þá hefur það orðið rökrétt afleiðing að fólk vilji einfaldlega taka málin í sínar hendur, ekki sé nóg að velja milli pakkatilboða stjórnmálaflokkanna á fjögurra ára fresti, við verðum sjálf að fá að kjósa beint um öll stærstu mál.
Í þessum hugmyndum felst vitaskuld að lýðræði snúist fyrst og fremst um val en ekki hvernig samræða eigi að vera til þess að hægt sé að vega og meta upplýsingar og ná ígrundaðri niðurstöðu.
Þegar við nú erum að endurmeta gildi og starfshætti þjóðfélagsins í heild held ég að það sé afar mikilvægt að skoða minnst þrennt:
o Hvernig stöndum við að því að velja forystumenn?
o Hvernig ferli notum við til að fá niðurstöðu í mikilvæg mál?
o Hvernig getum við öll sem samfélag aukið og þroskað almenna þátttöku í samráði um þjóðfélagsmál?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjálfstæði skólastarfs
28.10.2010 | 10:54
Fólk heldur áfram að togast á um hvað megi eða megi ekki gera innan skóla. Umræðan snýst mikið um hvort trúarbrögð séu jákvæð eða neikvæð.
En er ekki sjálfstæði skólanna aðalatriðið? Að enginn skoðanahópur eigi opinn aðgang inn í skólana og að sveitarstjórnarmenn treysti fagfólki skólanna til að meta hvort og í hvaða tilvikum vel fari á að fá gesti í heimsókn í tengslum við námið eða fara í vettvangsheimsóknir.
Ég var svo hrifin af einu innleggi við eldri færslu hjá mér um málið, að mig langar að taka hana hér inn. Þar segir um heimsóknir og vettvangsferðir:
Aðallega held ég að það væri mun athyglisverðara fyrir börnin heldur en að kennarar þylji upp einhverjar staðreyndir. Og hvers konar staðreyndir eru það? Í trúarbragðasögu í menntaskóla fékk ég ýmsar staðreyndir um klæðaburð presta og hvað hverjir borðuðu og borðuðu ekki.
Kjarni trúarbragða er nú almennt ekki efnislegs eðlis og mér fyndist áhugaverðast að þeir sem vita best útskýri: Það er miklu áhugaverðara að heyra slökkviliðsmann greina frá starfi sínu en að kennarinn útskýri starfið. Það er miklu áhugaverðara að fá Malavíbúa til að segja frá Malaví heldur en íslenskan kennara.
Íslendingar eru svo logandi hræddir við trúarbrögð, af hverju? Þarf ekki bara að vanda til verks og passa undirbúning. Kennari útskýri vel áður en gestir koma í heimsókn að ekki hafi allir sömu lífssýn. Þarf ekki frekar að kenna börnum að vera gagnrýnin heldur en að passa að það komi enginn til að heilaþvo þau?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)