Færsluflokkur: Bloggar

Sannsögli - undirstaða mannlegra dygða

Hann pabbi minn talaði stundum um það hvað gömlu konurnar hefðu lagt mikið verk í það að kenna börnum að segja satt. Aðal kennslutækið var heiður. Það væri svo lítilmannlegt að segja ósatt. Vanþroski fólst ekki aðallega í að gera mistök heldur ekki síður í að reyna að breiða yfir þau – og verst af öllu var að kunna ekki að skammast sín.

Sannsögli er ekki einangrað fyrirbæri, hún er undirstaða annarra dygða. Heiðarleiki er ekki aðeins það að fara að lögum heldur að virða sannleikann, forðast feluleik og blekkingar í öllum myndum – líka gagnvart sjálfum sér. Þegar okkur finnst við hafa lítil áhrif á þjóðfélagið, munum þá að við greiðum atkvæði víðar en í kjörklefanum. Við greiðum t.d. atkvæði gegn heiðarleika ef við veljum nótulaus viðskipti.

Við berum öll ábyrgð á samfélaginu enda erum við samfélagið. Þótt við getum ekki ráðið miklu um heildina ættum við í það minnsta að reyna að tjónka við okkur sjálf. Það er mikil freisting að skrökva pínulítið að sjálfum sér. Það er þess vegna góður upphafspunkturað byrja á að reyna að vera ærlegur við sjálfan sig. Þannig getur okkur lærst að vera líka heiðarleg við aðra.


Vinna

Sem sveitakrakki man ég ekki svo langt að hafa ekki unnið. Ég man hins vegar eftir því þegar mamma þurfti að fara á sjúkrahús þegar ég var 11 ára að yngsta bróður mínum var komið fyrir hjá greiðviknum nágrönnum meðan hún yrði í burtu. Það þótti nóg fyrir mig að sjá um heimilið þótt ég bæri ekki ábyrgð á árs gömlu bleijubarni líka. Þetta var yndislegur tími. Þegar ég var búin að ganga frá eftir hádegismatinn gat ég átt frí alveg þangað til ég þyrfti að hafa til miðdagskaffið.

Nonni bróðir hefur raunar sagt ýmsar skemmtilegar sögur af þeirri vinnusemi sem tíðkaðist þegar við vorum að alast upp. Hér er ein þeirra: http://www.jondan.is/jondan/?D10cID=page&id=21

 


Var það séra Sigurði að þakka?

Það er ekki í samhengi við þetta fertugsafmæli sem ég virðist í naflaskoðun. Raunar er ég ekki í sérstakri tilvistarkreppu en mér finnst bara svo áhugavert að skoða orsök og afleiðingar í tilverunni – hvernig fólk þroskast og hvað hefur áhrif á okkur. Nærtækasta sýnidæmið er alltaf maður sjálfur. Það er helst í eigin lífi sem maður þekkir sæmilega til.

Helstu áhrifavaldar í lífi mínu eru auðvitað almenn atriði eins og hvar og hvenær ég óx úr grasi – í sveit á tímum útvarpsleikrita og farskólakennslu, en líka smáatriði á borð við það að Jón Baldvin þéraði mig ekki um árið.

Mér finnst t.d. sérkennilegt að ég skyldi hnjóta um bahá’í trúna árið eftir að ég kom vestur. Ég sem hafði neitað að fermast og næstum því komist upp með það, var ekki að leita að trú. Víst var hér kynning á þessum trúarbrögðum sem fjöldi jafnaldra minna og starfsfélaga í íshúsinu sóttu. Ég ákvað að kíkja. Ég var sammála öllu sem þar kom fram, - vel að merkja ef Guð væri til, sem ég hafði ekki gert upp við mig. Ég hafði hins vegar slæma reynslu að því að vera sammála. Yfirleitt var ég sammála síðasta ræðumanni jafnvel þótt menn töluðu alveg á víxl.

Auðvitað hafði ég ekkert vit á trúmálum og engar forsendur til að spyrja gagnrýninna spurninga. Þess vegna ákvað ég að leita til prestsins og spyrja hann einfaldlega hvers vegna ég ætti ekki að ganga úr þjóðkirkjunni og í bahá’í trúna. Þetta fór í stuttu máli illa. Ég stóð á tröppunum á prestbústaðnum og stundi því ofur feimnislega út úr mér að mig langaði að tala við hann um bahá’í trúna. Séra Sigurður þekkti mig eðlilega ekki sem sitt fermingarbarn og dró þá ályktun að ég væri úr liðinu að sunnan og ætlaði ekki að ráðast á garðinn þar sem hann væri lægstur í trúboði mínu. Hann bauð mér kurteislega inn á kontór en sagði strax að hann vissi ekkert um þessa trú og vildi ekkert vita um hana. Sér þætti hins vegar mikið ábyrgðarleysi að leyfa svo ungu fólki að ganga í þetta.

Þvert á það sem ég hafði ætlað mér var ég allt í einu komin í vörn fyrir málstað sem ég vissi sáralítið um. Spurði hvort það væri meira ábyrgðarleysi að leyfa 16-18 ára unglingum að velja trú, en að ferma 14 ára börn. Séra Sigurður sagði það vera allt annað mál þar sem feðranna trú stæði á traustum grunni. Eitthvað urðu samræðurnar lengri, mér tókst að leiðrétta misskilninginn, ég hefði bara komið til að leita ráða. Loks spurði ég hvort honum þætti ekki rétt að vita eitthvað um þessa nýju trú, þótt ekki væri nema til að leiðbeina fermingarbörnum sínum og öðrum í söfnuðinum. Nei, sagði hann, það verður alfarið að vera þeirra mál.

Eftir þetta samtal sýndist mér ég ekki hafa frá miklu að hverfa þótt ég yfirgæfi þjóðkirkjuna, fór aftur yfir í Sjálfstæðishúsið og skráði mig í bahá’í samfélagið. Ég átti að vísu enn eftir að gera upp við mig hvort ég ætlaði að trúa á Guð.

Þetta skondna atvik leiddi mig inn á braut sem hefur ekki verið auðfarin, enda ekki um troðna alfaraleið að ræða, en hún hefur verið lærdómsrík. Og séra Sigurði sem ég kynntist betur síðar, er ég afar þakklát.


Þær eru margs konar, þúfurnar sem velta hlössum í lífinu

Nú í haust eru víst liðin slétt 40 ár frá því að ég kom til Vestfjarða og hér hef ég búið síðan ef frá er talið árið sem ég bjó í Tékklandi. Ég var að vinna á Edduhótelunu í Reykjaskóla sumarið 1970 þegar Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður og hótelstýran talaði mig inn á að kynna mér aðstæður vestra áður en ég ákvæði að fara í skóla á Akureyri eða í Reykjavík. Raunar hafði ég byrjað í MA haustið áður en hafði ekki efni á að kosta mig allan veturinn. Meiningin var að lesa utanskóla en til þess hafði ég þó ekki sjálfsaga.

            En hvers vegna lét ég sannfærast um að fara vestur – því sannarlega voru Vestfirðir framandi fyrir sveitakrakka af Norðurlandi. Jú það sem breytti lífi mínu var að Jón Baldvin Hannibalsson þéraði mig ekki þegar hann hringdi til að svara fyrirspurn minni um skólavist. Við MA var risið úr sætum fyrir kennurum – og þérað. Skólameistarinn á Ísafirði hlaut því að vera frábær Smile  ... sem hann vitaskuld var.

            Ég var á fjöllum þegar boð á afmælishátíðina barst með aðeins þriggja daga fyrirvara svo að ég missti af hátíðinni. En mér til ánægju sá ég á BB skemmtilega frásögn Jóns Baldvins af upphafi menntaskólans sem hafði svo afgerandi áhrif á líf mitt. http://bb.is/?PageID=26&NewsID=154541


Á byrjunarreit

Ég hef verið ódugleg við að blogga en þó sett inn af og til bæði myndir og eitthvað sem hefur verið að velkjast í huga mér. Nú var ég að uppgötva mér til skelfingar að gamla bloggið mitt er ekki lengur aðgengilegt og líkast til glatað.

Ég er því aftur á byrjunarreit. Ég sakna vissulega fortíðar minnar en ætli þetta sé ekki líkt og þegar maður flytur á milli húsa, maður tekur til og hendir því sem ekki þarf lengur að hafa meðferðis.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband