Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Heppin
12.10.2011 | 12:04
Það er nú meira hvað ég er heppin. Það er ekki sjálfgefið að manneskja á mínum aldri sem aldrei lærði neitt fag eða skapaði sér ævistarf, finni vinnu sem gleður - jafnvel eftir áratug í sama starfi. En þannig er vinnan mín hjá Vegagerðinni.
Oftast nær er ég ánægð og stolt af stofnuninni og góðri vinnu og metnaði vegagerðarfólks í ólíkum störfum um land allt. Auðvitað er niðurskurður og við vildum öll geta byggt fleiri vegi og þjónað þeim betur - mega hálkuverja meira eða moka lengra fram á kvöld á vegum sem ekki liggja alveg inni í þéttbýli suðvesturhornsins. En mér líður vel í vinnunni og finnst ánægjulegt að leiðbeina t.d. ungu fólki sem ekki hefur mikla reynslu af að keyra við ólíkar aðstæður, hvort sem það er á hálendisvegum á sumrin eða í vetrarveðrum í skammdeginu.
Toppurinn er samt að fá, þótt ekki sé nema eina vettvangsferð á ári, undanfarið við að hnitsetja, mæla og skrá ræsi á vegakerfinu. Þetta er góð nýting á mannskap þegar lítið er að gera í upplýsingasímanum 1777, þegar sumartraffíkin er búin en enn bið eftir vetrinum. Um leið bætir þetta þekkingu okkar á vegum og aðstæðum í ólíkum landshlutum.
Það kom mér pínulítið á óvart fyrstu árin að ég varð ekki leið á Íslandi. Það er svo fjölbreytt og fegurðin birtist við hvert fótmál í smáu sem stóru, jafnvel ræsamyndirnar eru velflestar sjarmerandi mótíf. - Enda stóðst ég ekki mátið og bætti inn nokkrum ræsum í myndaalbúmið Vinnuferðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)