Kosningamenning og kostnaður við að vera í kjöri

Þar sem ég hef hlotið mitt félagslega uppeldi er óhlutbundin kosning reglan, án framboðs eða tilnefningar, og kosningaáróður er óheimill. Slíkt fyrirkomulag byggist á því að kjósandinn beri ábyrgð á að kynna sér störf og hugmyndir þeirra sem eru virkir í samfélaginu yfir lengri tíma. Kjósandinn velur fólk til þjónustu en hugmyndir um baráttu og frama eru í raun álitnar and-félagslegar. Sú gerjun sem nú á sér stað varðandi hvernig standa beri að kosningum er þróun í þessa átt og mikið fagnaðarefni

Hins vegar má öllum vera ljóst að hér er um nýja og byltingarkennda hugsun að ræða miðað við þær aðferðir sem hingað til hafa viðgengist í íslenskum stjórnmálum. Auk þess er frestur kjósenda til að kynna sér þá sem eru í kjöri afar stuttur, sérstaklega eru þeir sem ekki eru handgengnir netinu illa settir. Það er engin furða að fólk sé pínu áttavillt, frambjóðendum finnst þeir ekki hafa tækifæri til að kynna sig eins og vert væri og hefð er fyrir í samkeppnistjórnmálum. Kjósendur eru heldur ekki undir það búnir að bera sig sjálfir eftir upplýsingum eftir að hafa vanist við að vera mataðir.

Möguleikar frambjóðenda til að láta upplýsingar um sig og skoðanir sínar liggja frammi fyrir alþjóð á bloggsíðum hafa skapað nýjan vettvang fyrir stefnumót kjósenda og þeirra sem bjóða fram þjónustu sína, frambjóðendum að kostnaðarlausu. Það eitt og sér er forsenda til að gjörbreyta valmenningu við kosningar.

Ég er hvorki hissa né hneyksluð á að frambjóðendur reyni að kynna sig og stefnumál sín, m.a. með auglýsingum. Auðvitað stöndum við einhvern veginn klofvega milli gamalla og nýrra starfshátta. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að horfa á gildi þeirra breytinga sem eru að verða og að við vinnum með breytingunum frekar en á móti.

Sjálf var ég að svara Ríkisendurskoðun um hvað það kosti mig að vera í kjöri. Svarið var í raun hálf spaugilegt en eini kostnaður minn var að borga undir ábyrgðarbréf með framboðsgögnunum mínum suður - 595 krónur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband