Svör við spurningalista

Fyrir fáeinum dögum bað kjósandi okkur sem erum í kjöri til stjórnlagaþings að svara nokkrum spurningum. Aðeins var beðið um að svarað yrði með einu orði en hér á blogginu hef ég auðvitað aðstöðu til aðgera örlítið nánar grein fyrir afstöðu minni.

Viltu að landið verði eitt kjördæmi?

Svar: Ég vildi helst blandaða leið

Það er nauðsynlegt að jafna vægi atkvæða. Það gerist auðvitað sjálfkrafa ef landið er sameinað í eitt kjördæmi, en eins mætti einfaldlega fækka þingmönnum í fámennari kjördæmum og í raun er hægt að reikna fulltrúafjölda hvers kjördæmis út frá mannfjölda fyrir hverjar kosningar.

Það er nauðsynlegt að fólk úr öllum landshlutum eigi sér rödd meðal þingmanna. Meiri hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og því gæti það gerst ef landið væri eitt kjördæmi, að fólk á landsbyggðinni ætti sér fáa eða enga málsvara á þingi.

Mín hugmynd að lausn væri að fara blandaða leið, hluti þingmanna yrði kosinn sameiginlega af öllum landsmönnum en aðrir yrðu kjörnir sem fulltrúar kjördæma. Ég hef séð setta fram svipaða hugmynd þar sem talað er um tvær deildir. Ég sé hins vegar enga ástæðu til annars en að allir þingmenn störfuðu saman í einni deild eins og verið hefur.

Viltu að ríkið veiti einu trúfélagi forréttindi umfram önnur?

Svar: Nei            

Ég vil þó taka fram að ég tel að við endurreisn samfélagsins þurfi markvisst að vinna með siðræna færni og samfélagsvitund. Ábyrg þátttaka trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga skiptir þar miklu máli og tryggja þarf starfsskilyrði þeirra þótt fallið verði frá núverandi tengslum ríkis og þjóðkirkju. - Mér finnst spurningin raunar nokkuð leiðandi. Þegar mikill meiri hluti þjóðarinnar tilheyrir einu trúfélagi verður staða þess óhjákvæmilega önnur. Ég vil virða þjóðarvilja í þessu máli.

Viltu að almenningur eigi allar náttúruauðlindir

og njóti arðs af þeim?           

Svar: Í stórum dráttum já           

Ég tel land raunar til náttúruauðlinda en tel t.d. eðlilegt að bændur geti átt jarðir sínar. Mér þætti þó vert að skoða hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að land eða landbúnaðarkvóti geti safnast á fárra hendur. Eignaupptaka (eins og í þjóðlendumálinu) ætti hins vegar ekki að eiga sér stað bótalaust.

 

Viltu að vernd umhverfis og náttúru verði höfð að leiðarljósi

við allar framkvæmdir?

Svar:

Ég vil forðast öfga arðráns og friðunar. Skilgreina þarf hvað eigi að friða en nýta annað á sjálfbæran hátt.

 Viltu að öll orkufyrirtæki séu í eigu almennings?

Svar: Nei            

Ég tel rétt að helstu auðlindirnar séu í eigu almennings og stjórnvöld stýri nýtingu þeirra í almannaþágu. Ég vil ekki útiloka að fyrirtæki geti verið í einkaeigu en stjórnvöld verða að sjálfsögðu að setja slíkri starfsemi lagaramma. 

Viltu að Ísland verði áfram aðili að Atlandshafsbandalaginu?

Svar: Nei            

Ég vildi sjá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna eflda til að halda uppi alþjóðalögum og friði, með það að markmiði að varnar- eða hernaðarbandalög verði lögð niður. Þótt það sé ekki á færi íslenskra stjórnvalda að koma því í kring ;) þætti mér eðlilegt að þau ynnu út frá þessu sjónarmiði.

Viltu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu

náist hagstæðir samningar?

Svar: Óviss         

Þarna er svo margt sem mælir bæði með og á móti að ég er hreinlega ekki búin að gera þetta upp við mig. Mér finnst mikilvægt að umsóknarferlið sé klárað, enda betra að hafa sem gleggstar upplýsingar til að taka afstöðu út frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband