Í þessum heimi hefur hatur ekki enn eytt hatri
15.11.2015 | 11:45
Okkur hér á Vesturlöndum hefur verið sagt og svo étum við það hvert upp eftir öðru að fræðsla sé besta forvörnin ... gegn öllum sköpuðum hlutum. En er það rétt? Hefur vitneskja í raun svo djúpstæð áhrif á okkur að það sem við höfum heyrt eða teljum okkur vita, stýri gerðum okkar? Ég er ekki viss um að þekking ein og sér nægi til að stýra hugsunum okkar, hvað þá gerðum.
Úr öðrum heimshluta höfum við þessa speki:
Í þessum heimi
hefur hatur ekki enn eytt hatri.
Ástin ein sigrar hatrið.
Þetta er Lögmálið,
fornt og óþrjótandi.
Við vitum það,
svo afhverju ættum við deila
Búdda
Ég get vel fallist á að ást sé enn sterkara afl en þekking en getum við elskað án þess að þekkja?
Þegar Sameinuðu þjóðirnar héldu heimsráðstefnu gegn kynþáttahyggju og öðru ámóta umburðarleysi í upphafi aldarinnar, gaf UNESCO út smárit þar sem klisjan um fræðslu eða menntun sem forvörn var slegin út af borðinu. Bent var á að fordómar hefðu grasserað í sinni dekkstu mynd í upplýstustu og best menntuðu ríkjum heims. Talið var að leita þyrfti dýpra í mannssálina til að skilja ástæður fordóma og lausnir gegn þeim. En hvert er þá svarið?
Svarið er semsagt ekki enn komið upp á yfirborðið, patentlausnin er ófundin. Í stað þess að metast um hver sé hættulegri en annar eða hver sé bestur í pólitískum rétttrúnaði þess stutta augnabliks sem núið er, þurfum við að íhuga. Í stað upphrópana þarf að koma ígrundun og leit.
Í þau fjórtán ár sem liðin eru frá því að ég var slegin utanundir með fullyrðingu UNESCO hef ég velt því fyrir mér hvað geti sameinað þekkingu og tilfinningar. Skapað einhvers konar visku sem er kynni að vera betri og traustari en kommentaspeki nútímans.
Mig langar að stinga upp á tveimur bitum í púslið.
Annar er sjálfstæð hugsun. Tökum okkur stutta stund í að meta það sem við heyrum sagt áður en við veljum hvort eða að hvaða leyti við viljum vera sammála eða ósammála. Gefum okkur líka tíma í ró og næði til að hugsa okkar eigin hugsanir, t.d. eftir lestur. Við erum meira en endurvinnslutunna fyrir hugsanir annarra.
Hinn er reynsla. Ég þekki betur það sem ég hef upplifað heldur en það sem mér hefur verið sagt. Mér þykir líka vænna um það fólk sem ég hef einhverja reynslu af en það sem ég þekki bara af afspurn eða alls ekki. Reynslan má ekki bara vera slæm víti til varnaðar. Þvert á móti þurfum við að búa til fullt af góðri reynslu þar sem við lærum að að kynnast, lærum að bera virðingu, lærum að tala saman, lærum að treysta, lærum að njóta. Nú þurfum við sérstaklega að skynja einingu í margbreytileika.
Bloggar | Breytt 17.11.2015 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er líklega ekki feministi
24.10.2015 | 11:46
Ég er líklega ekki feministi. Samt finnst mér ég vera jafnréttissinni. En þegar ég var ung var hugmyndafræði jafnréttissinnaðra kvenna talsvert ólík þeirri mælistiku sem nú er beitt á jafnrétti og mér finnst raunar sú reglustika notuð af nokkrum strangleika til að berja á fingurna á okkur nemendum í skólastofu lífsins.
Þá þýddi jafnrétti frelsi og frelsi þýddi val en ekki skyldu til að gera allt á sama hátt og karlar. Ég lít svo á að frelsi sé óendanlega dýrmætt. Frelsi er gjarna möguleikinn til að geta það sama og aðrir en það er ekki síður möguleikinn til að fara sínar eigin leiðir frekar en margtroðnar leiðir annarra. Konurnar sem leiddu baráttuna þegar ég var að læra að hugsa um þessi mál, lögðu einmitt áherslu á að konur væru ekki karlar en þótt þær væru ólíkar þeim bæri ekki að meta þær minna og hefðbundin störf kvenna ætti að meta til jafns við hefðbundin karlastörf.
Ég fellst á að þarna vantar enn nokkuð upp á en ég er ekki sátt við þá framsetningu að okkur hafi mistekist þar til kynjahlutföll verði hnífjöfn í öllum starfsgreinum. Ég sé heldur ekki að gildismat mitt eigi að laga sig að efnishyggju nútímans og að ég sé ekki fullgild nema ég komi mér í hálaunastarf eða vinni sem flesta tíma utan heimilisins verði ofurkona. (Hef reyndar aldrei heyrt talað um ofurkarla hversu mikið sem þeir leggja á sig.)
Lengi fannst mér vanta upp á að karlar tækju sér sama frelsi og konur, frelsi til að opna upp gamla ramma á hvaða sviði sem væri. Nú finnst mér, þrátt fyrir allt, flestar dyr standa opnar bæði körlum og konum. Hvert er þá næsta skref? Ætli það sé ekki að velja sér leiðir til að nota frelsið, finna því verðug viðfangsefni, að við höfum eitthvað merkilegra fram að færa hvert við annað en að segja sæta, sæta á fésinu.
Ílát eða efniviður?
24.4.2012 | 11:48
Í síðasta pistli var ég að lýsa þeirri sannfæringu minni að röng viðhorf til mannlegs eðlis vanmat á eðlislægri andlegri getu mannsins hamli þeim framförum sem við ættum að ná í þroska einstaklingsins og framförum mannlegs samfélags. Vanmatið kemur m.a. fram í menntakerfinu sem hefur lengi einkennst af því að nemendur séu ílát fyrir þekkingu fremur en efniviður.
Ég er mjög sein að hugsa og sein að taka inn nýjar hugmyndir en á löngum tíma hefur þessi setning greypt sig inn í hugarheim minn og orðið mér viðmiðun til aukins skilnings:
Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim.
Nýlega skrifaði ungur maður ágætan pistil um þörfina fyrir breytt menntakerfi en út frá eigin reynslu finnst honum tíma nemenda sólundað http://www.visir.is/vid-thurfum-menntun-sem-hentar-21.-oldinni/article/2012704199983 Hann bendir á að nemendur þurfi að vera þátttakendur í lærdómsferlinu en ekki áhorfendur og segir að fróðleiksfýsn, sköpunarkrafti og jafnvel framkvæmdagleði sé misþyrmt í núverandi skólastarfi. Honum finnst að menntun eigi fyrst og fremst að stuðla að sterkri sjálfsmynd en henni fylgi bestu eiginleikar mannsins, s.s. ábyrgðartilfinning, siðgæði, frumleiki, sjálfstæð hugsun, sköpun, heiðarleiki, hugsjónir, auðmýkt, sjálfstraust, gjafmildi, sjálfsþekking og eldmóður. Með þessum kostum sé þekking, leikni og hæfni ekki langt undan.
Í greininni vísar Ísak til hugmynda Ken Robinson http://www.ted.com/speakers/sir_ken_robinson.html en þeir sem á annað borð geta nýtt sér efni á ensku ættu fortakslaust að kynna sér óborganlega fyrirlestra hans.
Erum við slæm inn við beinið?
22.4.2012 | 15:58
Svo illilega eru trú og trúarbrögð sett til hliðar í samfélagi okkar að almennt er gengið út frá því að trú sé einkamál, prívat sérviska sem fólki sé heimilt að hafa í krafti mannréttinda og hugsanafrelsis, en eigi ekki erindi inn í almenna þjóðfélagsumræðu. Jafnvel er því haldið fram, ýmist beint eða undir rós, að trúarbrögð séu uppspretta öfga og ofstækis ástæða haturs og ófriðar.
Það alvarlega við þessi viðhorf er að með slíkum grýlustimpli hefur að miklu leyti verið tepptur sá farvegur fyrir framfarir mannsandans sem trúarbrögðin hafa verið frá upphafi og ættu með réttu að vera um alla framtíð. Við trúum öll á efnislegar eða tæknilegar framfarir, af hverju erum við þá ekki tilbúin að trúa á mannbætandi andlegan vöxt manns og samfélags?
Ég geri mér vel grein fyrir að mannlegir forsvarsaðilar trúarbragða hafa skrumskælt ásýnd þeirra, en sjálfstætt hugsandi fólk ætti að geta séð í gegnum orð og gerðir spilltra ráðamanna og séð þá leiðsögn um andlegt eðli mannsins sem öll trúarbrögð snúast um.
Í hinni efnislegu umræðu verður spurningin um eðli mannsins útundan. Ég hef oft rekið mig á að þegar við horfum til þjóðfélagsins hættir okkur til að finnast fólk vera lélegt. Það sé eigingjarnt, spillt og jafnvel illa innrætt. En þegar við horfum á nýfædda sólargeislann í fjölskyldunni, barn eða barnabarn, þá er sú litla mannvera alsaklaus og velfarnaðaróskir okkar hreinar og fölskvalausar.
Tilraunir okkar til að byggja upp samfélög hljóta að byggjast á einhverri hugmynd um hvers konar fyrirbæri manneskjan er. Ef við trúum því að manneskjan sé vond, frek og óheiðarleg í eðli sínu, setjum við líklega annars konar markmið og stöndum öðru vísi að verki en ef við álítum að fólk sé gott og göfugt ef það nær að þroskast eðlilega.
Mér sýnist að nú þegar trúarbrögðin hafa að mestu verið afskrifuð hafi trúin á göfgi og gildi mannsins smám saman glatast líka. Alla vega tala afar sterkt til mín eftirfarandi klausa úr skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar, æðstu stjórnstofnun baháí trúarinnar, sem árlega sendir baháíum um allan heim umhugsunarefni á ridván hátíðinni sem nú stendur yfir:
... þrátt fyrir lofsverða viðleitni velmeinandi einstaklinga í öllum löndum sem vinna að þjóðfélagsumbótum, virðist mörgum sem hindranirnar á þeirri leið séu óyfirstíganlegar. Vonir þeirra stranda á röngum ályktunum um mannlegt eðli ályktunum sem gegnsýra svo hefðir og lífshætti mikils hluta nútímasamfélags að á þær er litið sem góðar og gildar staðreyndir. Þessar ályktanir taka ekki mið af því mikla forðabúri andlegra möguleika sem er aðgengilegt sérhverri upplýstri sál sem vill nýta sér það; í staðinn er treyst á réttlætingu mannlegra bresta og veikleika en dæmin um slíkt auka daglega almenna örvæntingu. Lagskiptur hjúpur af fölskum forsendum hylur þannig þau grundvallarsannindi að ástand heimsins endurspeglar skrumskælingu mannsandans, ekki innra eðli hans.
Ég er sem sé að vona að við séum ekki svo slæm inn við beinið. Nýfætt barn geti orðið góð manneskja sem taki út þroska alla ævi og ef við vinnum með hinn góða efnivið getum við byggt samfélag sem við verðum sátt við að búa í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar
18.3.2012 | 10:52
Það er mér minnisstætt þegar ónefndur háttsettur aðili innan Vegagerðarinnar kom í heimsókn til okkar starfsmanna Vegagerðarinnar á Dagverðardal, og eins og gengur og gerist leit hann inn til okkar í umferðarþjónustunni. Eftir vanalegar kveðjur varð honum litið á færðarkortið sem var á stórum veggskjá. Það er bara allt grænt í dag! varð honum að orði en grænn litur á vegi þýðir að vegurinn sé greiðfær eða auður.
Á kortinu voru vegir auðir á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. Það voru að vísu mörg hundruð kílómetrar á Norður- og Austurlandi dökkbláir sem þýðir að þeir voru flughálir. Þá er ég ekki að tala um vanalega vetrarfærð, heldur að vegir voru svo hálir að sérstök ástæða var til að vara fólk við.
Ámóta stórt svæði og það sem var greiðfært, var sem sé hættulegt fyrir umferð en það greip ekki athygli yfirmannsins, enda var hann ekki vanur að horfa í þá átt.
Hvers vegna er þetta mér ógleymanlegt? Jú það er vegna þess að þetta litla atvik hefur kennt mér smávegis um það hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar. Við sjáum og skiljum best það sem stendur okkur nærri. Þetta skýrir býsna margt, m.a. að ólíkir hópar fólks þurfa að eiga fulltrúa þar sem umræða fer fram og ákvarðanir eru teknar og það skýrir hvers vegna þingmenn hætta smám saman að vera raunverulegir fulltrúar upphaflegra samfélaga sinna þegar líf þeirra fer ekki lengur fram í kjördæminu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vestfirðir - einn landshluti eða fleiri?
17.3.2012 | 09:18
Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum skiptast í stórum dráttum í tvo klasa, á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum. Milli þeirra er frumbýlislegur vegarslóði, mera en hálfrar aldar gmall, opinn á sumrin. Í raun er þarna aðeins um ferðamannaveg að ræða því engin alvöru samskipti í atvinnu eða samfélagslífi geta byggst á vegi sem, auk þess að vera hættulegur og erfiður, er aðeins opinn léttri umferð hluta ársins.
Út frá landafræðinni ættu Bílddælingar og Þingeyringar að vera nágrannar en vegna þess að heilsársvegi hefur aldrei verið komið á eru rúmir 530 kílómetrar á milli þeirra!
Vestfirðingar eru vanir slæmum samgöngum. Svo vanir að þeir næstum því líta á þær sem náttúrulögmál - kannski ekki vitandi vits en í undirmeðvitundinni. Fyrir vikið er fólki ekki tamt að horfa á þá möguleika sem gætu opnast við þá mörg hundruð km styttingu milli samfélaganna sem yrði við Dýrafjarðargöng sem hafa verið undirbúin en enn er deilt um hve lengi skuli fresta.
Í stað þess að þessar náskyldu byggðir njóti samlegðar og stuðnings af raunverulegri landfræðilegri nálægð er þeim enn stíað sundur vegna skorts á samfélagsskilningi ráðamanna. Í stað þess að vera sterk heild eru þær tvö jaðarsvæði, hvort á sínum enda vegakerfisins.
Rétt er að benda á að í þessum málum hafa Vestfirðingar ekki aðeins þurft að sætta sig við að bíða eftir bættum samgöngum, heldur hafa samgöngur beinlínis verið lagðar niður. Menn höfðu samgöngur bæði á sjó og í lofti en hvort tveggja var lagt af án þess að vegabætur kæmu í staðinn.
Það sem gerir samgönguleysið enn grátlegra er að þegar horft er á Vestfjarðakjálkann blasir Dýrafjörður við sem miðpunktur þar sem landrými og landgæði eru áberandi. Uppbygging á því kjörsvæði Vestfjarða getur ekki hafist af neinu viti fyrr en jarðgöng verða að veruleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2012 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heppin
12.10.2011 | 12:04
Það er nú meira hvað ég er heppin. Það er ekki sjálfgefið að manneskja á mínum aldri sem aldrei lærði neitt fag eða skapaði sér ævistarf, finni vinnu sem gleður - jafnvel eftir áratug í sama starfi. En þannig er vinnan mín hjá Vegagerðinni.
Oftast nær er ég ánægð og stolt af stofnuninni og góðri vinnu og metnaði vegagerðarfólks í ólíkum störfum um land allt. Auðvitað er niðurskurður og við vildum öll geta byggt fleiri vegi og þjónað þeim betur - mega hálkuverja meira eða moka lengra fram á kvöld á vegum sem ekki liggja alveg inni í þéttbýli suðvesturhornsins. En mér líður vel í vinnunni og finnst ánægjulegt að leiðbeina t.d. ungu fólki sem ekki hefur mikla reynslu af að keyra við ólíkar aðstæður, hvort sem það er á hálendisvegum á sumrin eða í vetrarveðrum í skammdeginu.
Toppurinn er samt að fá, þótt ekki sé nema eina vettvangsferð á ári, undanfarið við að hnitsetja, mæla og skrá ræsi á vegakerfinu. Þetta er góð nýting á mannskap þegar lítið er að gera í upplýsingasímanum 1777, þegar sumartraffíkin er búin en enn bið eftir vetrinum. Um leið bætir þetta þekkingu okkar á vegum og aðstæðum í ólíkum landshlutum.
Það kom mér pínulítið á óvart fyrstu árin að ég varð ekki leið á Íslandi. Það er svo fjölbreytt og fegurðin birtist við hvert fótmál í smáu sem stóru, jafnvel ræsamyndirnar eru velflestar sjarmerandi mótíf. - Enda stóðst ég ekki mátið og bætti inn nokkrum ræsum í myndaalbúmið Vinnuferðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er til brúklegt módel að góðu samfélagi?
28.4.2011 | 18:00
Ólga og kröfur um þjóðfélagsbreytingar í norðanverðri Afríku og við botn Miðjarðarhafs hafa ekki farið fram hjá neinum. Þörfin fyrir breytingar er ótvíræð en hver verður þróunin, hver stýrir henni, hvernig og hvert? Eiga þjóðfélög sem nú rísa upp til umbóta á hættu að fara úr öskunni í eldinn?
Baháí samfélagið í Egyptalandi tók sér til og skrifaði samborgurum sínum opið bréf. Þar er rakið hvernig krafan um að vera gerandi í að móta eigin örlög er þroskamerki jafnt einstaklinga sem þjóða og að sú þróun sé hnattræn, jafnvel þótt hún fari mishratt í ólíkum samfélögum. Allsstaðar er fólk að átta sig á að hegðun sem leiðir til átaka, spillingar og ójöfnuðar er ósamrýmanleg þeim gildum sem réttlátt samfélag byggist á og er tilbúið að hafna viðhorfum og kerfum sem hindra eðlilegt þroskaferli. Þessi framfaraþrá almennings á sér nú ögurstund í Egyptalandi en hún mun ekki vara til eilífðar. Þjóðin stendur á krossgötum, valið stendur um margar leiðir, hver þeirra verður farin?
Baháí samfélagið bendir á augljósar hættur og spyr:
Ætlum við að stefna í sundurlaust einstaklingshyggjusamfélag þar sem hver og einn telur sér frjálst að keppa að sínum eigin einkahagsmunum, jafnvel á kostnað samfélagsins? Ætlum við að láta ginnast af efnishyggju og fylgifiski hennar, neysluhyggjunni? Ætlum við að velja kerfi sem nærist á trúarlegu ofstæki? Erum við tilbúin til að leyfa þróun yfirstéttar, sem ekki skeytti um sameiginlegar væntingar okkar og sæktist jafnvel eftir að nýta þrá okkar eftir breytingum sér í hag? Eða munum við jafnvel láta þetta tækifæri til breytinga líða hjá, leysast upp í ýfingum sérhagsmunahópa eða gefa eftir undan þunga tregðulögmáls í stofnanamenningu?
Þörfin fyrir árangursríka þjóðfélagsgerð sem stæði undir væntingum er ótvíræð um allan heim. Ef ekkert þeirra módela sem hafa verið reynd til þessa fullnægir kröfum okkar, kæmi vel til greina að draga upp nýja atburðarás og sýna þjóðum heims fram á að hægt sé að skipuleggja samfélag á raunverulega framsækinn hátt.
Í framhaldinu er farið í þær hugmyndir sem ný þjóðfélagsgerð þyrfti að hvíla á. Ég læt þetta hins vegar duga sem fyrsta vers. Mér sýnast þessar hugleiðingar eiga vel við á Íslandi og hver veit nema ég haldi áfram með endursögn bréfsins við tækifæri. Þeir sem eiga auðvelt með að lesa ensku geta séð bréfið í heild á slóðinni:
http://www.bahai-egypt.org/2011/04/open-letter-to-people-of-egypt.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.4.2011 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég og fordómarnir
29.1.2011 | 12:48
Það hefur lengi verið markmið hjá mér að vera laus við fordóma. En það gengur illa. Til dæmis í vinnunni (ég gef upplýsingar um færð) þá er ég svo þröngsýn að mér finnst að hér á landi ætti að nota vetrardekk á veturna. En það finnst ekki öllum. Reyndar má segja að það myndi einfalda vinnu mína mikið ef allir keyrðu á sumardekkjum allan ársins hring. Hjá þeim sem það gera er nefnilega aðeins um að ræða tvennskonar ástand, annað hvort er fært eða ófært. Dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Kona: Er Hellisheiðin fær?
Ég: Jú jú, hún er vel fær, þar er hægviðri, gott frost og aðeins hálkublettir.
Konan: Guuuuð! Eru hálkublettir? Ég er ekki á jeppa! Heldurðu að rútan fari?
Ég: Ég geri fastlega ráð fyrir því, þetta eru prýðilegar aðstæður.
Konan: Jæja, ég skoða þetta kannski á morgun.
Ég er orðin býsna vön svona viðbrögðum og hef lært að bíta á jaxlinn þegar um er að ræða taugaveiklaðar konur. En nú kem ég að fordómunum - ég á helmingi erfiðara með að sætta mig við að karlmenn á besta aldri bregðist við á sama hátt. Annað dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Karlmaður: Er Hellisheiðin fær?
Ég: jú hún er bara fín, hæglætisveður og hálkublettir.
Maðurinn: Hvað segirðu, eru hálkublettir? . Já, er það virkilegt verður ekkert saltað? Ég er nú bara á smábíl ég ætti kannski að bíða
Samkvæmt þessu er eiginlega ófært ef nokkra hálku er að finna, jafnvel þótt hún sé mött og stöm í góðu frosti, búið að hálkuverja í beygjur og brekkur og 80 % leiðarinnar sé auður vegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Brennuvargar hóta hefndaraðgerðum
17.1.2011 | 10:39
Gerðar hafa verið yfir tíu árásir á verslanir frá 25. október 2010, og sendar hafa verið bréflegar hótanir til um tuttugu heimila og fyrirtækja í eigu bahá'ía til meðlima hins afvegaleidda baháí sértrúarsafnaðar. Í bréfunum sem eru nafnlaus, er þess krafist að bahá'íar undirriti skuldbindingu um að þeir láti vera að stofna til samskipta eða vináttu við Múslima og að nýta sér eða ráða lærlinga sem eru Múslimar. Bahá'íunum er einnig sagt að kenna ekki trúna, meðal annars á netinu. Ef bahá'íarnir verði við þessu megi þeir treysta því að ekki verði ráðist á þá eða eigur þeirra.
Diane Ala'i fulltrúi bahá'í alþjóðasamfélagins, segir að bahá'iarnir hafi haft samband við borgaryfirvöld og óskað eftir rannsókn á árásunum, en að ekkert hafi verið gert enn sem komið er.
Fréttina í fullri lengd (á ensku) má nálgast á vefslóð alþjóðlegu bahá'í fréttaþjónustunnar: Bahá'í World News Service:
http://news.bahai.org/story/805
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)