Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015
Í þessum heimi hefur hatur ekki enn eytt hatri
15.11.2015 | 11:45
Okkur hér á Vesturlöndum hefur verið sagt og svo étum við það hvert upp eftir öðru að fræðsla sé besta forvörnin ... gegn öllum sköpuðum hlutum. En er það rétt? Hefur vitneskja í raun svo djúpstæð áhrif á okkur að það sem við höfum heyrt eða teljum okkur vita, stýri gerðum okkar? Ég er ekki viss um að þekking ein og sér nægi til að stýra hugsunum okkar, hvað þá gerðum.
Úr öðrum heimshluta höfum við þessa speki:
Í þessum heimi
hefur hatur ekki enn eytt hatri.
Ástin ein sigrar hatrið.
Þetta er Lögmálið,
fornt og óþrjótandi.
Við vitum það,
svo afhverju ættum við deila
Búdda
Ég get vel fallist á að ást sé enn sterkara afl en þekking en getum við elskað án þess að þekkja?
Þegar Sameinuðu þjóðirnar héldu heimsráðstefnu gegn kynþáttahyggju og öðru ámóta umburðarleysi í upphafi aldarinnar, gaf UNESCO út smárit þar sem klisjan um fræðslu eða menntun sem forvörn var slegin út af borðinu. Bent var á að fordómar hefðu grasserað í sinni dekkstu mynd í upplýstustu og best menntuðu ríkjum heims. Talið var að leita þyrfti dýpra í mannssálina til að skilja ástæður fordóma og lausnir gegn þeim. En hvert er þá svarið?
Svarið er semsagt ekki enn komið upp á yfirborðið, patentlausnin er ófundin. Í stað þess að metast um hver sé hættulegri en annar eða hver sé bestur í pólitískum rétttrúnaði þess stutta augnabliks sem núið er, þurfum við að íhuga. Í stað upphrópana þarf að koma ígrundun og leit.
Í þau fjórtán ár sem liðin eru frá því að ég var slegin utanundir með fullyrðingu UNESCO hef ég velt því fyrir mér hvað geti sameinað þekkingu og tilfinningar. Skapað einhvers konar visku sem er kynni að vera betri og traustari en kommentaspeki nútímans.
Mig langar að stinga upp á tveimur bitum í púslið.
Annar er sjálfstæð hugsun. Tökum okkur stutta stund í að meta það sem við heyrum sagt áður en við veljum hvort eða að hvaða leyti við viljum vera sammála eða ósammála. Gefum okkur líka tíma í ró og næði til að hugsa okkar eigin hugsanir, t.d. eftir lestur. Við erum meira en endurvinnslutunna fyrir hugsanir annarra.
Hinn er reynsla. Ég þekki betur það sem ég hef upplifað heldur en það sem mér hefur verið sagt. Mér þykir líka vænna um það fólk sem ég hef einhverja reynslu af en það sem ég þekki bara af afspurn eða alls ekki. Reynslan má ekki bara vera slæm víti til varnaðar. Þvert á móti þurfum við að búa til fullt af góðri reynslu þar sem við lærum að að kynnast, lærum að bera virðingu, lærum að tala saman, lærum að treysta, lærum að njóta. Nú þurfum við sérstaklega að skynja einingu í margbreytileika.
Bloggar | Breytt 17.11.2015 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)