Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Ílát eða efniviður?

Í síðasta pistli var ég að lýsa þeirri sannfæringu minni að röng viðhorf til mannlegs eðlis – vanmat á eðlislægri andlegri getu mannsins – hamli þeim framförum sem við ættum að ná í þroska einstaklingsins og framförum mannlegs samfélags. Vanmatið kemur m.a. fram í menntakerfinu sem hefur lengi einkennst af því að nemendur séu ílát fyrir þekkingu fremur en efniviður.

Ég er mjög sein að hugsa og sein að taka inn nýjar hugmyndir en á löngum tíma hefur þessi setning greypt sig inn í hugarheim minn og orðið mér viðmiðun til aukins skilnings:

Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim.

Nýlega skrifaði ungur maður ágætan pistil um þörfina fyrir breytt menntakerfi en út frá eigin reynslu finnst honum tíma nemenda sólundað http://www.visir.is/vid-thurfum-menntun-sem-hentar-21.-oldinni/article/2012704199983   Hann bendir á að nemendur þurfi að vera þátttakendur í lærdómsferlinu en ekki áhorfendur og segir að fróðleiksfýsn, sköpunarkrafti og jafnvel framkvæmdagleði sé misþyrmt í núverandi skólastarfi. Honum finnst að menntun eigi fyrst og fremst að stuðla að sterkri sjálfsmynd  en henni fylgi bestu eiginleikar mannsins, s.s. ábyrgðartilfinning, siðgæði, frumleiki, sjálfstæð hugsun, sköpun, heiðarleiki, hugsjónir, auðmýkt, sjálfstraust, gjafmildi, sjálfsþekking og eldmóður. Með þessum kostum sé þekking, leikni og hæfni ekki langt undan.

Í greininni vísar Ísak til hugmynda Ken Robinson http://www.ted.com/speakers/sir_ken_robinson.html en þeir sem á annað borð geta nýtt sér efni á ensku ættu fortakslaust að kynna sér óborganlega fyrirlestra hans.


Erum við slæm inn við beinið?

Svo illilega eru trú og trúarbrögð sett til hliðar í samfélagi okkar að almennt er gengið út frá því að trú sé einkamál, prívat sérviska sem fólki sé heimilt að hafa í krafti mannréttinda og hugsanafrelsis, en eigi ekki erindi inn í almenna þjóðfélagsumræðu. Jafnvel er því haldið fram, ýmist beint eða undir rós, að trúarbrögð séu uppspretta öfga og ofstækis ástæða haturs og ófriðar.

Það alvarlega við þessi viðhorf er að með slíkum grýlustimpli hefur að miklu leyti verið tepptur sá farvegur fyrir framfarir mannsandans sem trúarbrögðin hafa verið frá upphafi og ættu með réttu að vera um alla framtíð. Við trúum öll á efnislegar eða tæknilegar framfarir, af hverju erum við þá ekki tilbúin að trúa á mannbætandi andlegan vöxt manns og samfélags?

Ég geri mér vel grein fyrir að mannlegir forsvarsaðilar trúarbragða hafa skrumskælt ásýnd þeirra, en sjálfstætt hugsandi fólk ætti að geta séð í gegnum orð og gerðir spilltra ráðamanna og séð þá leiðsögn um andlegt eðli mannsins sem öll trúarbrögð snúast um.

Í hinni efnislegu umræðu verður spurningin um eðli mannsins útundan. Ég hef oft rekið mig á að þegar við horfum til þjóðfélagsins hættir okkur til að finnast fólk vera lélegt. Það sé eigingjarnt, spillt og jafnvel illa innrætt. En þegar við horfum á nýfædda sólargeislann í fjölskyldunni, barn eða barnabarn, þá er sú litla mannvera alsaklaus og velfarnaðaróskir okkar hreinar og fölskvalausar.

Tilraunir okkar til að byggja upp samfélög hljóta að byggjast á einhverri hugmynd um hvers konar fyrirbæri manneskjan er. Ef við trúum því að manneskjan sé vond, frek og óheiðarleg í eðli sínu, setjum við líklega annars konar markmið og stöndum öðru vísi að verki en ef við álítum að fólk sé gott og göfugt ef það nær að þroskast eðlilega.

Mér sýnist að nú þegar trúarbrögðin hafa að mestu verið afskrifuð hafi trúin á göfgi og gildi mannsins smám saman glatast líka. Alla vega tala afar sterkt til mín eftirfarandi klausa úr skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar, æðstu stjórnstofnun bahá’í trúarinnar, sem árlega sendir bahá’íum um allan heim umhugsunarefni á ridván hátíðinni sem nú stendur yfir:

... þrátt fyrir lofsverða viðleitni velmeinandi einstaklinga í öllum löndum sem vinna að þjóðfélagsumbótum, virðist mörgum sem hindranirnar á þeirri leið séu óyfirstíganlegar. Vonir þeirra stranda á röngum ályktunum um mannlegt eðli – ályktunum sem gegnsýra svo hefðir og lífshætti mikils hluta nútímasamfélags að á þær er litið sem góðar og gildar staðreyndir. Þessar ályktanir taka ekki mið af því mikla forðabúri andlegra möguleika sem er aðgengilegt sérhverri upplýstri sál sem vill nýta sér það; í staðinn er treyst á réttlætingu mannlegra bresta og veikleika en dæmin um slíkt auka daglega almenna örvæntingu.  Lagskiptur hjúpur af fölskum forsendum hylur þannig þau grundvallarsannindi að ástand heimsins endurspeglar skrumskælingu  mannsandans, ekki innra eðli hans.

Ég er sem sé að vona að við séum ekki svo slæm inn við beinið. Nýfætt barn geti orðið góð manneskja sem taki út þroska alla ævi og ef við vinnum með hinn góða efnivið getum við byggt samfélag sem við verðum sátt við að búa í.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband