Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
Hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar
18.3.2012 | 10:52
Það er mér minnisstætt þegar ónefndur háttsettur aðili innan Vegagerðarinnar kom í heimsókn til okkar starfsmanna Vegagerðarinnar á Dagverðardal, og eins og gengur og gerist leit hann inn til okkar í umferðarþjónustunni. Eftir vanalegar kveðjur varð honum litið á færðarkortið sem var á stórum veggskjá. Það er bara allt grænt í dag! varð honum að orði en grænn litur á vegi þýðir að vegurinn sé greiðfær eða auður.
Á kortinu voru vegir auðir á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. Það voru að vísu mörg hundruð kílómetrar á Norður- og Austurlandi dökkbláir sem þýðir að þeir voru flughálir. Þá er ég ekki að tala um vanalega vetrarfærð, heldur að vegir voru svo hálir að sérstök ástæða var til að vara fólk við.
Ámóta stórt svæði og það sem var greiðfært, var sem sé hættulegt fyrir umferð en það greip ekki athygli yfirmannsins, enda var hann ekki vanur að horfa í þá átt.
Hvers vegna er þetta mér ógleymanlegt? Jú það er vegna þess að þetta litla atvik hefur kennt mér smávegis um það hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar. Við sjáum og skiljum best það sem stendur okkur nærri. Þetta skýrir býsna margt, m.a. að ólíkir hópar fólks þurfa að eiga fulltrúa þar sem umræða fer fram og ákvarðanir eru teknar og það skýrir hvers vegna þingmenn hætta smám saman að vera raunverulegir fulltrúar upphaflegra samfélaga sinna þegar líf þeirra fer ekki lengur fram í kjördæminu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vestfirðir - einn landshluti eða fleiri?
17.3.2012 | 09:18
Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum skiptast í stórum dráttum í tvo klasa, á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum. Milli þeirra er frumbýlislegur vegarslóði, mera en hálfrar aldar gmall, opinn á sumrin. Í raun er þarna aðeins um ferðamannaveg að ræða því engin alvöru samskipti í atvinnu eða samfélagslífi geta byggst á vegi sem, auk þess að vera hættulegur og erfiður, er aðeins opinn léttri umferð hluta ársins.
Út frá landafræðinni ættu Bílddælingar og Þingeyringar að vera nágrannar en vegna þess að heilsársvegi hefur aldrei verið komið á eru rúmir 530 kílómetrar á milli þeirra!
Vestfirðingar eru vanir slæmum samgöngum. Svo vanir að þeir næstum því líta á þær sem náttúrulögmál - kannski ekki vitandi vits en í undirmeðvitundinni. Fyrir vikið er fólki ekki tamt að horfa á þá möguleika sem gætu opnast við þá mörg hundruð km styttingu milli samfélaganna sem yrði við Dýrafjarðargöng sem hafa verið undirbúin en enn er deilt um hve lengi skuli fresta.
Í stað þess að þessar náskyldu byggðir njóti samlegðar og stuðnings af raunverulegri landfræðilegri nálægð er þeim enn stíað sundur vegna skorts á samfélagsskilningi ráðamanna. Í stað þess að vera sterk heild eru þær tvö jaðarsvæði, hvort á sínum enda vegakerfisins.
Rétt er að benda á að í þessum málum hafa Vestfirðingar ekki aðeins þurft að sætta sig við að bíða eftir bættum samgöngum, heldur hafa samgöngur beinlínis verið lagðar niður. Menn höfðu samgöngur bæði á sjó og í lofti en hvort tveggja var lagt af án þess að vegabætur kæmu í staðinn.
Það sem gerir samgönguleysið enn grátlegra er að þegar horft er á Vestfjarðakjálkann blasir Dýrafjörður við sem miðpunktur þar sem landrými og landgæði eru áberandi. Uppbygging á því kjörsvæði Vestfjarða getur ekki hafist af neinu viti fyrr en jarðgöng verða að veruleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2012 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)