Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Umræða um trúboð í skólum

Enn eina ferðina er komin upp býsna snörp umræða um að útrýma þurfi trúboði í skólum. Umræðan er mér nokkuð framandi þar sem ég minnist þess ekki að prestar eða aðrir fulltrúar trúfélaga væru gráir kettir inni í skólum, hvorki þegar ég var í skóla né börnin mín. Ég get ekki fullyrt hvort umræða um mikla aðkomu presta skólum eigi rétt á sér, ég þekki bara ekki nógu vel til skólastarfs til að meta það.

Það sem mér þætti eðlilegt er að skólar bjóði trú- og lífskoðunarfélögum að kynna trú sína og skoðanir á forsendum skólans t.d. undir umsjá kennara. Þekking á þeim flokkast ekki aðeins undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins heldur ætti hún að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum en skólinn verður sjálfur að setja rammann utan um þá kynningu.

 

 


Nú verður ekki aftur snúið

Þannig hefur mér alltaf liðið þegar ég hef verið ófrísk - engin leið að sleppa við þessa fæðingu Wink

Nú er mér líkt farið, ég dróst á að gefa kost á mér til stjórnlagaþingsins. Skelegg kona tók að sér að safna meðmælendum og er búin að skila mér pakkanum. Ég verð hálf feimin að sjá nöfn þess góða fólks sem hefur ákveðið að mæla með mér en nú verður sem sagt ekki aftur snúið. Ég er búin að skila inn öllum gögnum og ekkert í stöðunni annað en að undirbúa sig og standa sína pligt ef til kemur.


Menningarfjölbreytni

Árið 1992 var ég með í að halda á Ísafirði upp á alþjóðlega trúarbragðadaginn - sem eftir á að hyggja er fyrsta samkoma sem ég hef heyrt um, sem var beinlínis skipulögð í þeim tilgangi að fólk frá ólíkum löndum kæmi fram saman. Af ýmsum ástæðum varð ekki af því að leikurinn væri endurtekinn næstu árin en það var þó engu að síður ógleymanleg reynslan af þeim viðburði sem varð til þess að ákveðið var árið 1998 að halda upp á dag S.þ. gegn fordómum þann 21. mars. Þá var Ómar Ragnarsson enn fréttamaður og það var hann sem sló fram orðinu þjóðahátíð sem hefur verið notað síðan.

            Á þessum tíma var varla byrjað að ræða um málefni aðkomufólks á Íslandi. Við sem stóðum að hátíðinni vorum bara nokkrar konur sem töluðum okkur saman um að prófa þetta. Fengum styrk fyrir frímerkjum svo við gætum sent út kynningarbréf en að öðru leyti var allt efni og öll vinna gefins. Bærinn lánaði okkur Grunnskólann.

            Þegar atburðarásin tók svo af okkur völdin og snjóboltinn neitaði að stöðvast, urðum við auðvitað að stofna félag. Það heitir Rætur, félag áhugafólks um menningarfjölbreytni.  Þjóðahátíðir urðu árvissar á tímabili. Árið 2001 var stærst. Þá fengum við styrk frá UNESCO til að halda hátíðina og vorum með mjög fjölbreytta dagskrá í flestum bæjunum á norðanverðum Vestfjörðum. Það ár sóttum við líka heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í S-Afríku gegn fordómum og ámóta umburðarleysi.

            Það kom þó að því að við gerðum okkur grein fyrir að það væru ekki stórar og efnismiklar hátíðir sem myndu bræða saman gamla Vestfirðinga og aðkomufólkið, þær væru fínar til að vekja athygli á málefninu og til að sýna Íslendingum fram á að útlendingarnir ættu sér tilveru eftir að komið væri úr vinnugallanum. - Jú, þetta vakti mikla gleði og hrifningu. Og geysileg þátttaka Íslendinganna var ótvírætt merki um að þeir vildu svo gjarna kynnast nýja fólkinu og koma í veg fyrir aðskilnað. – En svona hátíðir  nægja ekki til þess að fólk kynnist og byrji að umgangast utan vinnutíma. – Til þess þarf annars konar starf og þar þarf sífellt að leita nýrra leiða í takt við tíðarandann hverju sinni. – Það held ég að sé mikilvægasti vettvangur svona félags; að leiða saman fólk í formlegu og óformlegu flélagslífi hversdagsins.


Er ég í framboði?

Það hefur komið fyrir í gegnum árin að ég hafi verið beðin um að koma inn í pólitískt starf en af því að ég er frábitin flokkadráttum hef ég ekki séð fyrir mér að ég gerði gagn á þeim vígvelli. Í sumar var fyrst nefnt við mig að gefa kost á mér til stjórnlagaþings. Mér fannst það satt að segja frekar langsótt að ég ætti erindi þangað inn, hvorki lögspekingur né atvinnupólitíkus.

Vegna vantrúar minnar á flokkapólitík hef ég hins vegar lengi talað fyrir því að í kosningum mætti velja það fólk sem maður treysti. Persónukjör myndi svara minni lýðræðisþörf betur en listakjör. Þegar ég versla vil ég velja hvert og eitt stykki í körfuna, ekki bara innkaupapoka sem aðrir hafa raðað í.  Þar að auki hefur mér þótt framboð vafasöm aðferð við val í trúnaðarstörf. Lýðræði þarf að byggjast á óskum og vali kjósenda fremur en metnaði framgjarnra manna.

Þegar ég enn á ný var beðin um það nýlega að gefa kost á mér til stjórnlagaþingsins varð ég að viðurkenna að ég yrði að éta ofan í mig eitthvað af lýðræðistali mínu ef ég ætlaði að meina þeim sem þess óskuðu um að kjósa mig í þetta tímabundna verkefni. Það eru engar sérstakar efnislegar aðstæður sem kæmu í veg fyrir að ég tæki þátt í þessari vinnu ef til kæmi.  

Ég er smámunasöm í orðavali og sannast að segja tel ég mig ekki verða í framboði þótt tilheyrandi eyðublöð noti það orðalag. Ég hef hins vegar dregist á að gefa kost á mér. Ég mun á engan hátt berjast fyrir kjöri en líta á þetta sem þegnskylduvinnu sem ég yrði að vinna eins vel og ég gæti ef svo ólíklega færi að ég yrði valin til hennar.


Vinna

Sem sveitakrakki man ég ekki svo langt að hafa ekki unnið. Ég man hins vegar eftir því þegar mamma þurfti að fara á sjúkrahús þegar ég var 11 ára að yngsta bróður mínum var komið fyrir hjá greiðviknum nágrönnum meðan hún yrði í burtu. Það þótti nóg fyrir mig að sjá um heimilið þótt ég bæri ekki ábyrgð á árs gömlu bleijubarni líka. Þetta var yndislegur tími. Þegar ég var búin að ganga frá eftir hádegismatinn gat ég átt frí alveg þangað til ég þyrfti að hafa til miðdagskaffið.

Nonni bróðir hefur raunar sagt ýmsar skemmtilegar sögur af þeirri vinnusemi sem tíðkaðist þegar við vorum að alast upp. Hér er ein þeirra: http://www.jondan.is/jondan/?D10cID=page&id=21

 


Var það séra Sigurði að þakka?

Það er ekki í samhengi við þetta fertugsafmæli sem ég virðist í naflaskoðun. Raunar er ég ekki í sérstakri tilvistarkreppu en mér finnst bara svo áhugavert að skoða orsök og afleiðingar í tilverunni – hvernig fólk þroskast og hvað hefur áhrif á okkur. Nærtækasta sýnidæmið er alltaf maður sjálfur. Það er helst í eigin lífi sem maður þekkir sæmilega til.

Helstu áhrifavaldar í lífi mínu eru auðvitað almenn atriði eins og hvar og hvenær ég óx úr grasi – í sveit á tímum útvarpsleikrita og farskólakennslu, en líka smáatriði á borð við það að Jón Baldvin þéraði mig ekki um árið.

Mér finnst t.d. sérkennilegt að ég skyldi hnjóta um bahá’í trúna árið eftir að ég kom vestur. Ég sem hafði neitað að fermast og næstum því komist upp með það, var ekki að leita að trú. Víst var hér kynning á þessum trúarbrögðum sem fjöldi jafnaldra minna og starfsfélaga í íshúsinu sóttu. Ég ákvað að kíkja. Ég var sammála öllu sem þar kom fram, - vel að merkja ef Guð væri til, sem ég hafði ekki gert upp við mig. Ég hafði hins vegar slæma reynslu að því að vera sammála. Yfirleitt var ég sammála síðasta ræðumanni jafnvel þótt menn töluðu alveg á víxl.

Auðvitað hafði ég ekkert vit á trúmálum og engar forsendur til að spyrja gagnrýninna spurninga. Þess vegna ákvað ég að leita til prestsins og spyrja hann einfaldlega hvers vegna ég ætti ekki að ganga úr þjóðkirkjunni og í bahá’í trúna. Þetta fór í stuttu máli illa. Ég stóð á tröppunum á prestbústaðnum og stundi því ofur feimnislega út úr mér að mig langaði að tala við hann um bahá’í trúna. Séra Sigurður þekkti mig eðlilega ekki sem sitt fermingarbarn og dró þá ályktun að ég væri úr liðinu að sunnan og ætlaði ekki að ráðast á garðinn þar sem hann væri lægstur í trúboði mínu. Hann bauð mér kurteislega inn á kontór en sagði strax að hann vissi ekkert um þessa trú og vildi ekkert vita um hana. Sér þætti hins vegar mikið ábyrgðarleysi að leyfa svo ungu fólki að ganga í þetta.

Þvert á það sem ég hafði ætlað mér var ég allt í einu komin í vörn fyrir málstað sem ég vissi sáralítið um. Spurði hvort það væri meira ábyrgðarleysi að leyfa 16-18 ára unglingum að velja trú, en að ferma 14 ára börn. Séra Sigurður sagði það vera allt annað mál þar sem feðranna trú stæði á traustum grunni. Eitthvað urðu samræðurnar lengri, mér tókst að leiðrétta misskilninginn, ég hefði bara komið til að leita ráða. Loks spurði ég hvort honum þætti ekki rétt að vita eitthvað um þessa nýju trú, þótt ekki væri nema til að leiðbeina fermingarbörnum sínum og öðrum í söfnuðinum. Nei, sagði hann, það verður alfarið að vera þeirra mál.

Eftir þetta samtal sýndist mér ég ekki hafa frá miklu að hverfa þótt ég yfirgæfi þjóðkirkjuna, fór aftur yfir í Sjálfstæðishúsið og skráði mig í bahá’í samfélagið. Ég átti að vísu enn eftir að gera upp við mig hvort ég ætlaði að trúa á Guð.

Þetta skondna atvik leiddi mig inn á braut sem hefur ekki verið auðfarin, enda ekki um troðna alfaraleið að ræða, en hún hefur verið lærdómsrík. Og séra Sigurði sem ég kynntist betur síðar, er ég afar þakklát.


Þær eru margs konar, þúfurnar sem velta hlössum í lífinu

Nú í haust eru víst liðin slétt 40 ár frá því að ég kom til Vestfjarða og hér hef ég búið síðan ef frá er talið árið sem ég bjó í Tékklandi. Ég var að vinna á Edduhótelunu í Reykjaskóla sumarið 1970 þegar Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður og hótelstýran talaði mig inn á að kynna mér aðstæður vestra áður en ég ákvæði að fara í skóla á Akureyri eða í Reykjavík. Raunar hafði ég byrjað í MA haustið áður en hafði ekki efni á að kosta mig allan veturinn. Meiningin var að lesa utanskóla en til þess hafði ég þó ekki sjálfsaga.

            En hvers vegna lét ég sannfærast um að fara vestur – því sannarlega voru Vestfirðir framandi fyrir sveitakrakka af Norðurlandi. Jú það sem breytti lífi mínu var að Jón Baldvin Hannibalsson þéraði mig ekki þegar hann hringdi til að svara fyrirspurn minni um skólavist. Við MA var risið úr sætum fyrir kennurum – og þérað. Skólameistarinn á Ísafirði hlaut því að vera frábær Smile  ... sem hann vitaskuld var.

            Ég var á fjöllum þegar boð á afmælishátíðina barst með aðeins þriggja daga fyrirvara svo að ég missti af hátíðinni. En mér til ánægju sá ég á BB skemmtilega frásögn Jóns Baldvins af upphafi menntaskólans sem hafði svo afgerandi áhrif á líf mitt. http://bb.is/?PageID=26&NewsID=154541


Á byrjunarreit

Ég hef verið ódugleg við að blogga en þó sett inn af og til bæði myndir og eitthvað sem hefur verið að velkjast í huga mér. Nú var ég að uppgötva mér til skelfingar að gamla bloggið mitt er ekki lengur aðgengilegt og líkast til glatað.

Ég er því aftur á byrjunarreit. Ég sakna vissulega fortíðar minnar en ætli þetta sé ekki líkt og þegar maður flytur á milli húsa, maður tekur til og hendir því sem ekki þarf lengur að hafa meðferðis.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband