Ég er líklega ekki feministi

Ég er líklega ekki feministi. Samt finnst mér ég vera jafnréttissinni. En þegar ég var ung var hugmyndafræði jafnréttissinnaðra kvenna talsvert ólík þeirri mælistiku sem nú er beitt á jafnrétti og mér finnst raunar sú reglustika notuð af nokkrum strangleika til að berja á fingurna á okkur nemendum í skólastofu lífsins.

Þá þýddi jafnrétti frelsi og frelsi þýddi val – en ekki skyldu til að gera allt á sama hátt og karlar. Ég lít svo á að frelsi sé óendanlega dýrmætt. Frelsi er gjarna möguleikinn til að geta það sama og aðrir en það er ekki síður möguleikinn til að fara sínar eigin leiðir frekar en margtroðnar leiðir annarra. Konurnar sem leiddu baráttuna þegar ég var að læra að hugsa um þessi mál, lögðu einmitt áherslu á að konur væru ekki karlar en þótt þær væru ólíkar þeim bæri ekki að meta þær minna og hefðbundin störf kvenna ætti að meta til jafns við hefðbundin karlastörf.

Ég fellst á að þarna vantar enn nokkuð upp á en ég er ekki sátt við þá framsetningu að okkur hafi mistekist þar til kynjahlutföll verði hnífjöfn í öllum starfsgreinum. Ég sé heldur ekki að gildismat mitt eigi að laga sig að efnishyggju nútímans og að ég sé ekki fullgild nema ég komi mér í hálaunastarf eða vinni sem flesta tíma utan heimilisins – verði ofurkona. (Hef reyndar aldrei heyrt talað um ofurkarla hversu mikið sem þeir leggja á sig.)

Lengi fannst mér vanta upp á að karlar tækju sér sama frelsi og konur, frelsi til að opna upp gamla ramma á hvaða sviði sem væri. Nú finnst mér, þrátt fyrir allt, flestar dyr standa opnar bæði körlum og konum. Hvert er þá næsta skref? Ætli það sé ekki að velja sér leiðir til að nota frelsið, finna því verðug viðfangsefni, að við höfum eitthvað merkilegra fram að færa hvert við annað en að segja sæta, sæta á fésinu. wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband