Hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar
18.3.2012 | 10:52
Það er mér minnisstætt þegar ónefndur háttsettur aðili innan Vegagerðarinnar kom í heimsókn til okkar starfsmanna Vegagerðarinnar á Dagverðardal, og eins og gengur og gerist leit hann inn til okkar í umferðarþjónustunni. Eftir vanalegar kveðjur varð honum litið á færðarkortið sem var á stórum veggskjá. Það er bara allt grænt í dag! varð honum að orði en grænn litur á vegi þýðir að vegurinn sé greiðfær eða auður.
Á kortinu voru vegir auðir á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. Það voru að vísu mörg hundruð kílómetrar á Norður- og Austurlandi dökkbláir sem þýðir að þeir voru flughálir. Þá er ég ekki að tala um vanalega vetrarfærð, heldur að vegir voru svo hálir að sérstök ástæða var til að vara fólk við.
Ámóta stórt svæði og það sem var greiðfært, var sem sé hættulegt fyrir umferð en það greip ekki athygli yfirmannsins, enda var hann ekki vanur að horfa í þá átt.
Hvers vegna er þetta mér ógleymanlegt? Jú það er vegna þess að þetta litla atvik hefur kennt mér smávegis um það hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar. Við sjáum og skiljum best það sem stendur okkur nærri. Þetta skýrir býsna margt, m.a. að ólíkir hópar fólks þurfa að eiga fulltrúa þar sem umræða fer fram og ákvarðanir eru teknar og það skýrir hvers vegna þingmenn hætta smám saman að vera raunverulegir fulltrúar upphaflegra samfélaga sinna þegar líf þeirra fer ekki lengur fram í kjördæminu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.