Ég og fordómarnir
29.1.2011 | 12:48
Það hefur lengi verið markmið hjá mér að vera laus við fordóma. En það gengur illa. Til dæmis í vinnunni (ég gef upplýsingar um færð) þá er ég svo þröngsýn að mér finnst að hér á landi ætti að nota vetrardekk á veturna. En það finnst ekki öllum. Reyndar má segja að það myndi einfalda vinnu mína mikið ef allir keyrðu á sumardekkjum allan ársins hring. Hjá þeim sem það gera er nefnilega aðeins um að ræða tvennskonar ástand, annað hvort er fært eða ófært. Dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Kona: Er Hellisheiðin fær?
Ég: Jú jú, hún er vel fær, þar er hægviðri, gott frost og aðeins hálkublettir.
Konan: Guuuuð! Eru hálkublettir? Ég er ekki á jeppa! Heldurðu að rútan fari?
Ég: Ég geri fastlega ráð fyrir því, þetta eru prýðilegar aðstæður.
Konan: Jæja, ég skoða þetta kannski á morgun.
Ég er orðin býsna vön svona viðbrögðum og hef lært að bíta á jaxlinn þegar um er að ræða taugaveiklaðar konur. En nú kem ég að fordómunum - ég á helmingi erfiðara með að sætta mig við að karlmenn á besta aldri bregðist við á sama hátt. Annað dæmi:
Ég: Vegagerðin góðan dag.
Karlmaður: Er Hellisheiðin fær?
Ég: jú hún er bara fín, hæglætisveður og hálkublettir.
Maðurinn: Hvað segirðu, eru hálkublettir? . Já, er það virkilegt verður ekkert saltað? Ég er nú bara á smábíl ég ætti kannski að bíða
Samkvæmt þessu er eiginlega ófært ef nokkra hálku er að finna, jafnvel þótt hún sé mött og stöm í góðu frosti, búið að hálkuverja í beygjur og brekkur og 80 % leiðarinnar sé auður vegur.
Athugasemdir
Sæl Inga, Hafðu ekki áhyggjur ef þetta eru dæmi um fordómana þína.
Mín hugsun var nú, "Hvaða hálfvitar hringja og athuga með færð þótt þeir þurfi að skreppa bæjarleið!" Eru þetta ekki bara einhverjar einmana sálir?
þetta eru fordómar!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.1.2011 kl. 14:43
Já það eru líka til blíndir bílstjórar þegar skafrenningur er eða það gæti maður haldið ég bý á Selfossi og vinn í Reykjavík keyri daglega á milli og er búin að því í 9 ár það er einungis einn dagur á þessum 9 árum sem ég hef ekki farið og er ég þó á fólksbíl ekki jeppa eða jepling, en að vísu á negldum snjódekkjum.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 7.2.2011 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.