Dúa á Bakka

Það eru bæði kostir og gallar við að vinna vaktavinnu. Gallinn þessa dagana er að vegna vinnunnar komst ég ekki til að fylgja gamalli nágrannakonu minni til grafar eins og mig langaði að gera.

 

Þegar maður elst upp í sveit eru manns nánustu þeir sem búa næst manni, ekki síður en ættingjar í öðrum landshlutum. Dúa á Bakka var þannig frænkuígildi ef ég ber bernsku mína saman við nútímann.

 

Ein af sárafáum bernskuminningum mínum, þar sem ég skynjaði að eitthvað hræðilegt væri að eiga sér stað, var þegar mamma hljóp neðan úr gamla bæ upp á Tanna þar sem pabbi var að vinna í nýbyggingu, og hrópaði alla leiðina: Daddi, það er kviknað í á Bakka! Daddi, það er að brenna á Bakka!“ Að heiman horfði ég á fólk hlaupa fram og til baka milli nýja hússins og gamla torfbæjarins. Ekki veit ég hversu miklu náðist að bjarga en enginn held ég að hafi slasast.

 

Það var enn farskóli í sveitinni þegar ég komst á skólaaldur. Átta ára fékk ég að fara tvær vikur fram að Reykjum í skóla. Í gamla bænum fannst pláss til að hýsa kennara og hóp nemenda, auk þess sem kennslan fór fram í tveim samliggjandi stofum og allur hópurinn var með fjölskyldunni í mat. Árið eftir var kennt á Bakka og þá fékk ég að fara í fjórar vikur, enda þurfti ég ekki að gista en gat skoppað þetta á milli. Þarna sá ég í fyrsta skipti gítar og heyrði framandleg orð um einhverja dúra í tónlist.

 

Löngu seinna eða veturinn eftir landspróf varð Bakki mér aftur fræðasetur. Dúa vissi að ég myndi ætla í menntaskóla árið eftir og bauð mér niður eftir til að horfa á kennsluþætti í þýsku sem voru vikulega á dagskrá Sjónvarpsins. Pabbi hafði tekið í sig að ekki yrði keypt sjónvarp á sitt heimili fyrr en það kæmi í lit. Boð Dúu kom sér því vel. Vitaskuld var alltaf boðið upp á hressingu, bakkelsi og fínerí eftir kennslutímann og eftir samtal við Dúu hafði heimsóknin orðið mér lærdómsrík í fleiru en þýsku. Þetta varð mér vikuleg dekurstund, frí frá hversdagsverkum og svolítil ný gátt að heiminum.

 

Dúa var afar lagleg kona, smávaxin, kvik í hreyfingum og hláturmild. Óljósa hugmynd hafði ég um að hún hefði menntast en það var sannarlega ekki algengt meðal sveitakvenna um miðja síðustu öld. Fyrirmyndir stúlkna voru fáar að því leyti til og hver og ein því þeim mun mikilvægari. Það var hins vegar nóg af fyrirmyndum um dugnað kvenna og vinnusemi. Einhverntíma voru grannkonurnar að bera saman bækur sínar um hvað þær þyrftu mikið að sofa. Mamma og að mig minnir Ósk á Reykjum sögðust vera hálf ónógar sjálfum sér ef þær næðu ekki sex tíma svefni. Dúa sagðist vel komast af með fjóra. Þegar ég seinna las það í mannkynssögu að Napóleon hefði ekki þurft nema fjögurra tíma svefn, varð mér ljóst að hann og Dúa hefðu átt það sameiginlegt að vera smávaxin stórmenni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband