Konur þurfa ekkert að óttast

Konur þurfa ekkert að óttast þótt þær hafi aðeins hlotið þrjú sæti af tuttugu og fimm á stjórnlagaþinginu. Flestir þeirra sem voru kosnir hafa enda fullan skilning á þörfum kvenna og hafa lýst sig velviljaða konum.

Það er stundum grátlegt hvað fólk hefur lítið æft sig í að setja sig í annarra spor eða skipta út stökum orðum í orðræðu mismununar. Í áratugi höfum við lært að sjá í gegn um orðræðuna sem hefur einkennt ójafnvægi kynjanna en samt þekkir fólk ekki mynstrið þegar það endurtekur sig gagnvart öðrum hópum.

Ef við hugsum svo sem tvo þrjá áratugi aftur í tímann, þá var farið að tala um að þótt kvennamenning væri ólík karlamenningu væri ekki þar með sagt að hún væri síðri - og slíkur munur ætti ekki að hindra aðgang kvenna að öllum sviðum þjóðlífsins. Það var bent á keðjuverkunina af því hvernig karlar væru í forgrunni, störf karla væru meira metin en störf kvenna, bæði á vinnumarkaði og í félagslífi. Þar af leiðandi töluðu fjölmiðlar meira við karla og þannig var gildismatinu viðhaldið.

Einhverra hluta vegna er mörgum ofviða að sjá þetta sama mynstur milli þéttbýlis og dreifbýlis. Vel menntað fólk sem telur sig fordómalaust hefur engu að síður þá bjargföstu sannfæringu að staða landsbyggðarinnar eigi að vera „bak við eldavélina“. Landsbyggðin má að einhverju marki framleiða matvæli, hún ætti eiginlega að halda sig í slorinu. En landsbyggðin ætti t.d. hvorki að hafa fjölmiðla, sjúkrahús né háskóla. Það er hinn pólitíski rétttrúnaður dagsins í dag.

Í kastljósi í gær lýsti foringi stjórnlagaþingsins með líkingu nánu sambandi borgar og sveitar. Hann sagði þær vera systur. Hann tók það að vísu ekki fram að önnur systirin héti Öskubuska. En hún þarf líklega ekkert að óttast. Henni verður sjálfsagt tryggður réttur til að vera Öskubuska áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Konur þurfa ekkert að óttast þótt þær hafi aðeins hlotið þrjú sæti af tuttugu og fimm á stjórnlagaþinginu," segir þú.  Það er ein spurning sem vaknar í kollinum á mér og hún er þessi; má bjóða þér að kíkja aftur á listann og telja konurnar sem náðu kjöri?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 12:40

2 Smámynd: Ingibjörg Daníelsdóttir

Að sjálfsögðu voru konurnar tíu. Ég var hins vegar að leika mér að bera saman konur og landsbyggð sem minnihlutahópa. Ef konurnar hefðu verið aðeins þrjár og menn hefðu látið þessi orð út úr sér hefði allt orðið vitlaust. En af því að það var bara landsbyggðarfólk sem fór halloka finnst mörgum allt í lagi að segja svona lagað.

Ingibjörg Daníelsdóttir, 1.12.2010 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband