Hvers eðlis eru þáttaskil?
27.11.2010 | 12:21
Eftirvænting sem varð að engu var líklega sú tilfinnig sem sat í fólki fyrst eftir leiðtogafundinn í Höfða haustið 1986. Hver man ekki eftir spennuþrunginni sjónvarpsútsendingu þar sem myndefnið var hurðarhúnn Loks kom niðurstaðan: Ekkert samkomulag enginn árangur.
Fáum árum seinna varð flestum þó ljóst að fundurinn hafði opnað glugga fyrir nýjan skilning og nýja sýn, sem breytti stefnu heimsmálanna.
Mér líður eins og kosningarnar í dag séu svipaður viðburður. Hugur margra er svo bundinn fortíð og nútíð að þeir sjá ekki aðra möguleika og telja núverandi kerfi og aðferðafræði við stjórnun þjóðmála nánast vera náttúrulögmál. Sannarlega vilja margir breytingar en fólk er reitt, vonsvikið og vondauft. Úrtöluraddirnar telja ólíklegt að stjórnlagaþingið nái neinni niðurstöðu og þótt það kæmist að niðurstöðu myndu alþingismenn rífa hana í tætlur og endanleg útkoma yrði í besta falli útþynnt.
Jafnvel þótt allt færi á versta veg og við fengjum aðeins bragðdaufar breytingar á stjórnarskránni út úr þessari vinnu núna, þá held ég svo virkilega að aðferðafræðin við þjóðfundina og við persónukjörið opni okkur sýn á að það sé ýmislegt hægt. Þá verður ekki aftur snúið og þróunin mun að einhverju marki eignast eigið líf.
Svo skulum við ekki horfa fram hjá þeim möguleika að kjörið og vinna stjórnlagaþings lukkist nokkuð vel. Við getum alveg gert okkur grein fyrir því að það er að mörgu leyti hagstæðara að vinna þróunar- og tilraunavinnu í litlu samfélagi og lærdómur Íslendinga getur orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Örugglega verða gerð einhver mistök en það væru verri mistök að halda að sér höndum og hjakka í sama farinu. Að gera, læra af því og laga, er sú þríliða sem endurtekur sig nánast eins og hringferli í þróunarvinnu og framförum. Aðeins þannig breytum við mistökum í lærdóm og framfarir.
Kannski finnst fólki ekki blasa við stór breyting á íslensku stjórnarfari að ári liðnu en ég er sannfærð um að ný þróun er að hefjast. Það eru þáttaskil og þótt ekki væri nema með atkvæði mínu þykir mér heiður að vera þátttakandi í að skapa nýja framtíð.
Til hamingju með daginn!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessi skrif mamma.
Olga (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 20:11
Takk fyrir að lesa ;)
Ingibjörg Daníelsdóttir, 28.11.2010 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.