Bjargað frá pólitískri örvílnun ;)

Gömul kona benti mér á það fyrir einhverjum áratugum að viðfangsefni stjórnmála ætti að vera að leita eftir jafnvægi einstaklingsfrelsis og samábyrgðar.  Þessi einfalda en skýra sýn hefur bjargað mér frá pólitískri örvílnun.

Smám saman hefur það runnið upp fyrir mér hvernig þetta lögmál gildir ekki aðeins um klassíska togstreitu hægri og vinstri heldur velflest samskipti einstaklinga og samfélaga, allt frá heimilinu upp í alþjóðasamfélagið. Þetta er grunnregla jafnt siðferðis og stjórnmála. Ég segi ekki að viðfangsefnin séu alltaf auðveld. Nú erum við t.d. að ströggla við jafnvægi milli friðhelgi einkalífsins og gagnsæis. Það er afar viðkvæmt en mikilvægt málefni sem heyrir beint undir þetta lögmál.

Vitundin um þetta hefur gert mér auðveldara um vik að tala við fólk og virða skoðanir þess. Þótt fólk haldi fram gildi annars þáttarins á kostnað hins er svo gott að lenda ekki í að þrátta um hvort atriðið sé mikilvægara, heldur geta sagt sem svo: Jú þetta er grundvallaratriði sem ekki má horfa framhjá en við þurfum líka að horfa á fleiri þætti í samhengi.

Hitt er svo annað að við þurfum alltaf að hafa árangurinn í huga. Það er faktískt hægt að þrengja að einkarýminu án þess að það komi samfélaginu til góða. Stundum finnst mér sem teknir séu ókostirnir úr báðum áttum en kostirnir hafi gleymst, við njótum lítils samhugar, ábyrgðar eða öryggis þótt frelsi fólks séu settar verulegar skorður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband