Nei þetta er nú allt of mikið
13.11.2010 | 23:24
Þegar ég var að alast upp á Tannastöðum hékk þar á vegg mynd af síðhærðum sérkennilegum manni. Hann var okkur óskyldur en hann fylgdi staðnum. Afkomendur hans höfðu óskað þess og aldrei hvarflaði að neinu okkar annað en að það væri heiður að hafa uppi myndirnar af honum og konu hans.
Myndinni fylgdi saga. Hann hafði verið heiðraður af kóngi en hann brást við af mikilli hógværð og íslenskri kurteisi og honum varð að orði: Nei, þetta er nú allt of mikið! Þessi lítilláti maður sem hafði alist upp á Tann(a)stöðum ríflega hálfri annarri öld á undan mér hafði unnið það afrek að kortleggja Ísland auk þess að skrifa stjörnufræðirit og skáldrit en lengst mun hann hafa unnið við kennslu, m.a. við Bessastaðaskóla.
Á tímum þegar við eigum sífellt að vera að selja okkur, alltaf að halda því til haga hvað við séum snjöll og brilljant og klár ... æ, þá finnst mér nú notalegt að hugsa til Björns Gunnlaugssonar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.