Aðeins um eignarhald auðlinda

Ef við byrjum á grunninum, þá er ekki hægt annað en fallast á að jörðin sé sameign mannkyns (sem við deilum raunar með öðrum lífverum) og þannig er í raun vandséð hvernig hægt sé að fallast á einkaeign á einstökum hlutum hennar.

Engu að síður þurfum við að hafa leikreglur um nýtingu jarðargæða og í gegn um aldirnar þróuðust mál þannig að yfirráð urðu viðurkennd sem eign. Það kann að vera praktísk leið, m.a. til að viðhalda stöðugleika og hefur vissulega ýmsa kosti en fyrirkomulagið og hlutföllin þarf þó að endurskoða með tilliti til réttlætis, bestu nýtingar og náttúruverndar.

Þegar talað er um sameign náttúruauðlinda er oft óljóst hvað átt er við, oftast er það fiskurinn í sjónum, gjarna orkuauðlindir, hugsanlegar auðlindir undir yfirborði jarðar og jafnvel hér á landi er farið að tala um vatn. Land sem slíkt er síður til umræðu og land hefur á undanförnum áratugum verið afar lágt metið. Engu að síður er land grunnforsenda tilveru okkar, undirstaða matvælaframleiðslu og byggðar, auk flestra tegunda iðnaðar og tómstunda.

Ég er úr sveit og veit vel hversu mikla ást er hægt að hafa á landinu sínu þar sem maður þekkir hvern stein og hverja þúfu, og af hve miklum kærleika flestir bændur annast jarðir sínar. Ég kannast við hugtakið að vera landlaus sem í hugum margra er mesta lánleysi sem hugsast getur. Ég er sannfærð um að slík væntumþykja um stað og störf bætir árangur. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að sem flestir eigi þess kost að tengjast landi í gegnum eigna- eða nýtingarrétt. En um leið gerir það kröfu um að einstakir aðilar sitji ekki á stærra landi en þeir geta með góðu móti sinnt.

Í rauninni finnst mér stórkostlegt að við landnám hafi verið hugsað fyrir hófsemi við landtöku. Mér finnst eðlilegt að við nútímamenn séum ekki eftirbátar forfeðra okkar en setjum skorður við óhóflegri söfnun jarðnæðis á fárra hendur. Hvar mörkin eigi að liggja er ég ekki með svar við, enda krefst það yfirvegunar og samráðs. Ég sæi jafnvel fyrir mér ólíka flokka eftir því hvort landið væri nýtt eingöngu til einkanota og tómstunda s.s. fyrir sumarbústaði og hins vegar fyrir búskap þar sem landið væri í raun nýtt í almannaþágu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband