Rétt eða röng spurning?
6.11.2010 | 14:19
Fjölmargir, þar á meðar framámenn og fræðingar, spyrja allt að því í örvæntingu hvernig endurheimta megi almenna tiltrú á Alþingi og flokkakerfið.
Það er vissulega þörf á þjóðarsátt um stjórnkerfi og aðferðir sem geti á árangursríkan hátt stýrt þjóðfélaginu. En ég held að spurningin að framan sé röng. Við eigum ekki í övæntingu okkar að skjóta nýjum stoðum undir kerfi sem er hrunið kerfi sem hefur afsannað sig.
Ísland er ekki eina landið sem á í kreppu og við Íslendingar erum ekki einir um að þurfa að endurmeta gildi og aðferðir. Í öllum heimshlutum fara traust og samvinna milli einstaklinga og stjórnstofnana dvínandi. Víða hefur kosningaferlið á sér óorð vegna landlægrar spillingar. Ágallar kosningaferlisins eru m.a. aðgangur hagsmunaafla að digrum sjóðum, takmarkað valfrelsi sem er óaðskiljanlegt flokkakerfinu og brenglun á almennu viðhorfi gagnvart frambjóðendum vegna hlutdrægni í fjölmiðlum. Þetta veldur sinnuleysi, firringu og vonbrigðum og um leið vaxandi vonleysi um að hæfasta fólkið fáist til að takast á við meingallað þjóðskipulag. Hvert sem litið er blasir þó við augljós löngun eftir stofnunum sem muni framfylgja réttlæti, vinna gegn kúgun og hlynna að varanlegri einingu hinna ólíku þátta samfélagsins.
Þess vegna held ég öfugt við þá sem tala um að stjórnlagaþing sé sóun fjármuna og nær væri að einhenda sér í að endurreisa núvderandi kerfi að það sé kominn tími til að vinna að nýjum lausnum, ekki síst í því hvernig við stýrum samfélaginu.
Öll framþróun er lærdómsferli. Ég á ekki von á að væntanleg stjórnarskrá verði óskeikul uppskrift að draumsýn okkar um þúsundáraríki. En ég tel ómarksins vert að stíga einhver framfaraskref.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.