Hvernig nálgumst við mál og vinnum að niðurstöðu?

Ég sagði í síðasta pistli að það væri rökrétt afleiðing af vonbriðgðum með núverandi stjórnarfar að fólk vilji einfaldlega taka málin í sínar hendur, ekki sé nóg að velja milli pakkatilboða stjórnmálaflokkanna á fjögurra ára fresti, við verðum sjálf að fá að kjósa beint um öll stærstu mál.

Þótt það sé vissulega rétt að almenningur þurfi að hafa aukna aðkomu að málefnavinnu og samfélagsþróun, er líka auðvelt að sjá fyrir sér að hægt sé að ofnota bæði skoðanakannanir og atkvæðagreiðslu. Bent hefur verið á að stjórnmálamenn séu ekki lengur forystumenn ef þeir gera ekki annað en að bregðast við skoðanakönnunum. Og  hversu marktæk verður þjóðaratkvæðagreiðsla ef þátttaka er lítil, sem hún yrði eflaust fljótlega væri henni beitt um of.

Þrátt fyrir ríkan vilja sem birtist í mótmælum og baráttu, er umræða okkar ansi frumstæð. Bæði fjölmiðlar og þeir sem vinna skoðanakannanir eru of uppteknir af því að fá einhvers konar úrslit, og gefa lítinn gaum að forsendum eða rökræðu. Spurt er hvort fólk sé með eða á móti - hvernig hlutirnir eigi að vera, en síður er verið að bera saman hvað mæli með og hvað mæli gegn. Það er ekki nóg að hafa betur í valdabaráttu og koma sínum málum í höfn ef ákvörðunin er ekki byggð á skilningi og yfirvegun.

Almenn þáttaka í samfélagsumræðu er nauðsynleg til að færa sem flest sjónarmið fram í dagsljósið. Þannig skapast heildarsýn sem er forsenda fyrir ákvarðanatöku. Stjórnendur verða að mæta til þeirrar umræðu af heiðarleika án þess að ætla sér að ráðskast með viðhorf almennings. Slík samræða er forsenda fyrir því að almenningur og stjórnvöld geti litið viðfangsefnin sömu augum, sátt skapist um niðurstöður og traust geti ríkt í samfélaginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Inga

 Ertu með facebooksíðu?

Kv Dollý

Sólveig Adólfsdóttir (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband