Sjálfstæði skólastarfs

Fólk heldur áfram að togast á um hvað megi eða megi ekki gera innan skóla. Umræðan snýst mikið um hvort trúarbrögð séu jákvæð eða neikvæð.

En er ekki sjálfstæði skólanna aðalatriðið? Að enginn skoðanahópur eigi opinn aðgang inn í skólana – og að sveitarstjórnarmenn treysti fagfólki skólanna til að meta hvort og í hvaða tilvikum vel fari á að fá gesti í heimsókn í tengslum við námið eða fara í vettvangsheimsóknir.

Ég var svo hrifin af einu innleggi við eldri færslu hjá mér um málið, að mig langar að taka hana hér inn. Þar segir um heimsóknir og vettvangsferðir:

Aðallega held ég að það væri mun athyglisverðara fyrir börnin heldur en að kennarar þylji upp einhverjar staðreyndir. Og hvers konar staðreyndir eru það? Í trúarbragðasögu í menntaskóla fékk ég ýmsar staðreyndir um klæðaburð presta og hvað hverjir borðuðu og borðuðu ekki.

Kjarni trúarbragða er nú almennt ekki efnislegs eðlis og mér fyndist áhugaverðast að þeir sem vita best útskýri: Það er miklu áhugaverðara að heyra slökkviliðsmann greina frá starfi sínu en að kennarinn útskýri starfið. Það er miklu áhugaverðara að fá Malavíbúa til að segja frá Malaví heldur en íslenskan kennara.

Íslendingar eru svo logandi hræddir við trúarbrögð, af hverju? Þarf ekki bara að vanda til verks og passa undirbúning. Kennari útskýri vel áður en gestir koma í heimsókn að ekki hafi allir sömu lífssýn. Þarf ekki frekar að kenna börnum að vera gagnrýnin heldur en að passa að það komi enginn til að „heilaþvo þau“?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband