Sannsögli - undirstaða mannlegra dygða
24.10.2010 | 11:41
Hann pabbi minn talaði stundum um það hvað gömlu konurnar hefðu lagt mikið verk í það að kenna börnum að segja satt. Aðal kennslutækið var heiður. Það væri svo lítilmannlegt að segja ósatt. Vanþroski fólst ekki aðallega í að gera mistök heldur ekki síður í að reyna að breiða yfir þau og verst af öllu var að kunna ekki að skammast sín.
Sannsögli er ekki einangrað fyrirbæri, hún er undirstaða annarra dygða. Heiðarleiki er ekki aðeins það að fara að lögum heldur að virða sannleikann, forðast feluleik og blekkingar í öllum myndum líka gagnvart sjálfum sér. Þegar okkur finnst við hafa lítil áhrif á þjóðfélagið, munum þá að við greiðum atkvæði víðar en í kjörklefanum. Við greiðum t.d. atkvæði gegn heiðarleika ef við veljum nótulaus viðskipti.
Við berum öll ábyrgð á samfélaginu enda erum við samfélagið. Þótt við getum ekki ráðið miklu um heildina ættum við í það minnsta að reyna að tjónka við okkur sjálf. Það er mikil freisting að skrökva pínulítið að sjálfum sér. Það er þess vegna góður upphafspunkturað byrja á að reyna að vera ærlegur við sjálfan sig. Þannig getur okkur lærst að vera líka heiðarleg við aðra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.