Menningarfjölbreytni
11.10.2010 | 22:36
Árið 1992 var ég með í að halda á Ísafirði upp á alþjóðlega trúarbragðadaginn - sem eftir á að hyggja er fyrsta samkoma sem ég hef heyrt um, sem var beinlínis skipulögð í þeim tilgangi að fólk frá ólíkum löndum kæmi fram saman. Af ýmsum ástæðum varð ekki af því að leikurinn væri endurtekinn næstu árin en það var þó engu að síður ógleymanleg reynslan af þeim viðburði sem varð til þess að ákveðið var árið 1998 að halda upp á dag S.þ. gegn fordómum þann 21. mars. Þá var Ómar Ragnarsson enn fréttamaður og það var hann sem sló fram orðinu þjóðahátíð sem hefur verið notað síðan.
Á þessum tíma var varla byrjað að ræða um málefni aðkomufólks á Íslandi. Við sem stóðum að hátíðinni vorum bara nokkrar konur sem töluðum okkur saman um að prófa þetta. Fengum styrk fyrir frímerkjum svo við gætum sent út kynningarbréf en að öðru leyti var allt efni og öll vinna gefins. Bærinn lánaði okkur Grunnskólann.
Þegar atburðarásin tók svo af okkur völdin og snjóboltinn neitaði að stöðvast, urðum við auðvitað að stofna félag. Það heitir Rætur, félag áhugafólks um menningarfjölbreytni. Þjóðahátíðir urðu árvissar á tímabili. Árið 2001 var stærst. Þá fengum við styrk frá UNESCO til að halda hátíðina og vorum með mjög fjölbreytta dagskrá í flestum bæjunum á norðanverðum Vestfjörðum. Það ár sóttum við líka heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í S-Afríku gegn fordómum og ámóta umburðarleysi.
Það kom þó að því að við gerðum okkur grein fyrir að það væru ekki stórar og efnismiklar hátíðir sem myndu bræða saman gamla Vestfirðinga og aðkomufólkið, þær væru fínar til að vekja athygli á málefninu og til að sýna Íslendingum fram á að útlendingarnir ættu sér tilveru eftir að komið væri úr vinnugallanum. - Jú, þetta vakti mikla gleði og hrifningu. Og geysileg þátttaka Íslendinganna var ótvírætt merki um að þeir vildu svo gjarna kynnast nýja fólkinu og koma í veg fyrir aðskilnað. En svona hátíðir nægja ekki til þess að fólk kynnist og byrji að umgangast utan vinnutíma. Til þess þarf annars konar starf og þar þarf sífellt að leita nýrra leiða í takt við tíðarandann hverju sinni. Það held ég að sé mikilvægasti vettvangur svona félags; að leiða saman fólk í formlegu og óformlegu flélagslífi hversdagsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.10.2010 kl. 10:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.