Er ég í framboði?
10.10.2010 | 17:22
Það hefur komið fyrir í gegnum árin að ég hafi verið beðin um að koma inn í pólitískt starf en af því að ég er frábitin flokkadráttum hef ég ekki séð fyrir mér að ég gerði gagn á þeim vígvelli. Í sumar var fyrst nefnt við mig að gefa kost á mér til stjórnlagaþings. Mér fannst það satt að segja frekar langsótt að ég ætti erindi þangað inn, hvorki lögspekingur né atvinnupólitíkus.
Vegna vantrúar minnar á flokkapólitík hef ég hins vegar lengi talað fyrir því að í kosningum mætti velja það fólk sem maður treysti. Persónukjör myndi svara minni lýðræðisþörf betur en listakjör. Þegar ég versla vil ég velja hvert og eitt stykki í körfuna, ekki bara innkaupapoka sem aðrir hafa raðað í. Þar að auki hefur mér þótt framboð vafasöm aðferð við val í trúnaðarstörf. Lýðræði þarf að byggjast á óskum og vali kjósenda fremur en metnaði framgjarnra manna.
Þegar ég enn á ný var beðin um það nýlega að gefa kost á mér til stjórnlagaþingsins varð ég að viðurkenna að ég yrði að éta ofan í mig eitthvað af lýðræðistali mínu ef ég ætlaði að meina þeim sem þess óskuðu um að kjósa mig í þetta tímabundna verkefni. Það eru engar sérstakar efnislegar aðstæður sem kæmu í veg fyrir að ég tæki þátt í þessari vinnu ef til kæmi.
Ég er smámunasöm í orðavali og sannast að segja tel ég mig ekki verða í framboði þótt tilheyrandi eyðublöð noti það orðalag. Ég hef hins vegar dregist á að gefa kost á mér. Ég mun á engan hátt berjast fyrir kjöri en líta á þetta sem þegnskylduvinnu sem ég yrði að vinna eins vel og ég gæti ef svo ólíklega færi að ég yrði valin til hennar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.10.2010 kl. 12:18 | Facebook
Athugasemdir
Þú værir flott í þetta starf.
Dagný (IP-tala skráð) 12.10.2010 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.