Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Svar við fyrirspurn Biskupsstofu

Biskupsstofa hefur beðið þá sem eru í kjöri til stjórnlagaþings að gera grein fyrir afstöðu sinni til sambands ríkisins og þjóðkirkjunnar. Ég hef sent frá mér þetta svar:

Miðað við nýlegar skoðanakannanir og niðurstöðu þjóðfundar virðist meirihluti almennings vilja rjúfa núverandi tengsl ríkis og þjóðkirkju og eðlilegt er að til þess verði horft við gerð stjórnarskrárinnar. Ástæður þess að fólk vill rjúfa tengslin eru í stórum dráttum af tvennum toga og afar ólíkar.

  • Sumir vilja einfaldlega sem allra minnst trúarleg áhrif í samfélaginu, telja trú og trúarbrögð arf fortíðar sem ekki eigi erindi við upplýsta nútímamenn.  
  • Aðrir tala um að tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið skapi henni svo mikil forréttindi umfram önnur trúfélög að í raun sé fólki mismunað eftir trúfélögum. Það sé því í þágu jafnréttis að rjúfa þessi tengsl.

Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins beita raunar síðari rökunum líka óspart.

Sé litið til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og notar þjónustu hennar á stærstu stundunum á lífsleiðinni, og jafnframt að meðlimir annarra trúfélaga skipta þúsundum, má ætla að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll trúfélaga frekar en að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að það hversu lítið hefur verið gert úr siðferði og gildum á undanförnum árum og áratugum í samanburði við frama og efnishyggju, hafi skaðað samfélagið verulega. Við þurfum að rækta, ekki aðeins siðvit heldur siðræna færni sem undirstöðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Allt sem gert er í lífinu byggist á einhvern hátt á skoðunum og viðhorfum. Trú og lífsviðhorf eru því ekki einkamál eins og margir halda fram.

Þótt líkur bendi til að fallið verði frá þjóðkirkju fyrirkomulaginu við gerð nýrrar stjórnarskrár vona ég að hægt verði að búa svo um hnúta að fótunum verði ekki kippt undan starfsemi kirkjunnar í einni svipan en hún fái aðlögunartíma til að fóta sig við nýjar aðstæður. Aðskilnaðurinn kann líka að vera flóknari en sumir ætla, m.a. vegna eigna sem deila má um hvort séu eign trúfélags eða þjóðareign.

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi. Í svari mínu er ég að tjá mig sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi ráðsins.

 


Umræða um trúboð í skólum

Enn eina ferðina er komin upp býsna snörp umræða um að útrýma þurfi trúboði í skólum. Umræðan er mér nokkuð framandi þar sem ég minnist þess ekki að prestar eða aðrir fulltrúar trúfélaga væru gráir kettir inni í skólum, hvorki þegar ég var í skóla né börnin mín. Ég get ekki fullyrt hvort umræða um mikla aðkomu presta skólum eigi rétt á sér, ég þekki bara ekki nógu vel til skólastarfs til að meta það.

Það sem mér þætti eðlilegt er að skólar bjóði trú- og lífskoðunarfélögum að kynna trú sína og skoðanir á forsendum skólans t.d. undir umsjá kennara. Þekking á þeim flokkast ekki aðeins undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins heldur ætti hún að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum en skólinn verður sjálfur að setja rammann utan um þá kynningu.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband