Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvernig nálgumst við mál og vinnum að niðurstöðu?

Ég sagði í síðasta pistli að það væri rökrétt afleiðing af vonbriðgðum með núverandi stjórnarfar að fólk vilji einfaldlega taka málin í sínar hendur, ekki sé nóg að velja milli pakkatilboða stjórnmálaflokkanna á fjögurra ára fresti, við verðum sjálf að fá að kjósa beint um öll stærstu mál.

Þótt það sé vissulega rétt að almenningur þurfi að hafa aukna aðkomu að málefnavinnu og samfélagsþróun, er líka auðvelt að sjá fyrir sér að hægt sé að ofnota bæði skoðanakannanir og atkvæðagreiðslu. Bent hefur verið á að stjórnmálamenn séu ekki lengur forystumenn ef þeir gera ekki annað en að bregðast við skoðanakönnunum. Og  hversu marktæk verður þjóðaratkvæðagreiðsla ef þátttaka er lítil, sem hún yrði eflaust fljótlega væri henni beitt um of.

Þrátt fyrir ríkan vilja sem birtist í mótmælum og baráttu, er umræða okkar ansi frumstæð. Bæði fjölmiðlar og þeir sem vinna skoðanakannanir eru of uppteknir af því að fá einhvers konar úrslit, og gefa lítinn gaum að forsendum eða rökræðu. Spurt er hvort fólk sé með eða á móti - hvernig hlutirnir eigi að vera, en síður er verið að bera saman hvað mæli með og hvað mæli gegn. Það er ekki nóg að hafa betur í valdabaráttu og koma sínum málum í höfn ef ákvörðunin er ekki byggð á skilningi og yfirvegun.

Almenn þáttaka í samfélagsumræðu er nauðsynleg til að færa sem flest sjónarmið fram í dagsljósið. Þannig skapast heildarsýn sem er forsenda fyrir ákvarðanatöku. Stjórnendur verða að mæta til þeirrar umræðu af heiðarleika án þess að ætla sér að ráðskast með viðhorf almennings. Slík samræða er forsenda fyrir því að almenningur og stjórnvöld geti litið viðfangsefnin sömu augum, sátt skapist um niðurstöður og traust geti ríkt í samfélaginu.

 


Lýðræðisleg umræða

Það er iðulega talað um lýðræðislega umræðu – alltaf á jákvæðum nótum, að hennar sé þörf og þvíumlíkt. En ég hef voða lítið heyrt um hvað þetta fyrirbæri sé. Hvenær er umræða lýðræðisleg og hvenær ekki? Hvers vegna skortir á lýðræðislega umræðu á tímum upplýsinga og tjáningafrelsis?

Líklega er umræða ekki mjög lýðræðisleg ef hún einkennist af yfirgangi, skoðanakúgun eða þöggun. Kannski er ekki nóg að allir tjái sig. Sennilega hefur umræða ekki mikið lýðræðislegt yfirbragð nema hún sé einhvers konar samtal.

Ætli svarið sé ekki að það vanti lýðræðislega hlustun ...


Er lýðræði hnefaréttur?

Kofi Annan hálf sjokkeraði vesturlandabúa þegar hann sagði að í Afríku væri rík lýðræðishefð og Afríkubúar hefðu margt fram að færa sem snerti sanna merkingu og anda lýðræðis. Það felst nefnilega fleira í lýðræði en að meiri hluti ráði.

Því er ekki að neita að stundum líður manni eins og lýðræði sé fínna orð yfir hnefarétt – sá sterkari ræður.  Vinnulag og orðfæri miðast við keppni og baráttu (sigur og tap, standa vel að vígi, standa höllum fæti o.s.frv.). Frambjóðendur eru gerendur sem eiga að manipulera almenning til að kjósa sig. Almenningur á takmarkað val – sjaldnast er hægt að velja fólk, aðeins hópa atvinnupólitíkusa.

Þarna finnst mér fjórða valdið – fjölmiðlarnir – bera gríðarlega ábyrgð. Þeir njóta þess að gera kappleiki úr öllu. Óbeinu skilaboðin eru þau að venjulegu fólki henti afþreying, vitræn umræða sé þung og aðeins fyrir fagfólk og sérvitringa. Þetta gerist þrátt fyrir að formleg menntun sé meiri en nokkru sinni og möguleikar í miðlun sömuleiðis. Þrátt fyrir tal um upplýsingu og víðsýni er lítið gert til að glugga út fyrir pólitískan rétttrúnað augnabliksins.

Hvað með samstarf og samráð? Hvar er auðmýktin gagnvart framtíðinni og örlögum þjóðarinnar? Því þar liggur ábyrgðin.

Þið sem lesið ensku, kíkið endilega á þessa fallegu grein eftir Kofi Annan.

http://www.un.org/News/ossg/sg/stories/articleFull.asp?TID=28&Type=Article

 


Á landsbyggðinni eins og í öðrum landshlutum :)

„Auðvitað verður að skera niður, líka á landsbyggðinni eins og í öðrum landshlutum.“  Þetta gullkorn hraut af vörum ráðherra á fundi sem ég sótti í gærkvöldi.

Hverjir ætli séu helstu landshlutar á Íslandi?  LoL    Jú auðvitað var þetta mismæli en stundum eru mismæli leið óritskoðaðra viðhorfa upp á yfirborðið. Nú bíð ég eftir að hann láti verkin tala – og vona að verkin mismæli sig ekki.


Jöfnuður - eining - og þó fjölbreytileiki

Maðurinn minn á sér uppáhaldsklausu sem hann hefur gert að sinni heimspeki. Hann segist hafa þetta eftir Einstein:

Því eldri sem ég verð, þeim mun meira aðhyllist ég jöfnuð, því munurinn á þeim sem minnst veit og þess sem mest veit er svo óendanlega lítill miðað við það sem við vitum ekki.

 Helgirit bahá’í trúarinnar gefa þetta sjónarhorn:

Ó mannanna börn! Vitið þér eigi hvers vegna vér sköpuðum yður öll af sama dufti? Til þess að enginn skyldi upphefja sig yfir annan ...

Í menningu okkar höfum við gert of mikið af því að hugsa lóðrétt í einhvers konar goggunarröð eða virðingarstiga. Ef við sem manneskjur náum ekki að virða fólk sem jafningja þrátt fyrir að það sé ólíkt og búi við ólíkar aðstæður, hvernig getum við þá reiknað með að kerfi sem er búið til og starfrækt af fólki, geri ekki líka mannamun?

Raunar eru áhrifin í lífinu einhvers konar hringferli, við verðum fyrir áhrifum og höfum svo aftur áhrif. Ef okkur tekst að  búa til traustan lagaramma sem endurspeglar göfug lífsviðhorf, getur það haft áhrif á hvaða viðhorf og gerðir verði viðurkennd í framtíðinni.


Kynning eða áróður

Það hefur áður komið fram að ég er bahá’íi og kynntist þeirri trú fyrir tæpum 40 árum. Það er sífellt fróðlegra fyrir mig að átta mig á því hvernig viðhorf trúarinnar hafa síast inn á þessum tíma. Þar á meðal eru viðhorf mín til kosninga.

Í bahá’í trúnni er hvorki viðhaft framboð né kosningaáróður. Hluti af lýðræðishugmyndinni  er virðing fyrir sjálfstæðri hugsun og því ætti ekki, hvorki opinskátt eða með ísmeygilegum aðferðum að reyna að hafa áhrif á hvað fólk vilji kjósa.

Það að fólk sé algjörlega látið sjálft um að velja hverja það vill kjósa, gerir kjósandanum að vissu leyti erfitt fyrir. Þegar ekki er neitt framboð er kjörskráin sjálf í rauninni eini listinn yfir þá sem eru í kjöri. Kjósandinn þarf því einn og hjálparlaust að velja það fólk sem hann treystir til að vinna fyrir samfélagið. Hann neyðist til að hugsa sjálfur Wink

Hvernig er þetta hægt? Jú leiðsögnin er m.a. þessi:

Þess vegna ber ...að hugleiða án minnsta votts ástríðu og fordóma og án nokkurs tillits til efnislegra kringumstæðna nöfn þeirra einna, sem best fá sameinað nauðsynlega eiginleika óvéfengjanlegrar hollustu, óeigingjarns trúnaðar, vel þjálfaðs huga, viðurkenndra hæfileika og þroskaðrar reynslu.

 

Kjósandinn ætti að velja úr hópi þeirra sem hann telur hæfa til þjónustu, með viðeigandi hliðsjón af öðrum þáttum eins og aldursdreifingu, margbreytileika og kyni. Kjósandinn ætti að taka ákvörðun sína að lokinni vandlegri yfirvegun í langan tíma áður en kosningar hefjast.

Í tilviki kosninganna til stjórnlagaþings er ekki um langan tíma að ræða og við getum heldur ekki kosið það fólk sem við þekkjum og treystum best ef það er ekki formlega í kjöri. Því stöndum við frammi fyrir því að kjósa fólk sem við þekkjum ekki.

Ég geri mér þess vegna grein fyrir því að það er marklaust að vera í kjöri ef fólk hefur engan aðgang að upplýsingum um mig. Ég vil þess vegna reyna að vera dugleg að blogga svo að fólk geti fengið einhverja innsýn í hver ég er, hvers konar manneskja og hvernig ég hugsa.

Mér er ekki kappsmál að verða kjörin á stjórnlagaþingið, satt að segja stendur mér nokkur ógn af verkefninu. Hins vegar fellst ég á að til þess að skapa betra samfélag verðum við öll á einhvern hátt að stíga út úr þægindahring okkar. Óski fólk eftir þjónustu minni verð ég einfaldlega að gera mitt besta.

 


Kynning vegna stjórnlagaþings

Loksins dreif ég í því í gær að senda Svipunni og fleiri miðlum upplýsingar um mig vegna stjórnlagaþings. Kynninguna má sjá á slóðinni

http://www.svipan.is/?p=14632

 

 


Landsbyggðin er kona

„Staður konunnar er á bak við eldavélina“ var einu sinni frægt mismæli.  Sem betur fer er búið að finna upp kynjagleraugu og nú kunna flestir einhver skil á því hvernig orðræða getur átt ríkan þátt í mismunun. Barátta kvenna við að komast upp að hlið karla varðandi virðingu og þátttöku á ólíkum sviðum samfélagsins var, er og verður háð í heimi hugmynda og tilfinninga. Allt sem við segjum og gerum byggist nefnilega á hugmyndum okkar, skilningi og lífsviðhorfum. – Við getum lært mikið af áratuga vinnu á þessu sviði.

Bent var á að það byggðist á huglægu mati hvernig störf og hlutverk kvenna væru metin lægra en störf karla og þetta átti við á vinnumarkaði, inni á heimilinum og í félagslífi. útskýrt hefur verið að kvennamenning hafi verið öðru vísi en menning karla en ekki endilega minna virði.

Því hefur verið haldið fram að gangverk fordómanna sé alltaf hið sama. Fljótt á litið sýnist mér í það minnsta að vel megi bera saman stöðu kvenna fyrir einhverjum áratugum og stöðu landsbyggðarinnar nú. Þéttbýli er normið – dreifbýli er frávik. Staður landsbyggðarinnar á að vera í frumatvinnugreinunum fiskvinnslu og landbúnaði. Hlutverk eða verkefni sem talin eru „þróaðri“ eiga þar ekki heima. Það þarf tvo háskóla sinn hvors vegar við flugbrautirnar í Vatnsmýrinni en slíkar stofnanir ætti helst ekki að starfrækja á landsbyggðinni. Það er tímaskekkja að hafa sjúkrahús á landsbyggðinni og börn ættu ekki að fæðast þar. Þeim ætti hvergi að vera óhætt að koma í heiminn nema í Reykjavík.

Mig langar að taka sanna dæmisögu: Þegar þjóðahátíð var haldin í Bolungarvík fyrir um áratug var boðið fjölda fólks frá höfuðborgarsvæðinu sem kom á einhvern hátt að þjónustu við aðkomufólk á Íslandi. Þingmenn kjördæmisins höfðu lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum og Páll Pétursson félagsmálaráðherra tilkynnti á hátíðinni um stofnun slíkrar stofnunar. (http://www.mcc.is/) Undir ræðu Páls fór kliður um sætaröð boðsgestanna að sunnan sem ekki leyndu gremju sinni.

Ég átti síðar samtal við mæta konu sem sagði að þótt okkur sem stæðum að þessu starfi hér á Vestfjörðum gengi eflaust gott eitt til, þá yrði árangurinn annar. Þetta væri vísasti vegurinn til að svæfa málaflokkinn. Stofnun sem sett væri niður úti á landi fengi aldrei samsvarandi fjármagn og ef hún væri í Reykjavík, hún yrði því til lítils gagns. Það yrði að segjast eins og væri, að ráðamenn myndu aldrei hlusta með sömu respekt á fulltrúa stofnunar á landsbyggðinni og ef hún væri í Reykjavík! – Þessi kona hafði atvinnu af jafnréttismálum.

Ég er nú svo gömul að ég man orðrétt þessa sömu umræðu í kynjapólitíkinni; það borgaði sig ekki að hafa konur í forsvari, félaga, fyrirtækja eða stofnana vegna þess að það yrði ekki hlustað á þær af sömu respekt og karla, hversu hæfar og frambærilegar sem þær væru.

 


Nú verður ekki aftur snúið

Þannig hefur mér alltaf liðið þegar ég hef verið ófrísk - engin leið að sleppa við þessa fæðingu Wink

Nú er mér líkt farið, ég dróst á að gefa kost á mér til stjórnlagaþingsins. Skelegg kona tók að sér að safna meðmælendum og er búin að skila mér pakkanum. Ég verð hálf feimin að sjá nöfn þess góða fólks sem hefur ákveðið að mæla með mér en nú verður sem sagt ekki aftur snúið. Ég er búin að skila inn öllum gögnum og ekkert í stöðunni annað en að undirbúa sig og standa sína pligt ef til kemur.


Menningarfjölbreytni

Árið 1992 var ég með í að halda á Ísafirði upp á alþjóðlega trúarbragðadaginn - sem eftir á að hyggja er fyrsta samkoma sem ég hef heyrt um, sem var beinlínis skipulögð í þeim tilgangi að fólk frá ólíkum löndum kæmi fram saman. Af ýmsum ástæðum varð ekki af því að leikurinn væri endurtekinn næstu árin en það var þó engu að síður ógleymanleg reynslan af þeim viðburði sem varð til þess að ákveðið var árið 1998 að halda upp á dag S.þ. gegn fordómum þann 21. mars. Þá var Ómar Ragnarsson enn fréttamaður og það var hann sem sló fram orðinu þjóðahátíð sem hefur verið notað síðan.

            Á þessum tíma var varla byrjað að ræða um málefni aðkomufólks á Íslandi. Við sem stóðum að hátíðinni vorum bara nokkrar konur sem töluðum okkur saman um að prófa þetta. Fengum styrk fyrir frímerkjum svo við gætum sent út kynningarbréf en að öðru leyti var allt efni og öll vinna gefins. Bærinn lánaði okkur Grunnskólann.

            Þegar atburðarásin tók svo af okkur völdin og snjóboltinn neitaði að stöðvast, urðum við auðvitað að stofna félag. Það heitir Rætur, félag áhugafólks um menningarfjölbreytni.  Þjóðahátíðir urðu árvissar á tímabili. Árið 2001 var stærst. Þá fengum við styrk frá UNESCO til að halda hátíðina og vorum með mjög fjölbreytta dagskrá í flestum bæjunum á norðanverðum Vestfjörðum. Það ár sóttum við líka heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í S-Afríku gegn fordómum og ámóta umburðarleysi.

            Það kom þó að því að við gerðum okkur grein fyrir að það væru ekki stórar og efnismiklar hátíðir sem myndu bræða saman gamla Vestfirðinga og aðkomufólkið, þær væru fínar til að vekja athygli á málefninu og til að sýna Íslendingum fram á að útlendingarnir ættu sér tilveru eftir að komið væri úr vinnugallanum. - Jú, þetta vakti mikla gleði og hrifningu. Og geysileg þátttaka Íslendinganna var ótvírætt merki um að þeir vildu svo gjarna kynnast nýja fólkinu og koma í veg fyrir aðskilnað. – En svona hátíðir  nægja ekki til þess að fólk kynnist og byrji að umgangast utan vinnutíma. – Til þess þarf annars konar starf og þar þarf sífellt að leita nýrra leiða í takt við tíðarandann hverju sinni. – Það held ég að sé mikilvægasti vettvangur svona félags; að leiða saman fólk í formlegu og óformlegu flélagslífi hversdagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband