Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ég er líklega ekki feministi
24.10.2015 | 11:46
Ég er líklega ekki feministi. Samt finnst mér ég vera jafnréttissinni. En þegar ég var ung var hugmyndafræði jafnréttissinnaðra kvenna talsvert ólík þeirri mælistiku sem nú er beitt á jafnrétti og mér finnst raunar sú reglustika notuð af nokkrum strangleika til að berja á fingurna á okkur nemendum í skólastofu lífsins.
Þá þýddi jafnrétti frelsi og frelsi þýddi val en ekki skyldu til að gera allt á sama hátt og karlar. Ég lít svo á að frelsi sé óendanlega dýrmætt. Frelsi er gjarna möguleikinn til að geta það sama og aðrir en það er ekki síður möguleikinn til að fara sínar eigin leiðir frekar en margtroðnar leiðir annarra. Konurnar sem leiddu baráttuna þegar ég var að læra að hugsa um þessi mál, lögðu einmitt áherslu á að konur væru ekki karlar en þótt þær væru ólíkar þeim bæri ekki að meta þær minna og hefðbundin störf kvenna ætti að meta til jafns við hefðbundin karlastörf.
Ég fellst á að þarna vantar enn nokkuð upp á en ég er ekki sátt við þá framsetningu að okkur hafi mistekist þar til kynjahlutföll verði hnífjöfn í öllum starfsgreinum. Ég sé heldur ekki að gildismat mitt eigi að laga sig að efnishyggju nútímans og að ég sé ekki fullgild nema ég komi mér í hálaunastarf eða vinni sem flesta tíma utan heimilisins verði ofurkona. (Hef reyndar aldrei heyrt talað um ofurkarla hversu mikið sem þeir leggja á sig.)
Lengi fannst mér vanta upp á að karlar tækju sér sama frelsi og konur, frelsi til að opna upp gamla ramma á hvaða sviði sem væri. Nú finnst mér, þrátt fyrir allt, flestar dyr standa opnar bæði körlum og konum. Hvert er þá næsta skref? Ætli það sé ekki að velja sér leiðir til að nota frelsið, finna því verðug viðfangsefni, að við höfum eitthvað merkilegra fram að færa hvert við annað en að segja sæta, sæta á fésinu.
Ílát eða efniviður?
24.4.2012 | 11:48
Í síðasta pistli var ég að lýsa þeirri sannfæringu minni að röng viðhorf til mannlegs eðlis vanmat á eðlislægri andlegri getu mannsins hamli þeim framförum sem við ættum að ná í þroska einstaklingsins og framförum mannlegs samfélags. Vanmatið kemur m.a. fram í menntakerfinu sem hefur lengi einkennst af því að nemendur séu ílát fyrir þekkingu fremur en efniviður.
Ég er mjög sein að hugsa og sein að taka inn nýjar hugmyndir en á löngum tíma hefur þessi setning greypt sig inn í hugarheim minn og orðið mér viðmiðun til aukins skilnings:
Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim.
Nýlega skrifaði ungur maður ágætan pistil um þörfina fyrir breytt menntakerfi en út frá eigin reynslu finnst honum tíma nemenda sólundað http://www.visir.is/vid-thurfum-menntun-sem-hentar-21.-oldinni/article/2012704199983 Hann bendir á að nemendur þurfi að vera þátttakendur í lærdómsferlinu en ekki áhorfendur og segir að fróðleiksfýsn, sköpunarkrafti og jafnvel framkvæmdagleði sé misþyrmt í núverandi skólastarfi. Honum finnst að menntun eigi fyrst og fremst að stuðla að sterkri sjálfsmynd en henni fylgi bestu eiginleikar mannsins, s.s. ábyrgðartilfinning, siðgæði, frumleiki, sjálfstæð hugsun, sköpun, heiðarleiki, hugsjónir, auðmýkt, sjálfstraust, gjafmildi, sjálfsþekking og eldmóður. Með þessum kostum sé þekking, leikni og hæfni ekki langt undan.
Í greininni vísar Ísak til hugmynda Ken Robinson http://www.ted.com/speakers/sir_ken_robinson.html en þeir sem á annað borð geta nýtt sér efni á ensku ættu fortakslaust að kynna sér óborganlega fyrirlestra hans.
Erum við slæm inn við beinið?
22.4.2012 | 15:58
Svo illilega eru trú og trúarbrögð sett til hliðar í samfélagi okkar að almennt er gengið út frá því að trú sé einkamál, prívat sérviska sem fólki sé heimilt að hafa í krafti mannréttinda og hugsanafrelsis, en eigi ekki erindi inn í almenna þjóðfélagsumræðu. Jafnvel er því haldið fram, ýmist beint eða undir rós, að trúarbrögð séu uppspretta öfga og ofstækis ástæða haturs og ófriðar.
Það alvarlega við þessi viðhorf er að með slíkum grýlustimpli hefur að miklu leyti verið tepptur sá farvegur fyrir framfarir mannsandans sem trúarbrögðin hafa verið frá upphafi og ættu með réttu að vera um alla framtíð. Við trúum öll á efnislegar eða tæknilegar framfarir, af hverju erum við þá ekki tilbúin að trúa á mannbætandi andlegan vöxt manns og samfélags?
Ég geri mér vel grein fyrir að mannlegir forsvarsaðilar trúarbragða hafa skrumskælt ásýnd þeirra, en sjálfstætt hugsandi fólk ætti að geta séð í gegnum orð og gerðir spilltra ráðamanna og séð þá leiðsögn um andlegt eðli mannsins sem öll trúarbrögð snúast um.
Í hinni efnislegu umræðu verður spurningin um eðli mannsins útundan. Ég hef oft rekið mig á að þegar við horfum til þjóðfélagsins hættir okkur til að finnast fólk vera lélegt. Það sé eigingjarnt, spillt og jafnvel illa innrætt. En þegar við horfum á nýfædda sólargeislann í fjölskyldunni, barn eða barnabarn, þá er sú litla mannvera alsaklaus og velfarnaðaróskir okkar hreinar og fölskvalausar.
Tilraunir okkar til að byggja upp samfélög hljóta að byggjast á einhverri hugmynd um hvers konar fyrirbæri manneskjan er. Ef við trúum því að manneskjan sé vond, frek og óheiðarleg í eðli sínu, setjum við líklega annars konar markmið og stöndum öðru vísi að verki en ef við álítum að fólk sé gott og göfugt ef það nær að þroskast eðlilega.
Mér sýnist að nú þegar trúarbrögðin hafa að mestu verið afskrifuð hafi trúin á göfgi og gildi mannsins smám saman glatast líka. Alla vega tala afar sterkt til mín eftirfarandi klausa úr skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar, æðstu stjórnstofnun baháí trúarinnar, sem árlega sendir baháíum um allan heim umhugsunarefni á ridván hátíðinni sem nú stendur yfir:
... þrátt fyrir lofsverða viðleitni velmeinandi einstaklinga í öllum löndum sem vinna að þjóðfélagsumbótum, virðist mörgum sem hindranirnar á þeirri leið séu óyfirstíganlegar. Vonir þeirra stranda á röngum ályktunum um mannlegt eðli ályktunum sem gegnsýra svo hefðir og lífshætti mikils hluta nútímasamfélags að á þær er litið sem góðar og gildar staðreyndir. Þessar ályktanir taka ekki mið af því mikla forðabúri andlegra möguleika sem er aðgengilegt sérhverri upplýstri sál sem vill nýta sér það; í staðinn er treyst á réttlætingu mannlegra bresta og veikleika en dæmin um slíkt auka daglega almenna örvæntingu. Lagskiptur hjúpur af fölskum forsendum hylur þannig þau grundvallarsannindi að ástand heimsins endurspeglar skrumskælingu mannsandans, ekki innra eðli hans.
Ég er sem sé að vona að við séum ekki svo slæm inn við beinið. Nýfætt barn geti orðið góð manneskja sem taki út þroska alla ævi og ef við vinnum með hinn góða efnivið getum við byggt samfélag sem við verðum sátt við að búa í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar
18.3.2012 | 10:52
Það er mér minnisstætt þegar ónefndur háttsettur aðili innan Vegagerðarinnar kom í heimsókn til okkar starfsmanna Vegagerðarinnar á Dagverðardal, og eins og gengur og gerist leit hann inn til okkar í umferðarþjónustunni. Eftir vanalegar kveðjur varð honum litið á færðarkortið sem var á stórum veggskjá. Það er bara allt grænt í dag! varð honum að orði en grænn litur á vegi þýðir að vegurinn sé greiðfær eða auður.
Á kortinu voru vegir auðir á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. Það voru að vísu mörg hundruð kílómetrar á Norður- og Austurlandi dökkbláir sem þýðir að þeir voru flughálir. Þá er ég ekki að tala um vanalega vetrarfærð, heldur að vegir voru svo hálir að sérstök ástæða var til að vara fólk við.
Ámóta stórt svæði og það sem var greiðfært, var sem sé hættulegt fyrir umferð en það greip ekki athygli yfirmannsins, enda var hann ekki vanur að horfa í þá átt.
Hvers vegna er þetta mér ógleymanlegt? Jú það er vegna þess að þetta litla atvik hefur kennt mér smávegis um það hvernig sálartetrið og hugurinn vinna upplýsingar. Við sjáum og skiljum best það sem stendur okkur nærri. Þetta skýrir býsna margt, m.a. að ólíkir hópar fólks þurfa að eiga fulltrúa þar sem umræða fer fram og ákvarðanir eru teknar og það skýrir hvers vegna þingmenn hætta smám saman að vera raunverulegir fulltrúar upphaflegra samfélaga sinna þegar líf þeirra fer ekki lengur fram í kjördæminu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vestfirðir - einn landshluti eða fleiri?
17.3.2012 | 09:18
Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum skiptast í stórum dráttum í tvo klasa, á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum. Milli þeirra er frumbýlislegur vegarslóði, mera en hálfrar aldar gmall, opinn á sumrin. Í raun er þarna aðeins um ferðamannaveg að ræða því engin alvöru samskipti í atvinnu eða samfélagslífi geta byggst á vegi sem, auk þess að vera hættulegur og erfiður, er aðeins opinn léttri umferð hluta ársins.
Út frá landafræðinni ættu Bílddælingar og Þingeyringar að vera nágrannar en vegna þess að heilsársvegi hefur aldrei verið komið á eru rúmir 530 kílómetrar á milli þeirra!
Vestfirðingar eru vanir slæmum samgöngum. Svo vanir að þeir næstum því líta á þær sem náttúrulögmál - kannski ekki vitandi vits en í undirmeðvitundinni. Fyrir vikið er fólki ekki tamt að horfa á þá möguleika sem gætu opnast við þá mörg hundruð km styttingu milli samfélaganna sem yrði við Dýrafjarðargöng sem hafa verið undirbúin en enn er deilt um hve lengi skuli fresta.
Í stað þess að þessar náskyldu byggðir njóti samlegðar og stuðnings af raunverulegri landfræðilegri nálægð er þeim enn stíað sundur vegna skorts á samfélagsskilningi ráðamanna. Í stað þess að vera sterk heild eru þær tvö jaðarsvæði, hvort á sínum enda vegakerfisins.
Rétt er að benda á að í þessum málum hafa Vestfirðingar ekki aðeins þurft að sætta sig við að bíða eftir bættum samgöngum, heldur hafa samgöngur beinlínis verið lagðar niður. Menn höfðu samgöngur bæði á sjó og í lofti en hvort tveggja var lagt af án þess að vegabætur kæmu í staðinn.
Það sem gerir samgönguleysið enn grátlegra er að þegar horft er á Vestfjarðakjálkann blasir Dýrafjörður við sem miðpunktur þar sem landrými og landgæði eru áberandi. Uppbygging á því kjörsvæði Vestfjarða getur ekki hafist af neinu viti fyrr en jarðgöng verða að veruleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2012 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er til brúklegt módel að góðu samfélagi?
28.4.2011 | 18:00
Ólga og kröfur um þjóðfélagsbreytingar í norðanverðri Afríku og við botn Miðjarðarhafs hafa ekki farið fram hjá neinum. Þörfin fyrir breytingar er ótvíræð en hver verður þróunin, hver stýrir henni, hvernig og hvert? Eiga þjóðfélög sem nú rísa upp til umbóta á hættu að fara úr öskunni í eldinn?
Baháí samfélagið í Egyptalandi tók sér til og skrifaði samborgurum sínum opið bréf. Þar er rakið hvernig krafan um að vera gerandi í að móta eigin örlög er þroskamerki jafnt einstaklinga sem þjóða og að sú þróun sé hnattræn, jafnvel þótt hún fari mishratt í ólíkum samfélögum. Allsstaðar er fólk að átta sig á að hegðun sem leiðir til átaka, spillingar og ójöfnuðar er ósamrýmanleg þeim gildum sem réttlátt samfélag byggist á og er tilbúið að hafna viðhorfum og kerfum sem hindra eðlilegt þroskaferli. Þessi framfaraþrá almennings á sér nú ögurstund í Egyptalandi en hún mun ekki vara til eilífðar. Þjóðin stendur á krossgötum, valið stendur um margar leiðir, hver þeirra verður farin?
Baháí samfélagið bendir á augljósar hættur og spyr:
Ætlum við að stefna í sundurlaust einstaklingshyggjusamfélag þar sem hver og einn telur sér frjálst að keppa að sínum eigin einkahagsmunum, jafnvel á kostnað samfélagsins? Ætlum við að láta ginnast af efnishyggju og fylgifiski hennar, neysluhyggjunni? Ætlum við að velja kerfi sem nærist á trúarlegu ofstæki? Erum við tilbúin til að leyfa þróun yfirstéttar, sem ekki skeytti um sameiginlegar væntingar okkar og sæktist jafnvel eftir að nýta þrá okkar eftir breytingum sér í hag? Eða munum við jafnvel láta þetta tækifæri til breytinga líða hjá, leysast upp í ýfingum sérhagsmunahópa eða gefa eftir undan þunga tregðulögmáls í stofnanamenningu?
Þörfin fyrir árangursríka þjóðfélagsgerð sem stæði undir væntingum er ótvíræð um allan heim. Ef ekkert þeirra módela sem hafa verið reynd til þessa fullnægir kröfum okkar, kæmi vel til greina að draga upp nýja atburðarás og sýna þjóðum heims fram á að hægt sé að skipuleggja samfélag á raunverulega framsækinn hátt.
Í framhaldinu er farið í þær hugmyndir sem ný þjóðfélagsgerð þyrfti að hvíla á. Ég læt þetta hins vegar duga sem fyrsta vers. Mér sýnast þessar hugleiðingar eiga vel við á Íslandi og hver veit nema ég haldi áfram með endursögn bréfsins við tækifæri. Þeir sem eiga auðvelt með að lesa ensku geta séð bréfið í heild á slóðinni:
http://www.bahai-egypt.org/2011/04/open-letter-to-people-of-egypt.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.4.2011 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Félagar mínir í Langtbortistan
18.12.2010 | 09:58
Einstaka sinnum kemur fólk frá Langtbortistan inn í eldhús til manns. Í júní 1983 voru tíu konur hengdar í Íran öðrum til viðvörunar, fyrir þær sakir að kenna börnum sem rekin höfðu verið úr skóla af því að fjöslkyldur þeirra voru baháíar. Mona, sú yngsta hefði orðið átján ára um haustið en elsta konan var 54 ára. Einni stúlku úr hópnum hafði verið sleppt, líkast til í þeirri von að hún leiddi njósnara yfirvalda á sporið til fleiri baháía. Hún komst hins vegar fótgangandi úr landi í skjóli nætur og fékk landvist í Kanada. Fáeinum árum síðar sat hún í eldhúsinu hjá mér, lék við börnin mín og sagði mér og vinafólki mínu sögu sína.
Seinna, þegar ég vann í Townshend skólanum í Tékklandi, hafði ég yfirmanneskju frá Íran. Ramona sem var einn af eigendum skólans hafði yfirumsjón með heimavistinni. Móðir hennar sem kom nokkrum sinnum í heimsókn hafði verið í fangelsi vegna trúarinnar um tíma en faðir hennar hafði hins vegar setið í þjóðarráði baháía í Íran. Allir meðlimir þess voru handteknir og eftir það spurðist ekkert til þeirra. Þrettán árum síðar fékkst staðfest að allir hefðu verið teknir af lífi.
Fyrir vikið er það ekki jafn fjarlægt þegar ég heyri af harðræði félaga minna í Íran sem virðast engan endi ætla að taka.
Eftir að tvö þjóðarráð höfðu verið líflátin varð að samkomulagi við írönsk stjórnvöld að sett yrði á fót sjö manna nefnd til að sjá um brýnsutu þarfir baháí samfélagsins en stjórnkerfi þessa ríflega 300 þúsund manna samfélags yrði lagt niður. Fólkið sem var í þeirri nefnd, sjö manns á aldrinum 37 til 77 ára, var svo handtekið og sett í Evin fangelsið fyrri hluta árs 2008. Réttarhöld yfir því hófust þó ekki fyrr en í ár. Þegar ákærur voru loks birtar hljóðuðu þær m.a. upp á njósnir fyrir Ísrael, móðgun við trúarleg yfirvöld og að hafa útbreitt spillingu á jörðinni. Dauðadómur blasti við en vegna þrýstings alþjóðasamfélagsins var látið nægja að dæma fólkið til 20 ára fangavistar. Eftir áfrýjun var dómurinn mildaður í tíu ár.
Nokkuð þungur dómur samt fyrir uppdiktaðar sakir ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Konur þurfa ekkert að óttast
1.12.2010 | 11:12
Konur þurfa ekkert að óttast þótt þær hafi aðeins hlotið þrjú sæti af tuttugu og fimm á stjórnlagaþinginu. Flestir þeirra sem voru kosnir hafa enda fullan skilning á þörfum kvenna og hafa lýst sig velviljaða konum.
Það er stundum grátlegt hvað fólk hefur lítið æft sig í að setja sig í annarra spor eða skipta út stökum orðum í orðræðu mismununar. Í áratugi höfum við lært að sjá í gegn um orðræðuna sem hefur einkennt ójafnvægi kynjanna en samt þekkir fólk ekki mynstrið þegar það endurtekur sig gagnvart öðrum hópum.
Ef við hugsum svo sem tvo þrjá áratugi aftur í tímann, þá var farið að tala um að þótt kvennamenning væri ólík karlamenningu væri ekki þar með sagt að hún væri síðri - og slíkur munur ætti ekki að hindra aðgang kvenna að öllum sviðum þjóðlífsins. Það var bent á keðjuverkunina af því hvernig karlar væru í forgrunni, störf karla væru meira metin en störf kvenna, bæði á vinnumarkaði og í félagslífi. Þar af leiðandi töluðu fjölmiðlar meira við karla og þannig var gildismatinu viðhaldið.
Einhverra hluta vegna er mörgum ofviða að sjá þetta sama mynstur milli þéttbýlis og dreifbýlis. Vel menntað fólk sem telur sig fordómalaust hefur engu að síður þá bjargföstu sannfæringu að staða landsbyggðarinnar eigi að vera bak við eldavélina. Landsbyggðin má að einhverju marki framleiða matvæli, hún ætti eiginlega að halda sig í slorinu. En landsbyggðin ætti t.d. hvorki að hafa fjölmiðla, sjúkrahús né háskóla. Það er hinn pólitíski rétttrúnaður dagsins í dag.
Í kastljósi í gær lýsti foringi stjórnlagaþingsins með líkingu nánu sambandi borgar og sveitar. Hann sagði þær vera systur. Hann tók það að vísu ekki fram að önnur systirin héti Öskubuska. En hún þarf líklega ekkert að óttast. Henni verður sjálfsagt tryggður réttur til að vera Öskubuska áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.1.2011 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvers eðlis eru þáttaskil?
27.11.2010 | 12:21
Eftirvænting sem varð að engu var líklega sú tilfinnig sem sat í fólki fyrst eftir leiðtogafundinn í Höfða haustið 1986. Hver man ekki eftir spennuþrunginni sjónvarpsútsendingu þar sem myndefnið var hurðarhúnn Loks kom niðurstaðan: Ekkert samkomulag enginn árangur.
Fáum árum seinna varð flestum þó ljóst að fundurinn hafði opnað glugga fyrir nýjan skilning og nýja sýn, sem breytti stefnu heimsmálanna.
Mér líður eins og kosningarnar í dag séu svipaður viðburður. Hugur margra er svo bundinn fortíð og nútíð að þeir sjá ekki aðra möguleika og telja núverandi kerfi og aðferðafræði við stjórnun þjóðmála nánast vera náttúrulögmál. Sannarlega vilja margir breytingar en fólk er reitt, vonsvikið og vondauft. Úrtöluraddirnar telja ólíklegt að stjórnlagaþingið nái neinni niðurstöðu og þótt það kæmist að niðurstöðu myndu alþingismenn rífa hana í tætlur og endanleg útkoma yrði í besta falli útþynnt.
Jafnvel þótt allt færi á versta veg og við fengjum aðeins bragðdaufar breytingar á stjórnarskránni út úr þessari vinnu núna, þá held ég svo virkilega að aðferðafræðin við þjóðfundina og við persónukjörið opni okkur sýn á að það sé ýmislegt hægt. Þá verður ekki aftur snúið og þróunin mun að einhverju marki eignast eigið líf.
Svo skulum við ekki horfa fram hjá þeim möguleika að kjörið og vinna stjórnlagaþings lukkist nokkuð vel. Við getum alveg gert okkur grein fyrir því að það er að mörgu leyti hagstæðara að vinna þróunar- og tilraunavinnu í litlu samfélagi og lærdómur Íslendinga getur orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Örugglega verða gerð einhver mistök en það væru verri mistök að halda að sér höndum og hjakka í sama farinu. Að gera, læra af því og laga, er sú þríliða sem endurtekur sig nánast eins og hringferli í þróunarvinnu og framförum. Aðeins þannig breytum við mistökum í lærdóm og framfarir.
Kannski finnst fólki ekki blasa við stór breyting á íslensku stjórnarfari að ári liðnu en ég er sannfærð um að ný þróun er að hefjast. Það eru þáttaskil og þótt ekki væri nema með atkvæði mínu þykir mér heiður að vera þátttakandi í að skapa nýja framtíð.
Til hamingju með daginn!
Flugstjórnarklefi nútímanns
25.11.2010 | 15:41
Það eru komin ansi mörg ár síðan ég sá sjónvarpsþátt með nokkurn veginn þessari yfirskrift. Ég er ekki sérstök áhugamanneskja um flug en þátturinn heillaði mig gjörsamlega og gaf mér nýja pólitíska sýn.
Þátturinn fjallaði um að frumkvöðlar flugsins, hetjur fortíðarinnar, væru að líkindum stórhættulegir í flóknum flugstjórnarklefum nútímanns. Eiginleikar gömlu frumkvöðlanna, einlyndi og kjarkur, að geta tekið áhættu þrátt fyrir viðvaranir og úrtöluraddir, vera skjótir til ákvarðana og taka þær einir, allt voru þetta eiginleikar sem urðu til þess að maðurinn hóf sig til flugs. Núna er hins vegar í svo mörg horn að líta í flugstjórnarklefanum að það þarf athygli fleiri en eins. Að taka áhættu með farþegaþotu er ekki inni í myndinni. Frumskylda flugstjórans er að hlusta á allar aðvaranir. Flug er sem sé samvinnuverkefni.
Eigi þetta við um flugstjórnarklefann, hvað þá með nútímaþjóðfélag? Ég fæ þess vegna alltaf pínulítið fyrir hjartað þegar ég heyri fólk kalla eftir alvöru forystu og á þá við hörkutól sem láta mannskapinn sitja og standa að vild. Nútíma verkstjórn byggist á að laða fram getu og hugmyndir allra og spinna band úr mörgum þráðum. Í heimi íþróttanna er löngu viðurkennt að liðsheild er annað og meira en summa stakra leikmanna.
Í þessu ljósi er ég hrifnari af samráði en einleik alveg sérstaklega í stjórnmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)