Er til brúklegt módel að góðu samfélagi?


Ólga og kröfur um þjóðfélagsbreytingar í norðanverðri Afríku og við botn Miðjarðarhafs hafa ekki farið fram hjá neinum. Þörfin fyrir breytingar er ótvíræð – en hver verður þróunin, hver stýrir henni, hvernig og hvert? Eiga þjóðfélög sem nú rísa upp til umbóta á hættu að fara úr öskunni í eldinn?

Bahá‘í samfélagið í Egyptalandi tók sér til og skrifaði samborgurum sínum opið bréf. Þar er rakið hvernig krafan um að vera gerandi í að móta eigin örlög er þroskamerki jafnt einstaklinga sem þjóða og að sú þróun sé hnattræn, jafnvel þótt hún fari mishratt í ólíkum samfélögum. Allsstaðar er fólk að átta sig á að hegðun sem leiðir til átaka, spillingar og  ójöfnuðar er ósamrýmanleg þeim gildum sem réttlátt samfélag byggist á og er tilbúið að hafna viðhorfum og kerfum sem hindra eðlilegt þroskaferli. Þessi framfaraþrá almennings á sér nú ögurstund í Egyptalandi en hún mun ekki vara til eilífðar. Þjóðin stendur á krossgötum, valið stendur um margar leiðir, hver þeirra verður farin?

Bahá‘í samfélagið bendir á augljósar hættur og spyr:  

Ætlum við að stefna í sundurlaust einstaklingshyggjusamfélag þar sem hver og einn telur sér frjálst að keppa að sínum eigin einkahagsmunum, jafnvel á kostnað samfélagsins? Ætlum við að láta ginnast af efnishyggju og fylgifiski hennar, neysluhyggjunni? Ætlum við að velja kerfi sem nærist á trúarlegu ofstæki? Erum við tilbúin til að leyfa þróun yfirstéttar, sem ekki skeytti um sameiginlegar væntingar okkar og sæktist jafnvel eftir að nýta þrá okkar eftir breytingum sér í hag? Eða munum við jafnvel láta þetta tækifæri til breytinga líða hjá, leysast upp í ýfingum sérhagsmunahópa eða gefa eftir undan þunga tregðulögmáls í stofnanamenningu?

Þörfin fyrir árangursríka þjóðfélagsgerð sem stæði undir væntingum er ótvíræð um allan heim. Ef ekkert þeirra módela sem hafa verið reynd til þessa fullnægir kröfum okkar, kæmi vel til greina að draga upp nýja atburðarás og sýna þjóðum heims fram á að hægt sé að skipuleggja samfélag á raunverulega framsækinn hátt.

Í framhaldinu er farið í þær hugmyndir sem ný þjóðfélagsgerð þyrfti að hvíla á. Ég læt þetta hins vegar duga sem fyrsta vers. Mér sýnast þessar hugleiðingar eiga vel við á Íslandi og hver veit nema ég haldi áfram með endursögn bréfsins við tækifæri. Þeir sem eiga auðvelt með að lesa ensku geta séð bréfið í heild á slóðinni:

http://www.bahai-egypt.org/2011/04/open-letter-to-people-of-egypt.html



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband